fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Umræða um þriðju vaktina mikið hitamál – „Fá konur frítíma sem nemur áhorfinu á HM í desember?“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 1. desember 2022 12:59

Hulda Tölgyes og Þorsteinn V. Þorsteinsson. Myndir/Facebook/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hulda Tölgyes sálfræðingur og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur skrifuðu aðsenda grein á Vísi í gær sem fjallar um þriðju vaktina og hefur vakið mikla athygli.

Þriðja vaktin er einskonar verkstýring heimilisins, ólaunað starf sem snýst um að allt gangi eins og smurt í hinu daglega lífi og getur valdið miklu andlegu álagi. Greinin er sú mest lesna á vefmiðlunum og greinilega er um mikið hitamál að ræða því athugasemdirnar hrúgast inn.

Hulda og Þorsteinn eru hjón og eiga saman þrjú börn. Þorsteinn er maðurinn á bak við vinsælu Instagram-síðuna og samnefnda hlaðvarpið Karlmennskan. Hann býður einnig upp á femíniska fræðslu og fyrirlestra.

Hver stendur þriðju vaktina í aðdraganda jólanna?

„Á bakvið hverja huggulega jólahátíð er kona* sem hefur séð til þess að öll fái réttu pakkana, krakkarnir séu í betri fötunum, matarborðið sé hátíðlegt, kertin endurnýjuð og að allir litlu hlutirnir séu til staðar sem gera jólin að einhverju öðru en hversdagslegu matarboði, án þess að nokkur hafi endilega haft orð á því. Enda týpískt fyrir þriðju vaktina sem fellur margfalt þyngra á konur en karla, bæði almennt en sérstaklega í parasamböndum. Týpískt að enginn hafi tekið eftir allri vinnunni enda að stórum hluta hugræn, fyrir utan að konur og þeirra framlag er gjarnan gert ósýnilegt og tekið sjálfsagt,“ skrifa Hulda og Þorsteinn og útskýra nánar.

„Þriðja vaktin samanstendur af utanumhaldi, yfirsýn og skipulagi sem þarf að vera til staðar svo að hlutirnir gangi upp. Þetta getur verið innan heimilis og utan þess og einnig á vinnustöðum. Þriðja vaktin snýst um að vita um hluti, hugsa fyrir þeim og að muna eftir því að muna. Oft er það lítið sýnilegt, eða algjörlega ósýnilegt, hver stendur þriðju vaktina og jafnvel er gert lítið úr því þegar þreytt, buguð og pirruð kona í þeytivindu þriðju vaktar reynir að færa byrði á til dæmis maka sinn i veikri von um að hann standi vaktina með henni.“

HM í fótbolta

Þau nefna heimsmeistaramótið í fótbolta í þessu samhengi.

„Margar konur [tengja] við það að álagið eykst mikið í aðdraganda jólanna. Og ekki minnkar álagið þegar margir karlarnir gera tilkall til frítíma til að horfa á HM í fótbolta, sem lýkur ekki fyrr en rétt fyrir aðfangadag. Þá er spurning hvort frítímanum sé jafnt varið og hvert önnur og þriðja vaktin fellur. Fá konur frítíma sem nemur áhorfinu á HM í desember?“

Þau fara nánar út í þriðju vaktina í pistlinum og taka nokkur dæmi um verkefni hennar, eins og að ákveða hvað hvert og eitt á að fá í jólagjöf, að muna hvenær börnin eru í fríi frá skóla, ákveða í hvaða fötum börnin verða á jólunum og að hugsa fyrir því að versla gjafir á afsláttardögum.

Lausnin

Hulda og Þorsteinn segja að ein lausn á þessum vanda er „klárlega að sjá ójafnvægið, sjá vaktirnar og umfang þeirra, sjá hvernig hlutverkin lenda og skilja afleiðingar þess. Án þess gerast engar breytingar. Ef við sjáum bara reykinn, útbrunnar konur, en ekki hvað veldur brunanum er erfitt að slökkva í honum.

„Lausnin er allavega ekki sú að konur þurfi bara að vera duglegri að slaka aðeins á eða „leyfa“ mönnunum* sínum að stíga inn. Gefa þeim rými. Karlar þurfa sjálfir að stíga inn, eiga frumkvæði og taka sér rými á annarri og þriðju vaktinni – karlar virðast almennt ekki eiga í erfiðleikum með að eigna sér rými og taka pláss í öðru samhengi t.d. til að horfa á HM.

Lausnin er allavega ekki að pabbinn, karlinn, taki að sér að versla jólagjafirnar og barmi sér yfir þeirri byrði með því að velta öllu öðru á makann sinn. Til dæmis með því að fara af stað síðustu helgi fyrir aðfangadag, taka sér laugardaginn og sunnudaginn í að finna út hvar allt fæst og á meðan eru börnin heima og allur annar undirbúningur og streita leggst jafnvel enn þyngra á konuna. En er fríaður ábyrgð því hann er nú svo „duglegur“ að kaupa jólagjafirnar.“

Þau segja að ekki eigi að gera lítið úr þriðju vaktinni því þriðja vaktin fellur alltaf á einhvern, misþungt með mis alvarlegum afleiðingum.

Að lokum taka þau fram að „vissulega eru pör af öllum kynjum og álagið getur fallið ójafnt á einstaklinga, óháð kyni. Hér erum við að ávarpa rótgróið og útbreitt mynstur í karl/kona samböndum en rannsóknir hafa ítrekað sýnt að þar á þessi ójafna skipting á byrði vaktanna auðvelt með að hreiðra um sig, vaxa, viðhaldast og dafna.“

Misjöfn viðbrögð

Greinin hefur fengið mikil viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð, á samfélagsmiðlum.

„Frábær grein, sé að hún hittir á veika punkta hjá mörgum sem er gott og upplýsandi. Annars er síðan alveg sérstaklega andstyggilegt að einhver skuli yfir höfuð horfa á HM núna og þar með styrkja, styðja og samþykkja það sem er í gangi í Katar. Það eitt og sér segir margt um manneskju, af hvaða kyni sem er,“ sagði einn netverji á Facebook.

„Hvurslags er þetta. Konur horfa líka á fótbolta,“ sagði önnur kona og bætti við: „Og svo eru karlar líka að sinna um heimili og börn, elda mat og allt annað sem gera þarf á heimilum… ég bara þoli ekki þetta fótboltavæl.“

Karlmanni leist ekkert á grein Huldu og Þorteins. „Hvaða endemis rugl er þetta, það mætti halda að þessi grein hafi verið skrifuð 1980. Í hverning sambúð eru greinarhöfundar? Ég veit ekki betur en að hjá öllu nútíma samböndum er unnið saman að verkum inná heimilinu,“ sagði hann.

Ein kona svaraði honum: „Og svo er einmitt þarna verið að útskýra muninn á annarri og þriðju vaktinni. Að vinna saman að verkunum er önnur vaktin, að hafa yfirsýn yfir það hvaða verk þarf að vinna og passa upp á að þau séu unnin, er þriðja vaktin og hefur ekkert endilega með það að gera hver vinnur þau.“

Hulda hefur svarað eitthvað af gagnrýninni á Twitter.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram