fbpx
Sunnudagur 10.desember 2023
Fókus

Viima fékk nóg eftir hatursárás á gleðigönguna í Finnlandi – „Þetta er mjög íhaldssamt og heittrúað samfélag“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 7. ágúst 2022 09:00

Viima Lampinen Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannkynið hefur verið býsna lengi á þessari jörð en sem einstaklingar höfum við mjög takmarkaðan tíma til að alast upp og mótast. Og það er ekkert skrítið að fólk þurfi að takast á við alls kyns erfiðleika því við erum flókin,“ segir Viima Lampenen, aktivisti og formaður Trans Ísland. 

Viima ólst upp í náttúru Finnlands.

Lífið er lotterí

„Við erum öll ólík. Líffræði, hugsanir, uppeldi og tilfinningar setja mark sitt mark á okkur og lífið er í raun algjört happdrætti. Hvað augnlit fáum við? Hvað húðlit? Fæðumst við með fötlun? Sumir eru heppnari en aðrir og fæðast heilbrigðir og með ákveðið forskot í lífinu.

Það vinna ekki allir en lífið snýst líka að svo miklu leyti um tilfinningar okkar, reynsluheim og tengsl við aðra. Það er svo margir fletir á því að vera manneskja.“

Frá heimabæ Viima, Ylitornio, norðarlega í Finnlandi.

Viima ber djúpa virðingu fyrir vísindum þótt hán sé ekki vísindamaður sjálft.

„Það er alltaf verið að rannsaka okkur sem tegund en það hefur enn ekki tekist að komast að því á afgerandi hátt hvað geri einn einstakling að fullu leyti konu og annan að fullu leyti að karlmanni. Það er ekki hægt, ekki til í hinum raunverulega heimi, og það er ekkert annað en blekking sem þjóðfélagið hefur meðtekið.

Við vitum svona nokkurn vegin hvernig karlmaður, kona eða eitthvað annað er, en gefðu mér skotheld gögn, nákvæmar niðurstöður rannsókna sem sýna að það sé engin undantekning frá því sem við gefum okkur um kyn.

Og ég skal á móti sýna þér allar undantekningarnar.“ 

Rót ágreinings og vandamála

Við tekur langt og áhugavert spjall um hvað sé eðlilegt og hvað ekki.

Eðlilegt” er eitthvað sem við erum vön, finnst þægilegt og unnt að segja um fleiri meðlimi í samfélaginu. En að mínu mati eru hugtökin eðlilegt” og  óeðlilegt” þýðingarlaus hugtök sem við ættum að hætta að nota.

Viima segir tungumálið einnig hafa mikið að segja. ,,Með því eigum við samskipti og lykillinn að breytingum í samfélaginu er að breyta orðanotkun og hvernig við tjáum okkur.

Viima Lampinen Mynd/Valli

Engu skipti hvort um sé að ræða talað mál, ritmál eða táknmál, svo eitthvað sé nefnt. 

Mér finnst tungumálið heillandi, það er okkar mikilvægasti samskiptamáti, hvernig sem að því er staðið. En það er líka rót ágreinings og vandamála eins og til dæmis í umræðunni um kyn. Það er af því að við hugsum ekki út í orðanotkun í daglegu máli og erum vön ákveðinni orðræðu.

Hvað er eðlilegt? Hvað er skrítið? Við erum dómarar og kviðdómur í eigin lífi en enginn gerði neinn að dómara yfir annarra manna lífi.

Við höfum fullan rétt á að dæma eigið líf en ekki annarra.

Viima gat séð yfir til Svíþjóðar frá sínum heimabæ.

Vildi fá að slá grasið

Viima fæddist í 4000 manna bæ í Finnlandi, rétt við landamæri Svíþjóðar.

„Þar er langt á milli húsa og nóg pláss fyrir krakka að leika sér í náttúrunni. Ég elskaði að þvælast um í skóginum og leika mér við ána. Ég náði mér oft í bók, klifraði upp í tré, og gat setið þar svo klukkustundum saman við að lesa. Og fór ekki heim fyrr en hungrið kallaði.

Þetta var notaleg og friðsæl æska.“ 

Hán á einn bróður, sex árum eldri.

Við erum mjög ólík. Ég er eigerva [notað yfir kynvitund þeirra sem upplifa sig ekki sem neitt kyn; finna ekki neina kynvitund með sér. Innskot blaðamanns]. Foreldrar okkur reyndu að ala okkur upp sem strák og stelpu en alveg frá því ég var tveggja, þriggja ára, vissi ég að eitthvað var öðruvísi.

Stelpur og strákar fá oft ólíkt uppeldi og til dæmis ólík verkefni á heimilinu. Bróðir minn var alltaf beðinn um að slá grasið, sem pirraði mig endalaust því ég vildi fá að gera það líka, en var aldrei beðið um það. Það var komið fram við mig sem stelpu en það gekk einhvern vegin ekki upp.

Og sem lítill krakki hafði ég ekki hugmynd, hvað þá orð eða skilgreiningu, um hver ég væri. Ég vissi bara að ég var ekki það sem ætlast var til af mér. “

Miklir fordómar ríkjandi

Það tók Viima langan tíma að átta sig.

Ég vissi reyndar frá unga aldri að ég var hinsegin og ekki gagnkynhneigt og það var aldrei vandamál. Það var alls konar hinsegin fólk í kvikmyndum, bókum og fjölmiðlum og ég tengdi til dæmis mjög sterkt við David Bowie og Annie Lennox. Annie hafði þetta attitude, styrk og kraft sem ég gat tengt við.

En það voru engir í fjölskyldunni, og reyndar í öllum bænum, sem ég gat tengt við. Svona var bara ekki inni í myndinni og aldrei rætt.

Viima á Helsinki Pride.

Það liðu fjöldamörg ár áður Viima gat rætt málin.

Það er reyndar langt síðan að ég flutti en þegar ég var að alast upp voru mjög miklir fordómar ríkjandi í mínum heimabæ. Ekkert sem þótti ,,öðruvísi” var samþykkt. Til dæmis var gert ráð fyrir því að strákar væru karlmannlegir og ef þeir þóttu of kvenlegir á einhvern hátt voru þeir undantekningarlaust lagðir í einelti.

Svo ég vissi frá upphafi, verandi öðruvísi, að þegja um það.

Ég gat ekki talað við foreldra mína og vissi ekki hvað annað ég gat gert. Stundum fannst mér ég ansi eitt í heiminum.

Kláraði tilvistarkreppuna snemma

Viima var samt sem áður vinsælt sem krakki og átti fjölda vina.

Ég tók alltaf afstöðu. Ég man eftir því snemma á unglingsárunum að strákarnir í íshokkíliðinu, stórir og sterkir gaurar, lögðu bekkjarsystur mína í einelti út af því að hún var þéttvaxin. Einn daginn gekk ég fram nokkra þeirra og var einn þeirra að gera sig til að kýla hana með hnefanum. Ég hljóp á milli þeirra alveg brjáluð, greip í höndina á honum og spurði hvað í andskotanum hann væri að gera.

Ég er nú hvorki stórt né sterkt en bara það að vera reitt og standa uppi í hárinu á þeim varð til þess að þeir létu hana alveg í friði eftir það.

Þeir meðtóku hana aldrei en létu þó í friði.

Viima Lampinen Mynd/Valli

Hán segir ákveðið frelsi hafa fylgt því að passa ekki inn í hópinn.

Margir ganga í gegnum ákveðna tilvistarkreppu á unglingsárunum og eru að finna sjálfa sig. En ég var löngu búinn að ganga í gegnum það þegar ég komst á þann aldur, það kom meðan ég var enn lítið barn. Svo ég var bara ég.

Mér var oft líkt við Ronju ræningjadóttur, Línu langsokk eða aðra sterka kvenkyns karaktera. Í Finnlandi er vinsæl barnasaga um tröllið á hvolfi. Sagan er um tröll sem býr í tré á hvolfi með ræturnar upp, fer að sofa á morgnana og vakir á næturnar. Allt er öðruvísi. Og ég man eftir að tengja svo sterkt við þetta tröll.

Tröllið var öðruvísi, nákvæmlega eins og ég.

Viima á Helsinki Pride.

Dótið í hárinu meiddi

Foreldrar Viima leyfðu hán að vera nákvæmlega eins og hán vildi vera, svo að segja að mestu leyti.

Ég var heppið með þann skilning sem ég fékk. Það var einhver skilningur til staðar að ég myndi verða öðruvísi en aðrir þegar ég yrði eldri. Ég man að ég var fjögurra eða fimm ára og fjölskyldan á leið í jarðarför þegar að mamma setti mig í kjól og reyndi að setja borða í hárið á mér en mér leið svo svo illa.

Ég vildi úr kjólnum og í buxur og þetta dót í hárinu á mér meiddi bara. Ég reyndi að tjá mig um mína vanlíðan en það var ekki tekið mark á því. Ekki þá.

En það kom og frá sjö ára og upp úr fékk ég að vera eins og mér leið best og var aldrei pínt aftur í kjól.

Viima Lampinen Mynd/Valli

Hán segist muna eftir hversu góð tilfinning það var að fá óskir sínar virtar.

Eftir það breyttist margt, ég gat verið ég, hafði sjálfstraust og átti auðveldara með að tjá mig. Ég hafði til dæmis verið óskaplega feimið áður, sérstaklega við ókunnuga, en það breyttist. Það hafði örugglega sitt að segja hversu vinsælt ég var í skóla því mér þótti nú gaman að hitta og tala við nýtt fólk.

Loksins!

Viima segir frelsi vera lykilinn að svo mörgu. ,

Ég er fullorðin manneskja, með frelsi til að gera það sem ég vil. Og með frelsinu kemur sú tilfinning að þurfa ekki að útskýra sig. Fólk sér konu þegar það horfir á mig, en ekki gagnkynhneigða konu, og það er í góðu lagi. Ég þarf ekkert að útskýra.

Í leit sinni að skilgreiningu fann Viima ekkert sem hán fannst passa betur en dulkynja, oft betur þekkt sem androgynous, kyngervi sem felur í sér hluta af bæði karl- og kvenleika.

Viima á Helsinki Pride.

„Ég var komið hátt á þrítugsaldur þegar að ég uppgötvaði fyrst að það var nafn yfir mig. Eigerva. Þetta er ég! Loksins! Mér leið aldrei sem konu né manni og þarna var þetta. Ég hafði aldrei heyrt orðið né vitað um nokkurn eins og mig og jafnvel þá fannst mér ég vera býsna eitt í heiminum,“ segir Viima og hlær. 

En það stóð ekki lengi og í dag þekki ég fullt af eingerva fólki, kynsegin og bara allskonar. Ég spyr ekki einu sinni lengur um kyn.

Árásin 2010

Viima er afar virkt sem aktivisti í dag en svo hefur ekki alltaf verið.

„Í byrjun gerði ég lítið annað en að benda kannski fólki á þegar það talaði á fordómafullan hátt. Sagði það ekki svalt að hafa fordóma. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum en var aldrei í neinu pólitísku starfi. 

En svo kom að því að ég gerði mér grein fyrir að ég þyrfti að gera eitthvað.

Árið 2010 var ráðist á gleðigönguna í Finnlandi með táragasi.

Þetta voru ungir strákar, nasistar reyndar. Fjöldi fólks varð fyrir eitrun, yngsta fórnarlambið ekki orðið eins árs, og Finnar voru í sjokki og sögðu að eitthvað þyrfti að gera.

Viima Lampinen Mynd/Valli

Ég var eitt þeirra. Ég var að flytja til borgarinnar Lahti á þessum tíma og þrátt fyrir að vera rúmlega 100 þúsund manna borg sunnar í landinu voru þar gríðarlegir fordómar. Það voru engin samtök hinsegin fólks, engir skemmtistaðir eða samkomustaðir fyrir okkur og ekki regnbogafána að sjá, nokkurn tíma.

Ég gat ekki trúað þessu, það var útilokað að ég væri eina hinsegin manneskjan í borginni , og vissi að ég hafði það í mér að gera eitthvað.

Svo ég byrjaði að hóa fólki saman í samtök, svipuð Samtökunum ‘78 á Íslandi og tveimur árum síðar skipulagði ég fyrstu gleðigönguna þar.

Íhaldssamt og heittrúað samfélag

Hán segir að borgarbúar hafi almennt tekið breytingunni vel og samglaðst. ,,Loksins dönsuðum við öll saman við Júróvisjónlög í friði og gleði, gátum faðmast og verið við sjálf án ótta við að vera dæmd.”

 Viima tekur undir að þetta hafi komið nokkuð seint, varla sé áratugur liðinn.

Þetta er mjög íhaldssamt og heittrúað samfélag. Þetta hafði verið reynt áður án árangurs en stundum þarf bara nógu mikla löngun og vilja til breytinga til að gefast ekki upp. Ég hafði viljann og löngunina og reyndar ekkert annað í stöðunni. Eitthvað varð að breytast og ég er í grunninn aktivisti.

Aktivisminn er svo stór partur af mér að ef ég hætti að vera aktivisti myndi ég hætta að vera ég. Þetta er einn og sami hluturinn.

Alveg eins og heima

Rómantíkin hefur að sjálfsögðu komið við sögu í lífi Viima og varð til þess að hán rataði til Íslands.

Ég kynntist íslenskri konu á ráðstefnu árið 2017 og við hófum samband. Ég var þegar búið að ákveða að yfirgefa Finnland, mér leið ekki vel þar og fannst ég ekki öruggt vegna starfa minna sem aktivisti. Svo ég flutti til Íslands enda tengdi ég alltaf sterkt við Ísland.

Ég er úr norðrinu í Finnlandi og náttúran, himininn og birtan á Íslandi er alveg eins og heima.

Sambandinu lauk en Viima fór hvergi og hefur nú búið á Íslandi í fjögur ár. 

Viima ásamt Kerttu Tarjamo á frumsýningu kvikmyndarinnar Tom Of Finland.

Óskiljanleg ákvörðun Sundsambandsins

Hvað finnst hán um stöðu hinsegin fólks á Íslandi í dag? 

Viima hugsar sig og segir það svo efni í að minnsta kosti þrjú viðtöl. 

„Það eru svo margar hliðar á málinu.

Það er yndislegt að allt þjóðfélagið fagni gleðigöngunni og hún sé fjölskylduhátíð. Við höfum alltaf verið hérna og það eru engin takmörk þegar kemur að kynjum, kynhneigð og kyntjáningu. Eins og ég sagði þá er það lottó hvernig við komum í heiminn og aftur hvernig reynslan mótar okkur.

Við erum alls staðar, erum partur af samfélaginu og þetta er ekki bara gleðiganga. Það er reyndar ekki yfir mörgu að gleðjast eins ástandið er í dag og við erum að fara aftur á bak, ekki áfram.“ 

Hán tekur sem dæmi ákvörðun Sundsambands Íslands um keppnisbann trans kvenna.

Hvernig var komist að þeirri niðurstöðu og með hvaða rökum án þess sem svo mikið að spyrja trans fólk álits? Það er líka meira um hatursorðræðu á netinu og ég verð því miður að segja að ég hef átt von á þessu bakslagi í nokkurn tíma.

En við megum aldrei hætta að gera kröfu um virðingu og mannréttindi. Það er ósköp indælt að veifa flaggi eina helgi á ári en það er langt frá því að vera nóg. Það verður að taka á þessu strax.

Viima Lampinen Mynd/Valli

Grunnurinn er hatur

Viima segir auðveldara að tala um hlutina þegar allir brosi og dansi en þarf það að vera skilyrði fyrir að vera meðtekinn?

Við erum, og megum vera, eins og allir aðrir. Við eigum ekki að þurfa að vera bara brosandi og glöð til að vera virt og hlustað á, við höfum alla aðra þá kosti og galla sem allt fólk hefur.

Viima segist þó ekki telja þá marga sem standi fyrir fordómum og hatursorðræðu en þeir séu háværir og þeir fái þá athygli sem þeir vilji.

Þess vegna virðast vera fleiri með þessar gamaldags, úreltu og fordómafullu skoðanir. Grunnurinn er hatur og vilji til að stjórna öðrum. Vera á toppnum.

Hán segir samfélagsmiðla sérlega eitraða en þetta sama fólk sé samt út um allt að dreifa eitri, það sé ekki bundið við samfélagsmiðla.

Náttúrubarnið í Viima tengir við Ísland.

Ég hafði engar fyrirmyndir í æsku svo ég varð að ryðja mína eigin braut. Krakkar og ungt fólk í dag hafa fyrirmyndir og skilgreiningar sem ég hafði ekki. Þau hafa orðin til að tjá sig um hvernig þeim líður og við getum hjálpað þeim og gefið þeim meira frelsi og meiri skilning til að vera þau sjálf.

Leyfum krökkunum okkar að finna sig, prófa sig áfram með hvaða persónufornöfn þeim líður vel með og sýnum þeim nærgætni og virðingu.

Aldrei hatur og aldrei vanvirðingu sem því miður er of mikið af.

Draumaheimur?

Að lokum, ef Viima gæti breytt einhverju þrennu til að móta sinn draumaheim, sama hverju, hvað myndi það vera?

„Úff, þetta er erfitt. Það myndi breyta svo miklu til góðs að losna við feðraveldið og Ísland er feðraveldi, það er staðreynd.

Í öðru lagi myndi ég vilja losna alfarið við orðið „eðlilegt” og að allir áttuðu sig loksins á að slíkar staðalímyndir gera ekkert nema að særa og takmarka okkur sem einstaklinga.“

Viima Lampinen Mynd/Valli

Ísland er líka afar kapítalskt samfélag, til dæmis miðað við Finnland, og fólk er metið eftir peningaeign. Sem er skrítið í þessu litla og samheldna þjóðfélagi sem samt sem áður grípur ekki alltaf sitt fólk þegar þörf er á.

Samfélagið er líka gegnsýrt af ákveðnu hugsunarleysi. Lítið dæmi eru veturnir, þegar snjórinn og hálkan gera fötluðum, öldruðum og fólki með barnavagna og kerrur erfitt með að komast leiðar sinnar. En samt er ekkert gert. Þetta sér maður ekki á hinum Norðurlöndunum.

Því segi ég að í þriðja lagi myndi ég vilja sjá meiri kærleika og tillitsemi hjá okkur öllum.

Þetta þrennt myndi gera samfélagið okkar fallegra, segir Viima Lampenen, aktivisti og formaður Trans Ísland.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Veðurfréttakona svaraði ljótum skilaboðum í beinni

Veðurfréttakona svaraði ljótum skilaboðum í beinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tókst loksins að setja tappann í flöskuna eftir eymdarlega upplifun með dóttur sinni

Tókst loksins að setja tappann í flöskuna eftir eymdarlega upplifun með dóttur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bókaspjall: Knappa formið í góðu formi

Bókaspjall: Knappa formið í góðu formi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Áhorfendur tóku gríni Eddu og Björgvins bókstaflega

Áhorfendur tóku gríni Eddu og Björgvins bókstaflega