fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fókus

Valentínusarplön þekktra Íslendinga

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 13. febrúar 2022 09:00

Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur ástarinnar, Valentínusardagurinn, er á morgun þann 14. febrúar. Undanfarin ár hefur dagurinn orðið meira áberandi á Íslandi og elskendur gert eitthvað rómantískt saman í tilefni dagsins.

DV hafði samband við ástfangna og hressa Íslendinga og spurðist fyrir um þeirra Valentínusarplön.

Margrét Erla maack. Mynd/Ernir

Margrét Erla Maack, fjölmiðlakona og skemmtikraftur

Margrét Erla og Tómas Steindórsson, útvarpsmaður, hafa verið saman í fimm ár, en það er skemmtilegt að segja frá því að Tinder leiddi þetta ofurpar saman. Aðspurð hver hennar plön eru á morgun segir hún:

„Í venjulegu árferði væri ég að skemmta með Dömum og herra á stórkostlegu árlegu sýningunni Súr hjörtu, þar sem fimbulvetur og ullarstripp blandast sykursætum atriðum sem fá hjörtu til að slá hraðar. Ég er mikil tyllidagamanneskja en ég held að þetta verði nú bara venjulegur mánudagur í alla staði. Mögulega býð ég mömmu og pabba í mat, enda er mamma mín blómakona í 18 rauðum rósum og faðir minn tekur að sér blómaútkeyrslu. Þau verða líklega mjög þreytt þetta kvöld. Þá er gott að borða og hlæja saman. Er ekki hversdagsrómantíkin langbest?“

Brynjar Níelsson

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra

Brynjar er giftur Arnfríði Einarsdóttur, landsréttardómara. Hann gefur lítið fyrir dag ástarinnar.

„Valentínusarplön! Skil ekki spurninguna. Ef þetta snýst um þennan hallærislega ameríska Valentínusardag þá er hann ekki í hávegum hafður á mínu heimili. Þótt Soffía vildi alla jafna að ég væri almennilegri, bæði til fara og í hegðun, myndi hún fussa og sveia yfir allri væmni og rómantík af minni hálfu. Hún veit að ég gæti aldrei verið sannfærandi í þessum efnum. Ég hefði þetta hreinlega ekki í mér. Það eina sem ég mun gera á þessum Valentínusardegi er að halda í höndina á dómsmálaráðherra eins og alla aðra daga. Sumum finnst það kannski rómantískt.“

Ósk og Ingólfur. Mynd/Instagram

Ósk Tryggvadóttir, OnlyFans-stjarna og skemmtikraftur

Ósk er í sambandi með Ingólfi Vali Þrastarsyni, sem einnig framleiðir efni fyrir OnlyFans. Þau greindu frá því í september í fyrra að þau væru í opnu fjölkæru sambandi. Aðspurð hvað hún ætlar að gera á Valentínusardaginn segir Ósk:

„Ég ætla að byrja daginn á því að vekja Ingólf með unaðslegu kynlífi og svo ætlum við að njóta bara yfir daginn og hafa það notalegt. Um kvöldið ætlum við að hafa krúttlegan kvöldmat með sambýlisfólkinu okkar og svo um nóttina verður að sjálfsögðu freyðivín og hörkukynlíf.“

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, tónlistar- og leikkona

Þórdís fann ástina í örmum söngvarans Júlí Heiðars Halldórssonar í fyrra. Þegar blaðamaður grennslaðist fyrir um áform hennar fyrir daginn svaraði hún:

„Ég held ekki upp á svoleiðis vitleysu en ef kærastinn minn gerir ekkert þá er ég að spá í að tala aldrei við hann aftur.“

Eins gott að Júlí Heiðar drífi sig að panta borð og kaupi hjartalaga súkkulaðimola.

Albert Eiríksson. Mynd/Anton Brink

Albert Eiríksson, matarbloggari og matgæðingur með meiru

Albert er giftur Bergþóri Pálssyni og héldu þeir upp á 23 ára sambandsafmæli fyrr í mánuðinum.

„Smátt og smátt hefur þessi dagur mjakast inn hjá okkur og við höfum haft það þannig að við höfum gert okkur smá dagamun og hann er oftast í formi matar, því við erum svo miklir matarkallar,“ segir Albert og hlær.

„Það er ekki um að ræða einhver súkkulaðihjörtu eða rósavöndur eða eitthvað svoleiðis, bara matartengt og jafnvel þá góður eftirréttur. Við erum ekki búin að ákveða hvað verður á mánudaginn, kæmi mér ekki á óvart ef það væri lambasteik. Við erum ekkert að missa okkur í rómantíkinni á þessum degi. Þessi dagur er kærkominn eins og aðrir dagar til að gera sér dagamun, það er oft sem okkur vantar, og finna okkur tilefni til að gleðjast.“

Gerður Huld. Mynd: aðsend

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush

Gerður hefur verið  í sambandi með Jakobi Fannari Hansen síðan árið 2017. Kynlífstækjadrottningin heldur venjulega upp á daginn en ekki í ár. Hún útskýrir af hverju:

„Ég er með engin plön á Valentínusardaginn, þó svo að venjulega ég haldi upp á hann og nýti alla svona daga til að fagna ástinni og minna sjálfa mig á að gera eitthvað sérstakt fyrir makann minn. En við erum núna stödd í Dubai og verðum akkúrat nýkomin heim á Valentínusardeginum, þannig held við verðum bara heima að slaka á. En ég tek kannski þjófstart á Valentínusardaginn og geri eitthvað næs um helgina.“

Rikki G. Mynd/Stefán Karlsson

Rikki G, útvarpsmaður

Ríkharð Óskar Guðnason, sem landsmenn þekkja sem útvarpsmanninn góðkunna Rikka G, er giftur Valdísi Unnarsdóttur. Hjónin eru meira fyrir íslensku hefðirnar en ætla að gera sér smá dagamun.

„Við erum pínu gamli skólinn þegar kemur að þessu. Við höldum meira upp á bónda og konudaginn en notum kannski meira Valentínusardaginn til að elda eitthvað saman sem okkur báðum þykir gott og endum svo á góðri bíóferð. Við höldum mest í íslensku hefðirnar.“

Eva Ruza. Mynd/Ernir

Eva Ruza Miljevic, skemmtikraftur og samfélagsmiðlastjarna

Eva Ruza hefur verið með sínum heittelskaða í rúmlega tvo áratugi, honum Sigurði Þór Þórssyni. En Eva ætlar að sjá til þess að aðrir geti notið amor rétt eins og hún og Siggi.

„Dagskráin mín er nákvæmlega þannig að ég ætla svoleiðis að sjá til þess að allir þeir sem eru ástfangnir á Valentínusardaginn fái kossa frá betri helmingunum sínum og verði glaðir. En ég starfa í blómabúðinni Ísblóm og þar er heljarinnar húllumhæ á þessum degi. Fjörið byrjar snemma um morguninn og stendur fram á kvöld. Blóm, súkkulaði og hjartalaga blöðrur verða í aðalhlutverki, en það verður lítið um rómantík fyrir mig persónulega held ég.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan fór fram í blíðskaparveðri

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan fór fram í blíðskaparveðri
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sambandsráðgjafi: Fjögur merki um að sambandið sé dauðadæmt

Sambandsráðgjafi: Fjögur merki um að sambandið sé dauðadæmt
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það komu upp alls konar tilfinningar en mest fann ég fyrir stolti og gleði“

„Það komu upp alls konar tilfinningar en mest fann ég fyrir stolti og gleði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsráðgjafi með 45 ára reynslu: Þetta er helsta ástæða framhjáhalds

Kynlífsráðgjafi með 45 ára reynslu: Þetta er helsta ástæða framhjáhalds
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hafði þetta að segja um hjónabandið fjórum mánuðum áður en eiginmaðurinn sótti um skilnað

Hafði þetta að segja um hjónabandið fjórum mánuðum áður en eiginmaðurinn sótti um skilnað
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórunn Antonía rifjar upp harmsögu strippara á Óðal í skugga mansalsrassíu

Þórunn Antonía rifjar upp harmsögu strippara á Óðal í skugga mansalsrassíu