fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Lesendabréf voru kommentakerfi liðinna ára – „Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að svona nokkuð sé borið á borð fyrir almenning”

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 6. nóvember 2022 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viljir þú koma á framfæri skoðun og vangaveltum, sem þú telur eiga erindi við almenning, er valkvíði sennilegast stærsta vandamálið. Algjört lúxusvandamál. 

Á að pósta á Facebook? Á prívatsíðu eða í hóp? Kannski Insta? Er þetta kannski meira svona Twitter? Muna myllumerkin! Eða láta vaða og henda jafnvel í komment ?

Arga Breiðhyltingnum hlýtur að hafa létt mjög.

En svo hefur ekki alltaf verið. Fólk hefur alltaf haft þörf fyrir að tjá skoðanir sínar, og sumir töluvert meira en aðrir. Aftur á móti var færra um kosti á árum áður, enn voru ljósár í hugtakið „virkur í athugasemdum,” og fátt annað að leita en til dagblaðanna til að tjá hug sinn.

Húsmóðir í vesturbænum

Sem betur fer var þar vettvang að finna og sáu dagskrárliðir á við Raddir lesenda í Dagblaðinu og Velvakandi í Morgunblaðinu um að koma því á framfæri er brann í brjósti lesenda.

Það er auðvelt að gleyma sér í áratugagömlum lesendabréfum. Mörg snerust um kosningar eða önnur hitamál á við hvort að banna ætti hundahald eða leyfa bjór og sýndist sitt hverjum. 

Önnur voru ígildi smáauglýsinga, þar sem leitast var eftir þjónustu eða týndum munum, og góður slatti gæti allt eins verið skrifaður í dag. Var þá um að ræða kvartanir yfir þjónustu opinberra stofnana eða skorti á umferðarljósum við skóla, svo fátt eitt sé nefnt. 

Sumt er hreinlega ekki hægt að flokka eins og sjá má á þessu bréfi til DV árið 1978. 

Sú er þetta ritar fékk þann starfa á DV, um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, að leysa af við lestur og ritun lesandabréfa svo og að taka við símtölum. Var það á lokametrum þess ágæta dagskrárliðs en engu að síður afar merkileg, en þó sjaldnast skemmtileg, lífsreynsla fyrir krakkadýr rétt nýskriðið yfir tvítugt. 

Húsmóðir í vesturbænum var vinsælasta auðkennið, sama hversu djúpraddaður viðkomandi var. 

Svona líka léttgeggjaðir gaurar voru alveg tilefni í eitt bréf.

Lítum á nokkra gullmola frá lesendadálkum liðinna tíma þar sem sjá má hvað fólki lá helst á hjarta. 

Kona” hringdi í Morgunblaðið 1988: „Ég er svo hrædd um að fólk geri sér ekki grein fyrir hvaða efni eru í bjórnum og láti börnin komast í hann en bjórinn getur verið þeim hættulegur. Fyrir nokkru var ég að passa barn og þegar það átti að fara að sofa kom móðirin. Þarna var til bjór og stakk hún upp á því að við settum bjór á pelann til að barnið sofnaði fyrr. Nú á ef til vill að fara að flytja bjórinn inn en hefur verið útskýrt fyrir fólki hve hættulegur hann getur verið fyrir börn?”

Spurt er, sinntu heilbrigðisyfirvöld sig í að skýra út fyrir fólki að bjór væri ekki æskilegur á pela? 

Ein sárreið” hringdi í Dagblaðið 1978: „Ég verð að lýsa megnustu fyrirlitningu minni á þeirri þróun sem er að vera á heimilisblaðinu Vikan. Þetta er blað, sem berst inn á fjölmörg heimili í landinu og mann rekur alveg í rogarstanz þegar heilt blað er meira og minna helgað viðtali við kynvillinga. Ég verð að segja það að mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að svona nokkuð sé borið á borð fyrir almenning, nóg er af óeðlinu samt.” 

– Er til skýrara dæmi um breyttan tíðaranda? 

Húmoristi” hringdi í Dagblaðið 1983; „Ég hef  tvisvar farið á skemmtanir þar sem fremstu grínistar landsins hafa komið fram. Ég er mjög undrandi yfir bröndurum þeirra því þetta er bara argasta klám. Ég hef gaman af bröndurum, ég er mikill húmoristi, en ég kann ekki við svona grín.”

– Augljóslega mikill húmoristi. Og svona líka hógvær í ofanálag. 

Margir lýstu miklum áhyggjum af framtíð íslenskrar tungu. Sumt breytist seint.

9333-9233” hringdi í DV 1987: „Ég var að velta fyrir mér hvort það væru til meðmæli með vídeóleigunni eða myndunum sem legið hafa í hillum svo til óhreyfðar í nokkra mánuði?”

Væntanlega brann þessi spurning á fjölda manns.

„D.Á.” hringdi í DV 1986: „Ég hef heyrt að fólk hefur verið að hneykslast á búðinni Lady of Paris, sem er á Laugaveginum, vegna ósmekklegs undirfatnaðar sem þar á að vera seldur. Ég vil láta í ljós óánægju mína með þessa gagnrýni því ég hef sjálf farið í þessa búð og komist að raun um að þetta umtal hefur við engin rök að styðjast. Þetta er mjög hugguleg búð með venjulega undir- og nærfatnað og alls ekki ósmekklegan eins og fólk hefur verið að tala um. Einnig vil ég benda á að það eru mjög almennileguar afgreiðslustúlkur í þessari búð og þakka ég þeim kærlega kurteisina sem þær sýna.”

Það fauk í D.Á. við að heyra slíkar sóðasögur og eðlilega vildi hún leggja sitt á vogarkálirnar. Og svona líka almennilegar afgreiðslustúlkur. 

M.A.” hringdi í DV 1987:Mér finnst þessi vinsældalistar, sem útvarpsstöðvarnar eru með, algjört frat. Það lag sem kemst á toppinn þarf ekkert að vera vinsælast meðal fólks heldur er það einungis best kynnt eða auglýst. Mér finnst fólk gera allt of mikið úr þessum vinsældarlistum og fólk hafa of mikla ofurtrú á þeim.”

– Amen! 

Bréfin bárust alls staðar frá. Jafnvel frá áhyggjufullum Skotum.

Ung stúlka” hringdi í Dagblaðið 1978:Hefur fíkniefnalögreglan rétt til þess að láta atvinnurekendur vita að fólk sé á sakaskrá hjá henni og þar með verið ef til vill völd að því að fólk missi vinnuna?”

Elsku stelpan…

Piltur” hringdi í Morgunblaðið 1987: „Ég skora á Bjarna Felixson að sýna leik Arsenal og Manchester United.” 

Það var svoooooo langt í beinar útsendingar úr enska. 

Pétur” skrifaði í Dagblaðið 1967: „Hvimleitt er að heyra sífellt veljið íslenzkt en síðan geta vissir hópar alls ekki valið íslenzkt því það er ekki til. Hér á ég við fatnað á stóra og þrekna menn og einnig skófatnað. Ég er hár vexti, 1.98 m á hæð, og þrekinn, og nota skó nr. 47. Sl. 15 ár hef ég engin föt fengið á mig nema sérsaumuð. Ég vil gjarnan komast í samband við þá sem hafa föt á stóra menn.”

Eymingja Pétur leitaði til fjölmiðla í örvæntingu sinni yfir að komast ekki yfir boðlega leppa. Skiljanlega. 

Einn sem á myndband var afar óánægðu með sjónarpsþáttinn Dallas. Nema J.R.)

9380-0080” hringdi í Dagblaðið 1978: „Ég vil þakka sr. Birgi hans góða framlag í í þættinum í sjónvarpinu á mánudagskvöldið 13. febrúar. Það er gleðilegt að heyra að ekki eru allir orðnir svo úrkynjaðir að fagna slíkum sóðaskap sem einkennir kvikmyndagerðarlist í dag. Mikið skelfing held ég að þeir listamenn séu brenglaðir á sálu sinni sem geta látið slíkan óþverra frá sér fara.” –

– Nú verður maður hreinlega að vita hvað sr. Birgir sagði þetta mánudagskveld. 

Reykjavíkurmær skrifar í DV 1986: „Mér finnst mjög skrýtið að sjónvarpið skuli ekki ennþá hafa sýnt meira frá brúðkaup Söru og Andrew því þar eru mjög margir sem vilja fá að sjá það. Mér finnst þetta óþolandi silaháttur. Sjónvarpið gat leyft sér að sýna Reykjavíkurmynd Hrafns Gunnlaugssonar tvisvar með stuttu millibili, án þess að nokkur bæði um, en svo er ekki hægt að sýna neitt frá brúðkaupinu eins og það eru margir sem hafa farið þess á leit. Er virkilega ekkert tillit tekið til þess hvað við landsmenn viljum horfa á, er þetta eri Ríkisútvarp-sjónvarp sem við öll borgum af og ættum því að hafa eitthvað að segja í sambandi við þáttaval. Ég ítreka. Ég bíð spennt eftir að sjónvarpið sýni meira frá brúðkaupi Söru og Andrew.” 

– Eftirspurn eftir bresku konungsfjölskyldunni er augljóslega gömul saga og ný. Smá diss á Hrafn samt.

Fæstir vilja sjá þetta smetti á flatskjám sínum í dag.

Gallabuxnaframleiðandi” hringdi í Morgunblaðið 1983: „Hvernig er það eiginlega með þennan vinsæla skemmtistað í Kópavogi? Af hverju hleypa þeir fólki ekki inn á gallabuxum? Unga fólkið er alveg hætt að kaupa af mér gallabuxur, það vill bara sparibuxur. Það segist ekki komast inn á gallabuxum.” 

– Þið þarna í Kópavogi? Á vinsæla staðnum? Eigið þið svar við því?

Ragnheiður” hringdi í Dagblaðið 1978: „Mig langar að koma á framfæri til þeirra, sem búa til slátrið í Þykkvabænum, hvort þeir geti ekki haft slátrið betra. Það er of þykkt hjá þeim þarna fyrir austan. Hólagarður hér í Breiðholti selur slátrið frá þeim og er það ekki líft því eins gott og Sláturfélags slátrið. Mér datt svona í hug hvort þeir Þykkvabæjarmenn gætu ekki fengið uppskriftina hjá þeim þarna í Sláturfélaginu. Þegar keyptur er einn keppur á átta hundruðum krónur vill fólk hafa slátrið gott.” 

Það er ekki nokkur leið að mótmæla Ragnheiði. Slátur er ekki slátur nema það sé gott. Útrætt mál. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“