Sólrún Diego, áhrifavaldur og skipulags- og þrifsérfræðingur, sækir á ný mið og hefur verið ráðin sem markaðsstjóri barnavöruverslananna Von og Bíum Bíum.
Í samtali við Viðskiptablaðið segist Sólrún vera mjög spennt að spreyta sig á þessu sviði. „Ég er búin að vera með minn miðil í sjö ár og finnst vera kominn tími á að nýta menntunina mína í eitthvað almennilegt,“ segir hún.
Sólrún mun útskrifast í desember úr viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti og samfélagsmiðla.
Nýi markaðsstjórinn segist ætla að leggja áherslu á gott aðgengi að netverslun fyrir fólk um allt land. „Það eru því mörg tækifæri framundan að gera alls konar nýtt og ég er spennt að fá að koma öllum mínum hugmyndum á framfæri,“ segir hún við Viðskiptablaðið.
Sólrún hefur um árabil verið einn vinsælasti áhrifavaldur landsins. Hún hefur ak þess skrifað tvær bækur um þrif og skipulag og einnig gefið út skipulagsdagbók.