Tímii er afstætt hugtak eins og sjá má á eftirfarandi dæmum um tímasetningar sem kannski kunna að koma á óvart.
Borgarastyrjöldin í Bandaríkjunum tók enda árið 1865. Þúsundir manna höfðu látist í stríðinu og eftir sátu þúsundir ekkna sem allar áttu rétt á lífeyri frá ríkinu. En síðasta borgarstríðsekkjan sem fékk tékka um hver mánaðamót, Helen Viola Jackson, lést ekki fyrr en árið 2020, 155 árum eftir lok stríðsins.
Helen var aðeins 17 ára gömul þegar hún giftist 93 ára gömlum manni sem barist hafði í borgarastyrjöldinni. Honum vantaði reyndar ekki eiginkonu heldur ráðskonu en stakk upp á hjónabandi til að tryggja framfæri Helen þegar hann létist, sem gerðist nokkrum mánuðum síðar. Og þar sem hann var hermaður borgarastríðsins var Helen tæknilega séð stríðsekkja. Hún lifði til 100 ára aldurs og fékk greiddan lífeyri fyrir þjónustu bónda síns í borgarastyrjöldinni í ríflega 80 ár.
Flest höfum við lagt faxtækjunum sem voru ómissandi á áttunda og níunda áratugnum
En faxið var reyndar fundið upp á undan símanum, eða árið 1843. Þá var til að mynda fyrrnefnd borgarastríð ekki enn hafið. En bréfsímarnir náðu aldrei því flugi sem uppfinningamaðurinn Alexander Bain hafði vonast til og smám saman gleymdust faxtækin. Það var ekki fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar sem einhver blés rykið af þessari snilldaruppgötvun.
Var þá tæknin að baki faxinu svo að segja algjörlega óbreytt frá faxinu sem Bain fékk einkaleyfi á 120 árum fyrr.
Flest tengjum við fallöxina við frönsku byltinguna, og með réttu reyndar, þar sem hún var fundin upp til að hraða aftökum aðalsins. Fyrsta aftakan með fallöxi fór fram 1792 og ári síðar misstu kóngur og drottninga Frakklands kollinn af hennar völdum.
En það sem kannski færri vita er að Frakkar héldu áfram að nota fallöxina og var síðasta aftakan í Frakklandi með fallöxi árið 1977.
Fjórum árum síðar var dauðarefsing afnumin í Frakklandi og þá fyrst var þjónustu fallaxarinnar við franska ríkið lokið. .
Við tengjum nöfnin Anna Frank, Martin Luther King og Barbara Walters við afar ólíka hluti á ólíkum tímabilum.
Anna Frank var ung gyðingastúlka sem faldi sig ásamt fjölskyldu sinni á háalofti hjá vinafólki til að sleppa undan nasistum seinni heimsstyrjaldarinnar. Fjölskyldan fannst þó og lést Anna rétt fyrir stríðslok, árið 1945, en skildi eftir sig áhrifamikla dagbók sem grípur lesendur enn þann dag í dag.
Martin Luther King var einn helsti mannréttindafrömuður allra tíma, maður sem átti sér draum. Hann var yngsti einstaklingur til að hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 1964 en var myrtur fjórum árum síðar.
Barbara Walters var einn þekktasti fréttamaður Bandaríkjanna, og heimsins alls reyndar. Hún var með fyrstu konunum til að ná slíkum frama og tók Barbara viðtöl við þjóðarleiðtoga, stórstjörnur og trúarleiðtoga fram yfir áttrætt. Hún lést á síðasta ári.
Hvað eiga þessir þrír gjörólíku einstaklingar sameiginlegt? Þau voru öll fædd sama ár, 1929.