fbpx
Laugardagur 09.nóvember 2024
Fókus

Karen Kjartansdóttir horfði á líf sitt úr fjarlægð á Grænlandi – ,,Það er sársauki og sjálfsvorkun við svona leiðangra“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 11. júní 2022 09:00

Karen Kjartansdóttir Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Þetta er dálítið skrítið að því leyti að þú ert ekki beint að upplifa eitthvert dýralíf, mannlíf eða náttúru. En samt er þetta eitthvað svo einstakt og guðdómlegt, jafnvel þótt að jökullinn hati þig og þú frjósir fljótt og örugglega í hel ef þú ert ekki að vinna.

Þetta er grimmur guðdómur,” segir Karen Kjartansdóttir fjölmiðlakona og almannatengill. 

Karen var í átta manna hóp sem afrekaði að ganga þvert yfir Grænlandsjökul nú á vordögum, 560 km frá vestri til austurs. 

Skellt í selfie. Þarna hafði Karen enn aðgengi að hársápu.

,,Það var alltaf sama útsýnið, það er rosaleg áskorun að labba heilan dag en vera einhvern vegin alltaf á sama stað mestalla ferðina. Við áttum nokkra daga sem voru alhvítir og við vissum ekki hvað sneri upp né niður.

Ég hafði haft gaman af að fara í jöklaferðir en þetta var allt öðruvísi jöklaferð.” 

Maulandi harðfisk á ísbjarnarvakt

Karen segir leiðangurinn hafa verið merkilega reynslu. ,,Ég átta mig núna á því að þetta er ábyggilega eitthvað sem fólk er að reyna að ná til dæmis með ástundun jóga. Þegar maður er svona lengi í þessu verður maður svo slakur.”  

Leiðin sem hópurinn fór yfir Grænland.

Aðspurð um hvernig hún geti lýst þeirri tilfinningu segir hún að hefði hún komið heim á tólfta degi hefði hún eflaust farið beint í bjór og borgara, stolt af þrekvirkinu og kúl á öllu. ,,En þetta tók 31 dag áður en maður kom niður í einhvern eyðifjörð. Engin þyrla til að sækja okkur næstu tvo daga og á meðan var maður bara maulandi harðfisk á ísbjarnarvakt í anddyri siðmenningarinnar. Þá verður maður eitthvað svo mikið í núinu og þegar að ég loksins komst inn í þorp var ég orðin eitthvað svo sultuslök og fannst ég sjá allt svo skýrt.

Allt varð svo miklu einfaldara.”  

Veturinn var sá kaldasti á Grænalandi í 20 ár.

Hún bendir á að þetta sé til í öllum trúarbrögðum. ,,Jesús fór til dæmis í eyðimörkina. En þetta er mun víðar að finna, að fólk fari og geri eitthvað erfitt, neiti sér um eitthvað og þjáist, en komi svo vitrara til baka.” 

Kom hún vitrari til baka? Karen hlær og hristir höfuðið. ,,Ég grínast reyndar með að ég veit ekkert hvað ég veit betur, en að minnsta kosti einfaldar þetta allt rosalega mikið. Enginn sími, maður gat ekkert hringt og meðan voru sveitarstjórnarkosningar og Júróvisjón. Og ég sem er svo mikill Júróvisjónaðdáandi. Það voru bara tvær fréttir sem ég bað um að fá, um Júróvisjón og hvort ég yrði frænka en yngsta systir mín átti von á barni.” 

Fannst ég vera að svíkja alla

Karen kom síðust áttmenninganna inn í hópinn í lok febrúar. Hún var í göngu með Brynhildi Ólafsdóttur göngugarpi sem þá hafði verið að skipuleggja leiðangurinn ásamt Vilborgu Örnu Gissuardóttur frá því fyrir áramót. ,,Gangan var dásamlega og eftir hana spyr ég Brynhildi hvort það sé kannski laust í Grænlandsferðina, reyndar í hálfgerðu gríni. En ein hafði hætt við og það þurfti átta til að allt gengi upp. Og með því byrjaði þetta að vinda hratt upp á sig.”

Góð næring er lykilatriði.

Það voru aðeins sex vikur í ferðina þegar að Karen kom inn, mjög skammur tími fyrir slíkan leiðangur, enda að gríðarlega mörgum hlutum að huga. ,,Fyrst hugsaði ég að sennilegast væri þetta alltof dýrt og ég hefði engan tíma í þetta. En svo fór ég að leiða hugann að því að það er ekki oft á ævinni sem vinir manns fara í svona ferð og manni gefst tækifæri til að taka þátt. Svo ég keyrði hratt á þetta. Ég var í rosalegri vinnutörn á þessum tíma og fannst ég vera að svíkja alla, bæði vinnuna og auðvitað fjölskylduna. Þetta var rosalega mikill undirbúningur sem fór fram á handahlaupum. En það var aldrei aftur snúið.”  

Fyrstu dagarnir lágpunkturinn

Það þarf heila bók til að lýsa undirbúningnum sem Karen lýsir. Fatnaður, skíði, tjöld, púlkur, matvæli, öryggi. Hvernig skal taka á veikindum, sólbruna, kali, foknu tjaldi. Já, og ísbjörnum. Listinn er langur og framandi þeim sem yfirleitt gera aðeins tékklista fyrir helgi í Þórsmörk eða sumarbústaðaferð.  

Karen segir undirbúning hafa gengið vel en mest hafi hún fundið fyrir andlega þættinum. Eftir á séð hefði hann kallað á meiri undirbúning. ,,Fyrstu dagarnir voru lágpunkturinn. Ég var yfirfull af söknuði eftir börnunum mínum, með samviskubit yfir öllu og spurði mig af hverju ég væri að þessu? Af hverju í ósköpunum hélt ég að þetta yrði skemmtilegt? Af hverju var ég ekki upp í sófa með börnunum mínum að horfa á Netflix? Í stað þess að sækja í þjáninguna og kuldann?

Þetta voru nokkrir erfiðir dagar.” 

Vilborg Arna í stund á milli stríða.

Karen á þrjú börn, 18 og 10 ára drengi og 13 ára stúlku. ,,Mér fann vera endalaust margir dagar fram undan sem ég myndi ekki sjá þau. Ég hef aldrei verið frá þeim þetta lengi. Og ef ég hefði vitað að ferðin tæki miklu lengra tíma en við lögum upp með hefði ég gefist upp strax.”

Hún bætir við að það hafi reyndar verið gott að klára þetta snemma. ,,Það ganga allir í gegnum þetta tímabil. En svo sleppti ég, þetta var lífið núna, lífið var á jöklinum og engin vandamál. Eftir erfiða fyrstu daga varð ég kátari og kátari, lærði að bjarga mér og takast á við kuldann. Fór reyndar fram úr eigin væntingum.”

Konur um fertugt skákuðu gæjunum

Aðstæður voru mun erfiðari en hópurinn hafði gert ráð fyrir enda kaldasti vetur á á Grænlandi í 20 ár.

,,Það er erfiðara að byrja vestan megin. Vilborg Arna hafði farið austanmegin frá, sú leið hefur alltaf verið farin en undanfarið hefur bráðnun gert erfitt fyrir að koma niður. En vestan megin er meiri hækkun og meiri þyngsli að draga í byrjun ferðar, með allan mat og annað slíkt. Við vorum endalaust að lyfta öllu upp, færð slæm og erfitt að draga á eftir sér hundrað kílóa púlku. Fyrstu dagana voru svo miklir skorningar að við gátum ekki verið á skíðum heldur urðum við að vera á broddum.” 

Karen hélt að þegar að komið væri hápunktinn yrðu þeir 290 kílómetrar sem eftir voru niður í móti. ,,En aðstæður út af veðri voru þannig að það eru sífelldir skaflar, alltaf klifur upp, tosandi á eftir sér púlkuna.”

Hún segist aldrei hafa upplifað kulda á við kuldann á jöklinum. ,,Allt verður svo erfitt, bara það að labba út í næsta tjald getur tekið á. Það er erfitt að lýsa þessu.” 

Í rútunni á leið upp að jökulröndinni voru einnig ungir belgískir strákar með kvikmyndatökulið. ,,Þetta voru algjörir gæjar en mjög elskulegir. Ég hélt að þeir myndu stinga okkur af en þeir kláruðu ekki. Kvikmyndatökuliðið fór eftir tvo daga og við vorum komin niður og á heimleið þegar að þeir gáfust upp og hringdu á þyrluna. Mér fannst það pínu skemmtilegt og þeim hefur örugglega ekki þótt það töff að konur um fertugt væru að ná þessu,” segir Karen og skellihlær. 

Sturlaður kuldi

Talið berst að mat á slíku ferðalagi enda er álagið á líkamann gríðarlegt og kallar á góða næringu. ,,Ólíkt því venjulega er reynir maður að hafa sem mest af kaloríuríku fæði. Ég var farin að bíta beint í smjörstykkið en reyndi að borða um 5000 kaloríur á dag að jafnaði.” 

Það var ekki oft sem sást í andlit.

Allir voru með sinn mat en Karen viðurkennir að gult M&M hafi verið ofarlega á lista hjá sér. ,,Mér hættir til að missa lystina í svona átökum og veit að þá kemur nammi í góðar þarfir. Frostið hefur ekki áhrif á M&M, í því er sykur og fita og auðvelt að gleypa það í sig til að ná orku. Það er geggjað og skilaði sér vel. Líka hnetur og þurrkaðir ávextir, maður fattaði hvað það er gríðarleg orka í snarli sem maður nartar annars hugsunarlaust í á daginn.”

Teymið bræddi snjó til suðu á frostþurrkuðum mat, hönnuðum til slíkra ferða sem Karen segir að sé kannski ekki mest spennandi matur, þolanlegur, en þá hafi nú harðfiskurinn verið betri. 

Eldhúsið

,,Það sem við áttuðum okkur kannski ekki nógu vel á er hversu allt frýs í svona sturluðum kulda. Það er svo mikill munur að vera í 20 gráðu frosti að jafnaði en í mínus 30 til 40. Allt verður vesen, sem dæmi frýs tannkremið og sólarvörnin. Það er að svo mörgu að hyggja.”  

Góðu dagarnir komu ekki

Í upphafi var gert ráð fyrir að ferðin tæki í allra mesta lagi 28 daga og Karen segist í sannleika sagt hafa haldið að hún yrði styttri. 

Karen Kjartansdóttir Mynd/Ernir

,,Við gengum yfirleitt í eina til eina og hálfa klukkustund í einu og svo tók við 7-14 mínútna pásu. Og þá er lítið annað hægt að gera en að henda sér í úlpu, borða og pissa. Maður þarf eiginlega að ákveða áður hvað maður ætlar að leggja áherslu á í hverri pásu. Þetta er ekki mikil nautn og Vilborg sagði að þetta væri einn erfiðasti leiðangur sem hún hefði farið í því það voru svo fáir góðir dagar.” 

Karen er enginn nýgræðingur, hefur meðal annars farið yfir Vatnajökul og segir alltaf hafa verið góða daga. ,,Þetta var allt öðruvísi, svakalegur kuldi og eymd. Maður rann ekkert á skíðunum og gekk 560 kílómetra nema rétt í lokin þegar loksins hægt var að renna sér. Það var mjög skrítið og góðu dagarnar bara komu ekki og það er kannski mesta andlega raunin, að vera ekki í neinu. Það er sagt að þetta sé eins og að skíða í mjólkurglasi.”  

Það var ekkert sjampó að hafa uppi á jökli þegar Karen smellti í þessa sjálfu.

Maður skynjar allt miklu hreinna

Hún segir merkilegt hvað sæki á mann í slíku umhverfi, hvaða hugsanir poppi upp, en allt verði svo einfalt.  ,,Þetta var ekkert djúpt eða útpælt, meira svona hugsanir um hvað maður vill setja tíma sinn og orku í. Í svona aðstæðum verður miklu skýrara hvað skiptir máli, hvað gefur manni eitthvað og aðallega hugsaði ég fallega hluti í tengslum við manninn minn og börnin mín. Maður skynjar allt miklu hreinna.”

Heldur Karen að hún hefði farið hefði hún vitað hvernig aðstæður myndur vera? ,,Ég hugsaði það einmitt þegar ég var komin yfir verstu tilfinninguna í byrjun. Ef satt skal segja hefði ég ekki farið ef ég hefði vitað að þetta yrði svona erfitt.

En það er gott því ég hefði aldrei viljað missa af þessu. Þetta er mjög einkennileg blanda.” 

Búin að vera í hel

Hópurinn gekk lengst 30 kílómetra á dag en í lokin var spáð svo slæmu veðri að þau gengu 65 kílómetra í rúman sólarhring síðasta spölinn til að festast ekki vegna snjókomu. 

Það er meira en að segja það að draga svona gaura á eftir sér.

,,Eftir 30 kílómetra var komið kvöld og dagurinn hafði verið erfiður. En Vilborg Anna hvatti okkur til að halda áfram. Ég hafði ekki endilega trú á að við gætum það en þá byrjaði aðeins að halla undan fæti og ég hefði aldrei viljað hafa þetta öðruvísi.”

Karen brosir við upprifjunina, er komin augnablik aftur til Grænlands.  ,,Það var svo geggjað að vera þarna um miðja nótt, kuldinn hafði aðeins minnkað og þetta var svo frábært. Fullt tungl og allt dásamlegt. Mér fannst þetta skemmtilegasti sólarhringurinn í ferðinni. Við höfðum alltaf verið í sama útsýninu en allt í einu, og það á síðasta sólarhringnum, sá maður loksins fjöll. Það var svo æðislegt, jafnvel þótt við værum bara komin í eyðifjörð, fjarri allri byggð, var maður samt sem áður kominn á jörðina. Búin að vera í hel allan tímann.” 

Bygging skjólveggs á sumardaginn fyrsta.

,,Manstu eftir bíómyndunum þegar einhver er dáinn og sér líf sitt í anddyri himna? Ég hugsaði það. Maður er hvergi, ekki til lengur, og getur horft á líf sitt úr fjarlægð. Það er svolítið svoleiðis tilfinning.” 

Hún bætir við að þegar hópurinn tók af sér buff og skíðagleraugu síðustu nóttina hafi þau í fyrsta sinn séð andlit annarra en tjaldfélagans almennilega. ,,Maður var nánast stanslaust með gleraugun og  það er líka dálítil einangrun að sjá hvorki augu né bros.”

Mikið kikk

Hvernig er tilfinningin að vera búin að afreka ferðina?  

,,Það er einhver tilfinning sem fær konur til að fæða barn oftar en einu sinni og fær kannski líka fólk til að fara oftar en einu sinni í stríð. Stríðssögur vilja oft vera eins og það hafi verið skemmtilegt, sem er fáránlegt því stríð eru bara hryllingur og dauði. En heilinn vinnur úr þessu hratt og örugglega og skilur við mann eins og þetta hafi verið geggjað. Og ég held að það hafi verið mjög ýkt hjá mér því þetta var svo mikið kikk að ég hefði getað gengið til baka. Þetta var svo geggjað að vildi fara aftur eftir viku.” 

Það er sláándi að sjá stærð Grænlands miðað við Ísland.

Hún segir næstu ferð verða mun einfaldari. ,,Maður er orðinn svo flinkur við að gera og græja. Þess vegna langaði mig aftur, til að nýta alla reynslunni sem maður fékk í ferðinni. 

Aðspurð um hvað reki hana áfram segist Karen halda að hirðingjaeðlið sé ríkt í mannskepnunni. ,,Það er svo gaman að vera í hóp, vera saman á ferð, hjálpast að og vera með sameiginlegt markmið. Það er rosalega heillandi. Og að vera á leiðinni eitthvað, fara yfir eitthvað. Mér finnst það geggjað. Það er erfitt að lýsa þessu en það er þessi tilfinning sem sennilega keyrir mig áfram.”

Svona áletranir sér maður ekki á hverju degi.

,,Það er sársauki og sjálfsvorkun við svona leiðangra, sumir fara illa andlega, og maður veit aldrei hvaðan styrkurinn kemur. Maður er oft með fyrirframgefnar hugmyndir um hvaðan styrkleiki kemur en svo getur fólk komið manni á óvart.” 

Skilja við fyrra líf og giftast veiðimanni

Hvað er í ósköpunum er hægt að gera næst? Eftir að þvera Grænland? Hvað toppað það?

..Mér leið þannig fyrstu vikurnar og fannst allt svo óspennandi. Ég er bara rétt að jafna mig núna og er farin að njóta minninganna meira. Fyrst langaði mig bara beint aftur til Grænlands, það er örugglega sú tilfinning sem gæti fengið mann til að skilja við fyrra líf og giftast veiðimanni, segir Karen og hlær.

,,Núna er ég að njóta þess að skipuleggja eitthvað með manninum mínum.” 

Eiginmaður Karenar, Hannes Ingi Geirsson íþróttamaður og íþróttakennari, smitaðist algjörlega af útivistarbakteríunni af frúnni og nú stefna þau hjúin á alls kyns skemmtilega hluti, jafnt innanlands sem utan. 

Ástandið rosalegt

Karen er óhemju heilluð af Grænlandi en viðurkennir að eymdin þar sé meiri en hún hafi séð fyrir. ,,Ástandið í Tasiilaq, þar sem við lukum förinni, er rosalegt. Þar er ein mesta tíðni morða, sjálfsmorða, nauðgana og heimilisofbeldis í Grænlandi. En ég sá líka svo fallega hluti, eins og börnin að leika sér við hvolpana sína. Það er allt annað ástand í Nuuk, sem er mjög kúl bær, en hann er alveg hinum megin á landinu. Þetta land er svo ofboðslega stórt og svakalegt að fást við, erfitt en fullt af dásamlegu fólki sem hefur lifað með náttúruöflunum í gegnum aldirnar. 

Karen Kjartansdóttir Mynd/Ernir

Við þekkjum Grænland svo lítið og mig langar svo að þekkja það betur, bæði náttúruna og samfélagið og líka  kynna mér það sem Íslendingar eru að gera þar í landi.” 

,,Það eru svo dásamleg forréttindi að geta gert eitthvað þessu líkt,” segir Karen Kjartansdóttir að lokum, Grænlandsfari með meiru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk

19 ára stúlka dó í svefni eftir að hafa kvartað undan slæmum höfuðverk
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn

Kynlífsjátning Heidi Klum um eiginmanninn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segist ekki vera kynferðislegt rándýr en 16 þúsund manns eru ósammála

Segist ekki vera kynferðislegt rándýr en 16 þúsund manns eru ósammála
Fókus
Fyrir 3 dögum

Er Ísland þess virði?

Er Ísland þess virði?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir varar við athæfi kynlífsóðu klámstjörnunnar – Hættulega langar samfarir

Læknir varar við athæfi kynlífsóðu klámstjörnunnar – Hættulega langar samfarir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ný negla frá Sveindísi Jane

Ný negla frá Sveindísi Jane