fbpx
Mánudagur 17.júní 2024
Fókus

Tímavélin – „Einhvern veginn sé ég þrumandi samlíkingu milli herra Burns og forsetaframbjóðandans/valdafíkilsins“

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 26. maí 2024 08:30

Hver tekur við lyklavöldum á Bessastöðum í byrjun ágúst?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flest ættu að vita standa forsetakosningar fyrir dyrum þann 1. júní næstkomandi. Sumum hefur þótt umræðan full hatrömm og vegið hafi verið að sumum forsetaframbjóðendum með ómaklegum hætti og of þungum orðum. Aðrir segja um eðlilega og gagnrýna umræðu að ræða í lýðræðissamfélagi. Þetta er þó alls ekki í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem að þung orð hafa verið látin falla á opinberum vettvangi í garð forsetaframbjóðenda. DV tók saman nokkur dæmi úr dagblöðum þar sem ansi fast var að orði kveðið um þá frambjóðendur sem kjörnir voru forsetar í þeim kosningum sem að nýr forseti var kjörinn: 1952, 1968, 1980 og 1996.

Maður sundrungar

Við hefjum upprifjunina með Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, árið 1952 en Tíminn studdi ekki Ásgeir Ásgeirsson sem náði á endanum kjöri. Forsetakosningarnar 1952 fóru að miklu leyti fram á flokkspólitískum grundvelli en Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sameinuðust um að styðja Bjarna Jónsson. Tæpri viku fyrir kjördag var birtur nafnlaus pistill í Tímanum þar sem lögð var áhersla á að Ásgeir hefði á stjórnmálaferli sínum verið maður sundrungar og gæti því ekki orðið góður forseti:

„Ásgeir Ásgeirsson hefir aldrei sameinað en alltaf klofið og sundrað. Eitt af því allra nauðsynlegasta í fari forseta er það að hann sé drengur góður, sem getur sameinað hin sundurleitu öfl. En stjórnmálasaga Ásgeirs Ásgeirssonar er ein hin bezta leiðbeining um það, að hann er ekki sá maður, sem hefir þessa eiginleika. Stjórnmálasaga hans öll er saga sundrungar.“

Ekki varð Tímanum að ósk sinni. Ásgeir varð forseti og ekki bar mikið á sundrungu af hans völdum þau 16 ár sem hann gegndi embættinu.

Hafi víst tekið þátt í stjórnmálum

Þegar kom að því að kjósa nýjan forseta 1968 hlaut Kristján Eldjárn yfirburðakosningu í rimmu sinni við Gunnar Thoroddsen. Stuðningsmenn Kristjáns sögðu fyrir kosningar að hann hefði ekki síst þann kost sem forsetaframbjóðandi að hafa ekki tekið þátt í stjórnmálum. Mánuði fyrir kjördag var hins vegar fullyrt í Þjóðkjöri, blaði stuðningsmanna Gunnars, að stuðningsmenn Kristjáns væru að dreifa ósannindum um stjórnmálaþátttöku síns frambjóðanda:

„Þessi afskipti hans af íslenzkum stjórnmálum hafa verið mjög einhliða. Hann hefur í meira en tuttugu ár verið andstæðingur þeirrar utanríkisstefnu, sem yfir 80% þjóðarinnar hafa aðhyllzt. Kristján hefur verið ákveðinn baráttumaður í hópi þess minnihluta, sem er á móti öllum meiginatriðum þeirrar utanríkisstefnu, sem þjóðin fylgir. Nú, þegar hann býður sig fram til forseta segist hann muni láta það afskiptalaust, ef Alþingi samþykkir að Ísland skuli vera áfram í Atlantshafsbandalginu. En hann afneitar ekki hinni gömlu trú sinni. Hann ber kápuna á báðum öxlum.“

Ekki bar þetta árangur. Kristján Eldjárn var kjörinn forseti með 65,6 prósent atkvæða og miðað við tölur Þjóðkjörs því nokkuð líklegt að fjöldi þeirra sem studdi utanríkisstefnuna hafi ekki sett sig upp á móti því að hafa forseta sem hefði áður lýst yfir andstöðu við þá stefnu.

Að kjósa konu forseta

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 1980 var Vigdís Finnbogadóttir meðal annars gagnrýnd fyrir það sama og Kristján Eldjárn, að hafa mótmælt utanríkisstefnu Íslands og veru bandaríska hersins á Miðnesheiði. Henni var einnig legið á hálsi fyrir að vera kona. Stuðningsfólk hennar andmælti iðulega greinum og lesendabréfum þar sem þessi atriði voru nefnd og sögðu í sumum tilfellum að með Vigdísi hefðu Íslendingar sögulegt tækifæri til að kjósa konu sem forseta. Ein kona skrifaði hins vegar grein í Morgunblaðið um 3 vikum fyrir kjördag þar sem hún mótmælti því að það ætti að kjósa konu bara af því hún væri kona:

„Ég segi það enn og aftur, hvernig getur það verið ávinningur í jafnréttisbaráttu, ef þjóðin kýs konu í valdastöðu, sem hún getur ekki beitt,- reynsluleysis vegna – á tímum er öll rök hníga að því, að forseti þurfi að láta að sér kveða? Og erum við þá ekki að viðhafa sömu gömlu lummurnar, sem ég hélt að jafnréttisfólk hefði fyrir löngu lagt fyrir róða, – það að konur eigi að vera upp á punt?“

Vigdís var þó kjörin en með minnsta fjölda atkvæða sem nokkur hefur verið kjörinn forseti Íslands, 33,8 prósent. Hvort það met verður slegið í kosningunum í ár verður að koma í ljós. Vigdís var þó fljót að fylkja meirihluta þjóðarinnar að baki sér.

Ólafur Ragnar og herra Burns

Ólafur Ragnar Grímsson var umdeildur stjórnmálamaður þegar hann bauð sig fram til forseta 1996 og gátu andstæðingar hans ekki hugsað sér að hann yrði forseti. Var þeim rökum meðal annars beitt að Ólafur Ragnar gæti ekki orðið það sameiningartákn sem forsetinn yrði að vera. Á kjördag skrifaði maður nokkur grein í Morgunblaðið þar sem hann líkti Ólafi Ragnari við milljarðamæringinn illkvittna Charles Montgomery Burns úr bandarísku sjónvarpsþáttunum The Simpsons, sem yfirleitt var kallaður ekkert annað en mister Burns eða herra Burns á íslensku:

„Einhvern veginn sé ég þrumandi samlíkingu milli herra Burns og forsetaframbjóðandans/valdafíkilsins Ólafs Ragnars Grímssonar. Fígúrur teiknimyndanna verða skyndilega ljóslifandi. Ólafur Ragnar Grímsson breytist á augabragði í mr. Burns og stuðningsmenn hans sameinast í tryggum þjóni. Auðsfíkn Burns verður að valdafíkn Ólafs Ragnars; aðferðirnar ískyggilega líkar, blindan söm.“

Eins og allir vita varð þessum manni ekki að ósk sinni og Ólafur Ragnar var forseti næstu 20 árin en á köflum, að minnsta kosti, nokkuð umdeildur sem slíkur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Bjarki afhjúpar svik og pretti í undirheimunum – „Þetta er Íslendingur en það er ekki hægt að treysta þeim alltaf“

Bjarki afhjúpar svik og pretti í undirheimunum – „Þetta er Íslendingur en það er ekki hægt að treysta þeim alltaf“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gisele Bündchen og þjálfarinn hætt saman – Sögð kenna Tom Brady um og þetta er ástæðan

Gisele Bündchen og þjálfarinn hætt saman – Sögð kenna Tom Brady um og þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni

Ætlaði að smána karlinn í röðinni en það kom í bakið á henni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“

Þrír enskir Íslandsvinir hittust og ræddu um tapleikinn – „Þetta skiptir ekki miklu máli er það?“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Seinni eiginkonan vill að hann verði jarðaður hjá henni – „En ég er með önnur plön“

Seinni eiginkonan vill að hann verði jarðaður hjá henni – „En ég er með önnur plön“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Það sem hefur gerst síðustu ár breytti Frosta – „Ég er ekki trúleysingi lengur“

Það sem hefur gerst síðustu ár breytti Frosta – „Ég er ekki trúleysingi lengur“