fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Gabriely hafði aldrei séð snjó þegar hún flutti óvænt til Íslands – ,,Ég var mjög reið og hataði mömmu dálítið“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 9. júlí 2022 09:00

Gabriely Freitas. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabriely Freitas er tvítugur bílamálari frá Brasilíu sem hefur búið á Íslandi í tíu ár. Það er engan hreim að heyra á henni og reyndar er hún liprari en margir í íslenskri tungu. Gabriely er brasilísk að uppruna, bjó þar fyrstu tíu ár ævi sinnar, en er í dag jafn elsk að salsa og saltkjöti og baunum.

,,Þegar ég kom til Íslands árið 2013 talaði ég bara portúgölsku. Ég man að ég kom á miðvikudegi, var heima í einn dag, og svo sett í grunnskóla. Ég var búin að vera á Íslandi í 48 klukkustundir.”

Gabriely sér snjó í fyrsta skipti. Myndin er tekin daginn eftir komuna til Íslands.

Gabriely skildi ekki ekki orð og í hennar eyrum hljómaði íslenskan eins og allir væru að rífast. Ein bekkjarsystir átti þó pabba frá Chile, talaði sú smá spönsku, og var Gabriely látin elta hana. Það hjálpaði að mamma Gabriely var þá skólaliði í sama skóla og hafði undirbúið komuna með skólayfirvöldum.

Hafði aldrei séð snjó

,,Þetta var svolítið ógnvekjandi. Ég kem frá norðausturhluta Brasilíu þar sem alltaf er hlýtt og ég var bara góð þar. Svo var ég allt í einu komin í þennan kulda, skildi ekki tungumálið og vissi ekkert hvað var í gangi. Þetta var sjokk.”

Þar að auki kom Gabriely til landsins í janúar. Hún hafði aldrei séð snjó.

Þær mæðgur telja að um 500 landar þeirra séu búsettir hér á landi, sem kannski er meira en margir halda, en Gabriely segir ekki fara mikið fyrir löndum sínum og séu margir þeirra á landsbyggðinni.

Gabriely uppáklædd á hátíð í Brasilíu.

Priscilla, móðir Gabriely, sest hjá dóttur sinni og býður upp á kaffi.

Hún vann við fjölmiðla í Brasilíu og kom til Íslands árið 2010 þar sem þarlendur miðill var með umfjöllun um landið. Priscilla stökk á tækifærið og fór í fyrsta skipti út fyrir landsteinana, og þá alla leið til Íslands. Hún kynntist fjölda fólks og í gegnum vinkonu hóf hún að spjalla við herramann á Íslandi. Ástin tók yfir og ákvað Priscilla að koma til Íslands og vera í þrjá mánuði. Það gekk þó ekki eftir, hún sótti dóttur sína, og er Priscilla enn á Íslandi. Sambandi stóð í fimm ár og eignuðust þau einn son.

Var mjög reið

Gabriely segist afar þakklát fyrir að búa á Íslandi í dag en segir flutninginn hafa verið sér mjög erfiðan. Hún bjó hjá ömmu sinni og afa í Brasilíu, sem hún elskar og saknar út af lífinu.

,,Þetta var rétt fyrir jól, ég bara tíu ára og allt í einu var mamma komin. Ég hafði enga hugmynd um að hún væri að sækja mig og brá svakalega enda leið mér svo vel hjá ömmu minni og afa. Ég var mjög reið, neitaði að læra og tala íslensku og eiginlega bara hataði mömmu í dálítið góðan tíma. Það var tekið mjög vel á móti mér en þetta var yfirþyrmandi, mér fannst allir horfa á mig og fann til mikils kvíða.”

Gabriely Freitas. Mynd/Sigtryggur Ari

Gabriely var samt fljót að eignast vini og notuðust þau við Google Translate í samskiptum. ,,Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta hefði verið fyrir 20 árum, fyrir daga snjallsímanna. Vinkonurnar stríddu mér reyndar aðeins og sögðu að strákur þýddi stelpa og öfugt. Þær héldu þessu áfram í um það bil mánuð sem ég var að gera mig að fífl. Það tók smá tíma en núna sé ég húmorinn í því.”

