fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fókus

Hryllingstilraunin á munaðarleysingjunum

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 30. júlí 2022 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru átakanlega mörg dæmi í sögunni um vísinda- og fræðimenn sem hafa farið langt yfir þau mörk sem við álítum vera siðferðilega eðlileg í dag í leit sinni að svörum.

Wendell Johnson.

Meðal slíkra dæma má nefna rannsókn sem sálfræðingur við háskólann í Iowa í Bandaríkjunum, maður að nafni Wendell Johnson, gerði árið 1939.

Vildi vita allt um stam

Doktorinn sérhæfði sig í málþroska og hafði hann sérstaklega mikinn áhuga á stami. Vildi hann kanna hvað ylli stami og hvort, og þá hvernig, unnt væri að lækna það. Sjálfur hafði hann stamað fram á fullorðinsár en náð að losna við stamið og þá með alls kyns tilraunameðferðum sem margar hverjar voru hans eigin hugarsmíð.

Á þessum árum var almennt álitið að stam væri meðfætt, hugsanlega erft, og lítið sem ekkert væri unnt að gera til að laga það.

Johnson var ósammála þessu. Kenning Johnson var, í einfölduðu máli, að með því að greina eða dæma börn með talörðugleika væri verið að gera ástandið verra.

Til að sanna kenningu sína vildi Johnson sýna unnt að væri lagfæra málörðugleika hjá þeim börnum sem glímdu við slíkt, með því að sannfæra þau um að ekkert væri að tali þeirra.

Að sama skapi væri unnt væri að þróa málörðugleika hjá börnum sem aldrei höfðu átt við slíkt að stríða.

Börn sem tilraunadýr

Með samþykki háskólans og yfirvalda fékk Johnson svo að segja ótakmarkað leyfi til að gera tilraun á 22 börnum á aldrinum 5 til 15 ára.  Börnin valdi hann af munaðarleysingjaheimili og stömuðu tíu þeirra.

Hin börnin tólf áttu ekki við neina talörðugleika að stríða og voru jafnvel fremri jafnöldrum sínum í málþroska. Skipti hann hópnum niður í ,,stamara” og ,,venjuleg”.

Engu barnanna var sagt að þau væru þátttakendur í tilraun.

Munaðarleysingjahælið sem börnin voru á.

Þeim tíu sem stömuðu var skipt niður í tvo hópa og var öðrum hópnum hrósað í hástert en hin börnin fimm niðurlægð og grín gert að tali þeirra.

Hin tólf fengu svipaða meðferð.

Börnunum sem ekki áttu við talörðugleika að stríða var jafnt og þétt sagt að þau stömuðu, gætu ekki tjáð sig, og var stöðugt gert lítið úr þeim. Hinum sex var hrósað í sífellu. Kallaði Johnson aðferðina ,,jákvæða“ og ,,neikvæða“ meðferð.

Það ber að ítreka að ekkert þessara tólf barna átti við talörðugleika að stríða.

Þriggja mánaða vítisvist barnanna

Johnson fékk einn nemanda sinna, Mary Tudor, til aðstoðar sem hluta af lokaverkefni hennar í meistaranámi í sálfræði og sá hún að mestu leyti um ,,meðferðina”.

Mary Tudor um það leiti sem rannsóknin var gerð.

Johnson lét ekkert uppi um tilgang rannsóknarinnar við starfsmenn munaðarleysingjaheimilsins og fékk meira að segja kennara til að hjálpa sér, óafvitandi, með því að hvetja þá til að ræða á ákveðinn hátt við börnin, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Trúðu kennararnir því að það væri börnunum til góðs enda hverjir voru þeir að efast um orð hámenntaðs fræðimannsins?

Tilraunin stóð í þrjá mánuði og var hvert orð, á hverjum fundi, með hverju barni, vandlega skráð niður af Johnson sem lét setja gríðarlega sálræna pressu á börnin. 

Niðurstöðurnar

Niðurstöðurnar voru hrollvekjandi.

Af þeim sex börnum sem enga talörðugleika höfðu í upphafi tilraunarinnar reyndust fimm þeirra hafa orðið fyrir verulegum sálrænum áföllum við ,,neikvæða“ meðferð.  Þau fengu málhelti og  misstu að stórum hluta getuna til að tjá sig yfirleitt.

Af þeim fimm börnum sem stömuðu í upphafi varð stam þriggja þeirra mun verra.

Ekkert barnanna sem stömuðu læknaðist af staminu og mörg barnanna áttu eftir að glíma við þunglyndi og geðraskanir út ævina eftir tilraunina.

Sláandi líkt nasistum

Wendell Johnson var án efa afar fær í sínu fagi og engin spurning um að hann hafði ekkert illt í huga. Brennandi löngun hans til rannsókna á stami var virðingarverð á tímum sem enginn fræðimaður sýndi nokkurn áhuga á málinu.

Þótt að tilraun sem þessi sé óhugsandi í dag þóttu þetta að mestu leyti eðlileg vinnubrögð fyrir 80 árum. Og þó, því að yfirvöldum var það brugðið að niðurstöðurnar voru læstar niðri og Mary Tudor, og öðrum sem höfðu að tilrauninni komið, bent á að heppilegra væri að ræða hana aldrei. Og því er ekki hægt að neita að aðferðir Johnson voru, og eru, ófyrirgefanlegar.

Ekki bætti ástandið þegar að hryllilegar rannsóknir á gyðingum í útrýmingarbúðum nasista komu í ljós og þóttu sláandi líkindi með þeim og tilraun Johnson.

Augljóst var að niðurstöðurnar mættu aldrei líta dagsins ljós.

Sannleikurinn kemur í ljós

Wendell Johnson lést árið 1965 án þess að ræða tilraunina nokkurn tíma opinberlega. Það var ekki fyrr en 2001 þegar að blaðamaður hóf að grafast fyrir um málið að dustað var rykið af skýrslunni og hún opinberuð í fyrsta skipti. Árið 2003 fóru sex af eftirlifandi börnunum í mál við Iowa fylki og fjórum árum síðar fékk hvert þeirra 900 þúsund dollara í skaðabætur.

Þrjár konur af þeim sex sem fengu greiddar skaðabætur.

Í opnu bréfi til Mary Tudor, sem þá var háöldruð, skrifaði eitt barnanna.

,,Þú eyðilagðir líf mitt. Ég hefði getað orðið vísindamaður, fornleifafræðingur eða jafnvel forseti. Þess í stað var líf mitt fullt af minnimáttarkendd og sjálfshatri vegna stamsins. Önnur börn gerðu grín að mér, einkunnir mínar hrundu og ég hætti í skóla. Fannst ég heimsk. Enn þann dag í dag forðast ég að vera innan um fólk.”

Mary Tudor svaraði með þeim orðum að þegar hún hefði gengið út um dyr munaðarleysingjahælisins hefði hún sagt skilið við þennan kafla í lífi sínu.

,,En það sama er ekki hægt að segja um þessi börn og það þykir mér skelfilegt.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Arnar Grant og Kristín selja höllina á Arnarnesi

Arnar Grant og Kristín selja höllina á Arnarnesi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslenska OnlyFans-samfélagið nötrar – Gagnrýnir aðila sem er sakaður um „melludólgshátt“

Íslenska OnlyFans-samfélagið nötrar – Gagnrýnir aðila sem er sakaður um „melludólgshátt“