Að fleygja rusli út um bílrúðu er athæfi sem fáum myndi koma til hugar að gera í dag. En á síðustu öld þótti það lítið tiltökumál að kasta einhverju út um gluggann.
Hefur þetta verið rifjað upp í umræðum á samfélagsmiðlinum Reddit. Það er að það hafi ekki þótt bersyndugt athæfi að kasta rusli út um bílrúður.
„Er það misskilningur hjá mér að það hafi ekki þótt neitt tiltökumál að henda rusli út um gluggann langt fram á tíunda áratuginn?“ spyr einn. „Í minningunni sá maður reglulega eitthvað fljúga út um gluggann á bílnum á undan, og mér finnst eins og „hentu þessu bara út um gluggann“ hafi oft á tíðum heyrst í fjölskyldubílnum.“
Segir hann að í dag myndi engin eðlileg manneskja gera þetta nema í ítrustu neyð og fullvissu um að enginn sæi til.
Og þetta er enginn misskilningur. Það var mjög algengt að rusli væri kastað út úr bílum allt fram undir lok síðustu aldar. Meðal annars var fjallað um málið í blaðinu NT í janúar árið 1985.
„20 sígarettustubbar, 12 glerbrot, 2 ölflöskutappar og 3 pappírssneplar. Allt á fjórðungi úr fermetra á grasbletti við Hallarmúlann. Og svipað er ástandið víðast hvar í borginni nú þegar grasið hefur afklæðst snjónum. Hvolft er úr öskubökkum út um bílrúðu og logandi sígarettustubbar látnir fljúga út, væntanlega til þess að öskubakkinn fyllist síður. Semsagt sóðaskapur,“ segir í greininni.
Þrjátíu manns störfuðu við gatnahreinsun hjá Reykjavíkurborg en það var hvergi nærri nóg til að sinna öllu. Árið 1984 var 20 milljónum króna varið í gatnahreinsun. En það gerir 325 milljónir króna á núverandi verðlagi.
Stór ástæða fyrir því að svo mikið þurfti að hafa fyrir því að þrífa göturnar var að fólk kastaði rusli hvar sem það gekk. Ekki síst út um bílrúður því þá hvarf ruslið á augabragði og sóðinn þurfti ekki að hugsa um það meir. Hann vissi ekki einu sinni hvert það hefði fokið.
Sóðaskapurinn var svo mikill að borgin réði ekki við að tína allt rusl af umferðareyjum og torgum. Vélsópar urðu að duga víðast hvar, það er fyrir það rusl sem var á sjálfum götunum.
„Ruslið bíður síns tíma, sumt fýkur yfir á götuna, annað sér um að halda leiðindasvip á bænum nokkra hríð en hverfur svo ofan í jarðveginn,“ segir í grein NT.
Reynt var að höfða til samvisku fólks með átaki. Meðal annars undir yfirskriftinni „Hrein torg – Fögur borg.“ En það gekk hægt.
Í grein í Morgunblaðinu í maímánuði árið 1987 voru ökumenn hvattir til þess að henda ekki drasli úr bílum á göturnar. Hrein borg ætti að vera stolt Reykvíkinga.
„Sumir virðast hugsa með sér að þegar fólk er komið frá sínu eigin heimili megi allt flakka,“ skrifar Þorsteinn Magnússon í greininni. „Mér til mikillar undrunar hef ég oftar en einu sinni séð, þegar ég hef ekið um götur bæjarins, farþega í bílum eða ökumanninn sjálfan kasta drasli úr bílnum, eins og ekkert sé. Er þetta heilbrigt? Hvers lags sóðar eru þetta eiginlega.“
Lagði hann til að hér yrðu teknar upp svipaðar reglur og í Bandaríkjunum. Það er að beita sóða háum sektum.
„Hugsum ekki um borgina okkar sem hverja aðra ruslatunnu er endalaust tekur við. Það ætti að vera stolt okkar Reykvíkinga að ganga vel um hana.“