Google Translate

Þrátt fyrir allt gekk Gabriely inn á æfingu í blaki aðeins þremur mánuðum eftir komuna og bað um að spila með. Aftur bjargaði Google Translate samskiptum og æfði hún blak næstu árin. Hún fékk einkatíma í íslensku, sem henni fannst æðislegir, og fékk auðveldara námsefni í íslenskutímum í skólanum. Hún var aftur á móti á undan í stærðfræðinni sem er heldur þyngri í Brasilíu.

,,En svo fauk það forskot fljótlega út um gluggann,” segir Gabriely og hlær.

Hún fór einnig í dans og hefur meðal annars sýnt suður-ameríska og afríska dansa.

Gabriely var farin að skilja tungumálið eftir um eitt ár eftir að hafa bjargað sér á ensku. Hún kunni reyndar ekki orð í ensku þegar hún kom en lærði hana á undan íslenskunni. Aðspurð að því hvenær hún hefði tekið tungumálið í sátt segir hún það hafa fyrst verið fyrir alvöru þegar hún byrjaði að vinna.

,,Ég var alltaf smeyk við að tala og um leið og fólk fór að hvá eða skildi mig ekki skipti ég yfir í ensku. En ég varð að byrja að tala íslensku þegar ég fékk vinnu á kjúklingastaðnum í Suðurveri árið 2016. Flestir voru mjög almennilegur en íslenska fallbeygingin er það erfiðasta í heimi og stundum fékk maður skot á sig fyrir að tala rangt.

Svo ákvað ég bara að gefa skít í svoleiðis fólk, ef ég væri að beygja rangt yrði bara að hafa það.”

Við útskritina úr bílamálunina, eina stelpan.

Tilfinningahitinn meiri í Brasilíu

Hver finnst henni helsti munurinn á þessum tveimur þjóðum?

,,Við erum mjög hlý og vinaleg þjóð. Ef ég er að hitta þig í fyrsta skipti knúsa ég þig. Íslendingar eru aðeins öðruvísi. En um leið og maður kynnist þeim þá opna þeir sig og kannski er minn tilfinningahiti minn aðeins búin að kólna eftir öll þessi ár á Íslandi,” segir Gabriely og brosir.

,,En það var erfitt að að brjóta þessa veggi og ná að kynnast fólki almennilega. Í Brasilíu göngum við líka mikið og mér fannst skrítið að það væri farið út um allt á bílum á Íslandi.

Gabriely Freitas Mynd/Sigtryggur Ari

Priscilla vill búa á Íslandi, sér sig ekki búa annars staðar, en Gabriely er opnari fyrir því að prófa eitthvað nýtt.

,,Ég sé mig ekki endilega búa á Íslandi í framtíðinni því það er ýmislegt eitrað við íslenskt samfélag, sérstaklega samfélagsmiðlarnir. Ég hef ekki persónulega lent í slíku en þekki fólk sem hefur lent í þeim. Ég þori stundum ekki almennilega að vera ég sjálf, ég er hreinskilin og segi mína skoðun og get kannski virkað dónaleg á þá sem ekki þekkja mig sem getur misskilist. Ég kem bara til dyranna eins og ég er klædd en það eru svo margir kjaftandi um næsta mann í samfélaginu okkar.”

Hún þagnar augnablik og hugsar sig um. ,,Ég veit ekki almennilega hvernig á að orða þetta. En mér finnst eins og það geti ekki hver sem er gert sitt, að Ísland sé kannski ekki alveg komið þangað. Að það sé enn málið að tilheyra ákveðnum hópi. Það er allavega það sem ég upplifi það núna en það gæti breyst eftir eitt ár eða tvö eða bara einhvern tíma í framtíðinni.”

Með mömmu, ömmu, afa og litla bróður við útskriftina í desemer í fyrra.

Gabriely segist ekki viss um að vilja búa í slíku samfélagi. ,,Ekki misskilja mig. Ég elska Ísland og ég er Íslendingur. En það er kalt og dimmt á veturna og útilokað fyrir unga konu eins og mig að kaupa fasteign næstu árin. Æi, það er svo margt sem maður er pæla,“ segir Gabriely hugsandi.

,,En ég er bara tvítug og veit ekki hvað bíður mín. Ég er í góðri vinnu en spyr sjálfa mig að því hvað ég geti gert meira. Það býður mín eitthvað æðislegt en ég veit ekki enn hvað það er. En mig langar að búa í útlöndum, helst í heitu landi.”

Gabriely viðurkennir að jafnvel tíu árum eftir komuna til landsins reynist kuldinn henni erfiður.

,,Ég er að vinna með stelpu frá Lettlandi sem elskar náttúruna og elskar því að búa á Íslandi. En það er ekki ég. Ég er of mikið borgarbarn til þess að ferðast um og skoða tré og fjöll. Mér finnst það bara ekki skemmtilegt, hvað get ég sagt? “

Andlega ekki á réttum stað

Priscilla fékk sjokk við val Gabriely á bílamáluninni og fannst það fullgróf vinna fyrir sína fínlegu og vel förðuðu dóttur. ,,Það tók smá tíma fyrir mig að jafna mig og venjast því að hún kæmi heim í skítagallanum,” skýtur hún inn í.  Afi Gabriely hafði verið yfirmaður á bensínstöð í Brasilíu og segist hún alltaf hafa sóst í að fara með afa sínum í vinnuna til að að anda að sér olíulyktinni. Hún átti einnig marga vini með bíladellu á unglingsárum. Fyrst langaði hana þó í næringarfræði, íþróttafræði eða annað heilsutengt. Gabriely hafði líka áhuga á sálfræði en fannst alltaf gaman að vesenast á verkstæðum. Þegar að námsráðgjafi stakk upp á bílamálun ákvað hún að prófa og líkaði vel.

Gabriely Freitas. Mynd/Sigtryggur Ari.

,,Ég átti að útskrifast í maí 2020, rétt fyrir Covid, en ákvað að taka pásu frá náminu. Andlega heilsan var ekki á réttum stað, ég var að mæta illa og glímdi við kvíða og þunglyndi. Ég er ekkert feimin við að tala um að ég hætti í skólanum vegna andlegrar heilsu.”

Hún skilur vel í dag hvað hafi ollið. Flutningurinn frá fólkinu hennar í Brasilíu í nýtt umhverfi svo og erfiðar heimilisaðstæður. Eftir að sambandi Priscillu við barnsföður sinn lauk lenti hún í ofbeldissambandi sem fór illa með þær mæðgur báðar og þurfti inngrip yfirvalda.

,,Það má segja að ég hafi þurft að fullorðnast kannski hraðar en margir,” segir Gabriely.

Gabriely tók málum föstum tökum, leitaði sér hjálpar, og segir það hafa bjargað sér. Hún útskrifaðist úr bílamáluninni í desember í fyrra.

Viljinn fyrir hendi

,,Bílamálunin var eiginlega flipp en núna starfa ég við hana hjá B&L og líkar vel þar. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt fólk í þessu. Ég hef aldrei upplifað að fá eitthvað öðruvísi viðmót af því að ég er stelpa og fleiri og fleiri stelpur að fara í þetta nám. Ég er reyndar í þremur vinnum en finnst ég aldrei vera að gera neitt, þarf alltaf að vera á yfirsnúningi annars verð ég bara þunglynd. Ég þarf alltaf að vera að plana hvað ég geri næst.”

Gabriely var snögg að eignast vini á Íslandi.

Þær mæðgur segjast ekki hafa fundið fyrir fordómum en það sé algengt að fólk yrði á þær á ensku. Þær svara alltaf á íslensku. Gabriely segist aftur á móti heyra fólk segja ýmislegt sem flokka mætti sem rasískt. ,,Ég lendi ekki í neinu einmitt vegna þess að ég tala tungumálið. En ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta er fyrir fólk sem ekki talar tungumálið, er að reyna að gera sitt besta til að læra það, er ekki kannski ekki með jafn sterkt bakland og ég var með.

Viljinn er oft fyrir hendi en fólk veit ekki hvert á að leita.

Mér finnst að við Íslendingar, og ég er líka Íslendingur, ættum að vera aðeins viljugri til að hjálpa nýjum íbúum og kenna í stað þess að gagnrýna. Það er alltaf hægt að finna leið til aðstoða í stað þess að vera með leiðindi.”

Það vantar eitthvað

Gabriely segist oft hugsa um hvernig sé til að mynda fyrir hælisleitanda að vera allt í einu staddur í gjörólíku umhverfi á Íslandi. Þær mæðgur kalla eftir teymi til að halda utan um fólk, teymi sem sýni nýbúum hvernig samfélagið virki.  ,,Það vantar teymi sem útskýrir íslenska samfélagið. Þau eru reyndar örugglega til en það vita ekki allir hvert á að leita, sérstaklega fólk eins og við sem kom á eigin vegum. Það vantar eitthvað og ef ég verð hérna áfram langar mig að hjálpa fólki sem stóð í sömu sporum ég þegar ég var tíu ára.”

Priscilla tekur undir, hún er túlkur hjá Alþjóðasetri, skilur vel þarfir nýrra íbúa og gerir hvað hún getur til að hjálpa og leiðbeina.

Gabriely saknar fjölskyldu sinnar í Brasilíu. Amma og afi komu til að vera viðstödd útskriftina.

Gabriely vill einnig leggja sitt á vogarskálarnar, brennur í raun fyrir það, og er í leit að sínum leiðum til þess. Núna kemst þó ekkert annað að en að vinna og spara en hana dreymir um að fara í sjálfboðaliðastarf.

,,Ég hef svo mikið sem aðrir hafa ekki, það er æðislegt að búa á Íslandi, en samt tuða ég og kvarta yfir veðrinu og skattinum. Þess vegna langar mig í sjálfboðaliðastarf, til að núllstilla mig, og kunna að meta allt sem ég hef.

Verða kannski þakklátari og auðmjúkari.“

Allt er svo auðvelt

Hún segir afa sinn og ömmu og mömmu hafa kennt sér dugnað. ,,Þau hafa alltaf unnið hörðum höndum fyrir sínu, og það böggar mig að fatta að ég sé ekki þakklát fyrir allt sem ég hef. Ég vil ekki breytast í þannig manneskju. Ég er með þak yfir höfuðið, er með vinnu og á bíl. Er alveg ótrúlega heppin miðað við svo ótal marga í heiminum. .

Hún segir fólk eiga svo mikið að við gerum okkur kannski ekki grein fyrir hversu gott við höfum það. ,,Allir hafa aðgang að vatni og við fáum að borða á hverju degi. Amma og afi komu til Íslands í fyrsta skipti í desember í fyrra og ég vissi ekki hvert þau ætlaðu. Þau eru millistéttarfólk í Brasilíu en afi gat varla trúað að það væri hægt að fá neysluvatn úr krananum og vera í sturtu lengur en hálftíma. Föt sett í þvottavél og svo bara í þurrkara. Allt er svo auðvelt hjá okkur.”

Þær mæðgur minnast líka á öryggið við Ísland og Priscilla segir það skipta sig mestu máli. Sjálf hefur hún einnig orðið vitni að hamingju innflytjenda við að komast í öruggt umhverfi, oft eftir mikið óöryggi í sínum heimalöndum.

Alltaf farið eigin leiðir

Gabriely er sjálfstæð og flutti út 18 ára gömul. ,,Sem var auðvitað klikkað eins og leigumarkaðurinn er og ég sé eftir því núna. En ég hef alltaf verið mjög ákveðin og farið  mínar eigin leiðir. Mamma var í molum, eins og ég væri að flytja til Ástralíu. En ég flutti nú reyndar bara tveimur götum ofan við hana.”

Gabriely Freitas. Mynd/Sigrtryggur Ari.

Þær mæðgur er á leið til Serbíu og Króatíu, kærasti Pricillu er Serbi en Gabriely á rúmenskan kærasta sem ólst upp á Spáni. Fjölskyldur gerast því vart alþjóðlegri. ,,Ég þarf smá breik frá samfélaginu, annars verð ég hálf biluð. Og maður hefur ekkert komist í óratíma. Ég get ekki beðið!”

Gabriely segist ekki sakna margs frá Brasilíu, aðallega sé það fjölskyldan sem hún sakni sárlega. Aftur á móti er stefnan sú að foreldrar Priscillu flytji til Íslands í framtíðinni. ,,Á einhverjum tímapunkti bjó öll fjölskyldan saman hjá ömmu og afa og alltaf fullt hús. Ef að þau gætu öll flutt hingað myndi ég aldrei þurfa að flytja til Brasilíu aftur, jafnvel þótt að maturinn sé góður. En það má elda hann hér,” bætir Gabriely Freitas við.

Hún elskar þó kjötfarsbollur mest.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun