fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Kristinn vill bjarga heiminum með efahyggju – „Við höfum tilhneigingu til að mynda okkur heimsmyndir sem eru stífar og brothættar“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 9. mars 2024 18:30

Þættirnir hafa farið vel af stað.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú hefur um nokkurt skeið verið fjallað af miklum móð um heimspeki og trúarbrögð í spjallþættinum Heimsmyndir á Samstöðinni. Þáttastjórnandi er heimspekingurinn Kristinn Theodórsson. DV náði tali af manninum og spurði hann út í þáttinn og hvað hann meini með að hann ætli að bjarga heiminum.

„Ég er miðaldra heimilisfaðir sem kláraði loksins BA nám á gamals aldri. Bara núna í fyrra, 46 ára gamall. Ég þori auðvitað varla að kalla mig heimspeking, þar sem ég starfa ekkert við það eða kenni eða annað,“ segir Kristinn. „En vegna þess að ég er með þennan þátt, verð ég eiginlega að setja á mig einhvern spennandi titil. Þannig að ég leyfi mér að kalla mig heimspeking.“

 

Tjáningarþörfin tekur völdin

Kristinn segist alltaf hafa haft mjög gaman af að brjóta heilann um allskyns mynstur og lögmál í samfélaginu. Þegar hann var yngri var hann mjög virkur í trúleysisrökræðunum, sem voru áberandi um aldamótin.

Þegar sú umræða rann sitt skeið fékk hann meiri áhuga á heimspeki en trúarbrögðum, þó að sum heimspeki sé alls ekki laus við að vera trúarleg. Hóf hann þá að skrifa um hugleiðingar sínar á samfélagsmiðlum og einstaka sinnum að senda inn greinar til fjölmiðla.

„Sem er náttúrulega mikilmennskubrjálæði. En tjáningarþörfin tekur bara yfir stundum,“ segir Kristinn. Þátturinn Heimsmyndir sé einmitt afleiðing af þessu mikilmennskubrjálæði. „Sem sýnir kannski að maður á stundum að sleppa lítillætinu og prófa að tjá sig.“

 

Uppgjör við trúleysisumræðuna og bloggárin

Þátturinn hóf einmitt göngu sína eftir að Kristinn hafði skrifað grein í fjölmiðla sem hann lýsir sem uppgjöri við trúleysisumræðuna og bloggárin.

„Þá hafði Gunnar Smári Egilsson á Samstöðinni samband við mig og bauð mér í viðtal við Rauða borðið svokallaða,“ segir Kristinn. „Strax eftir það spjall spurði hann mig hvort ég vilji prófa að vera með þátt á Samstöðinni um þessar hugleiðingar mínar og ég sló bara til. Fékk svo minn fyrsta gest í viðtal nokkrum vikum síðar.“

 

Sameinar trúarlegar og heimspekilegar hugmyndir

„Allir hafa sínar hugmyndir og lífsskoðanir. Þær móta hvernig við hugsum og hvað við gerum og mig langaði að taka þessháttar viðtöl við allskyns hugsuði. Sem framan af voru prestar og aðrir spekúlantar sem höfðu verið að taka rökræður við mig, eða ég við þá, á árum áður. En ég gat ekki níðst endalaust á vinum mínu og fór því að reyna við nafntogaða heimspekinga og fólk sem hefur á einhvern hátt látið skína í hugmyndir sínar um eðli heimsins,“ segir Kristinn. „Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og ég hitti alveg frábært fólk í hverri viku og læri mikið.“

 

Vill bjarga heiminum

Aðspurður um markmiðið með þættinum segir Kristinn vonast til þess að hann hafi jákvæð áhrif út í samfélagið. Bjargi jafnvel heiminum.

„Ég er svo naív, eins og maður segir, að ég kann ekki að vera agaður heimspekingur,“ segir Kristinn. Vísar hann þá í gamla tuggu um að heimspekingar spyrji aðeins spurninga, en svari aldrei neinu. „Það er svona klassískur Sókrates, sem spyr fólk endalaust hvað það meini, þangað til í ljós kemur að það veit ekkert hvað það meinar.“

„Mig langar að segja eitthvað ákveðið. Þannig að ég hef verið að reyna að leiða talið sem mest að heimspekilegri efahyggju. Það er hún sem á að bjarga heiminum. Sem ég segi náttúrulega í glettni, en mér finnst það mjög gefandi afstaða og held að sem flestir ættu að kynnast henni,“ segir Kristinn.

 

Efahyggjan lykillinn að samtalinu

Að sögn Kristins gengur efahyggja út á að skilja hvað heimspekin og raunvísindin hafa leitt í ljós mikla óvissu um hlutlægt eðli tilverunnar. Okkur sé kennt frá blautu barnsbeini að heimurinn sé þarna úti og að við séum öll eins og vísindamenn að skoða hann í gegnum stækkunargler.

Hins vegar komi það sífellt betur í ljós, á mörgum ólíkum fræðasviðum, að við höfum áhrif á heiminn um leið og við athugum hann. Það eigi við um sjálfan efnisheiminn og sérstaklega um okkar eigin samfélagslegu vitund um hvað við teljum að við vitum um heiminn. Sú hugmynd sé í stöðugri mótun og hvert og eitt okkar sé stöðugt að skilja hugtökin sem við notum um heiminn á nýjan og nýjan hátt eftir sem við eldumst og þroskumst.

Nanna Hlín Halldórsdóttir, heimspekingur í spjalli.

„Allt þetta hefur þau áhrif, að mér finnst, að við þurfum ekkert að móta okkur mjög harðar skoðanir um heiminn. Mjög fastmótaðar skoðanir verða nefnilega að viðkvæmri kristalbyggingu, eins og einn gestur minn komst að orði,“ segir Kristinn. „Við höfum tilhneigingu til að mynda okkur heimsmyndir sem eru stífar og brothættar. Þær skortir sveigjanleikann sem raunveruleikinn hefur og þá verður heimsmynd okkar stökkari en hún ætti að vera. Sem veldur pirringi í samskiptum um tilveruna. Efahyggjan mýkir bygginguna og hún hættir að vera viðkvæm. Eftir minni reynslu er glaðværasta fólkið upp til hópa með þessa mýkt í afstöðu sinni til heimsins.“

 

Fastmótaðar hugmyndir valda gremju

Kristinn segir að ákveðnar heimsmyndir séu einna viðkvæmastar. „Maður vill ekki móðga neinn. En það má segja að góð dæm séu bæði mjög hörð vísindaleg efnishyggja og mikil bókstafstrú. Báðar afstöður geta snúist upp í vitsmunalega gremju, sem gerist þegar heilinn rembist við að láta nýjar upplýsingar eða skoðanir passa við myndina sem fyrir er í heilanum,“ segir hann.

Dæmi um þetta í nútímanum séu margar furðulegar kenningar um heiminn í eðlisfræði og skammtafræði. Að heimurinn sé „multiverse“ eða úr strengjum og þvíumlíkar túlkanir á skammtafræðilegum rannsóknum. Að miklihvellur eigi sér reglulega stað og heimurinn sé hringrás. Eða heimspekilegar nálganir við að tala um samfélagið sem eina vitund eða heiminn sem ástand í vitundinni.

Þetta séu allt hugmyndir sem geta valdið fólki gremju ef það hefur komið sér upp mjög ítarlegri kristalbyggingu og tengt hana við sjálfsmynd sína.

„Það er allavega mín reynsla, ég var dálítið þannig sem harður trúleysingi. Mér fannst ergilegt að hugsa um hugmyndir sem pössuðu illa við mína heimsmynd. Við eigum ekki að halda í neinar harðar skoðanir á þennan hátt. Leyfa þeim frekar alltaf að vera í mótun og þá rífumst við kannski síður um neina hluti af gremju, heldur meira af notalegri sanngirni,“ segir Kristinn, ofurbjartsýnn á að efahyggjan skapi mýkt í öllum samskiptum.

 

Trúboði og draumóramaður

Þetta er þemað í Heimsmyndum. Kristinn gengst við því að vera svolítill trúboði og draumóramaður um að samtölin leiði til einhvers jákvæðs og uppbyggilegs. Reynsla hans sýni líka að þá verði fólk upprifið og hafi gaman af því að segja frá, það er ef því finnst það vera að segja eitthvað hjálplegt. Ekki aðeins eitthvað sem sé satt og raunverulegt.

Nefnir hann sem dæmi nýlegan þátt, þar sem Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktor í heimspeki, var gestur. Að sögn Kristins lifnaði hún öll við þegar hún fór að tala um heimspeki Judith Butler og hvernig sú speki hafi opnað nýja sýn fyrir hana á öll samskipti.

„Ég reyni bara að hugsa um þáttinn sem frábært tækifæri fyrir mig til að kynnast nýju fólki í hverri viku og fá útrás fyrir að hugsa og tjá mig. Um leið og ég fer að hafa væntingar um ógurlegt áhorf eða umtal finnst mér ég stressast upp og gleyma að hafa þetta vinalegt og skemmtilegt. Þannig að ég reyni að hugsa ekkert um þetta til lengri tíma. Bara einn þátt í einu og ótrúlega skemmtileg samtöl fyrir mig sjálfan – og svo vonandi auðvitað fyrir áhorfendur,“ segir Kristinn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta