

Leikarinn Kevin Spacey var eitt sinn virtur leikari en fyrir sjö árum síðan var hann sakaður um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Síðan þá hefur líf hans farið niðurleið og er hann í dag heimilislaus.
„Ég bý á hótelum eða Airbnb íbúðum. Ég fer þar sem ég fæ vinnu,“ sagði hann í nýlegu samtali við The Telegraph. „Ég bókstaflega á ekki heimili, það er það sem ég er að reyna að segja.“
Leikarinn sagði einnig að fjárhagsstaða hans væri „ekki frábær“ en hann væri þó ekki gjaldþrota.
„Mér líður smá eins og ég sé aftur kominn á byrjunarreit,“ sagði hann. „Allt er í geymslu og ég vona að ef hlutirnir lagast einn daginn þá geti ég skapað mér heimili á ný.“
Spacey var árið 2023 sýknaður af ásökunum fjögurra karlmanna sem sökuðu hann um kynferðisbrot. Hann hefur einnig alltaf neitað sök en gekkst við því að hafa verið „fjölþreifinn“ í samskiptum sínum við karlmenn í gegnum tíðina.
Leikarinn var fyrir nokkrum árum síðan einn virtasti leikarinn í Hollywood en hefur nú fallið í ónáð eftir fjölda ásakana um kynferðisbrot. Í fyrra kom út heimildarmyndin Spacey Unmasked þar sem rætt var við 10 karlmenn sem sögðust hafa lent í Spacey, en enginn þessara 10 hafði þó formlega kært leikarann. Spacey hefur gagnrýnt myndina fyrir að vera einhliða umfjöllun sem byggi á nafnlausum sögum sem hann hafi ekki fengið að svara fyrir. Hann minnti á að fjögur mál hafi verið tekin fyrir af dómstólum og hann í öllum tilvikum sýknaður.