

Druslugangan, samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis, verður gengin á laugardag, 24. júlí kl. 14 frá Hallgrímskirkju. Allir eru velkomnir í gönguna til að taka afstöðu, skila skömminni og sýna samstöðu með þolendum ofbeldis.
Druslugangan er samstöðuganga með þolendum kynferðisofbeldis og vopn okkar gegn þöggun, skömm og ofbeldi. Þetta er í tíunda sinn sem Druslugangan fer fram og hefur hún stækkað ört frá því hún var fyrst gengin árið 2011 en vegna heimsfaraldurs var hún ekki gengin í fyrra.

Skipuleggjendur göngunnar segja að það hafi sést í annarri bylgju # metoo í vor að gangan er mikilvæg sem aldrei fyrr og enn er þörf á að berjast gegn því kerfislæga og samfélagslega meini sem ofbeldi er. Kynferðisofbeldi og misbeiting valds á sér stað í öllum kimum samfélagsins og skiptir það lykilmáli að halda umræðunni á lofti og krefjast aðgerða í baráttunni gegn öllu ofbeldi.

Skipuleggjendur hvetja alla til að taka afstöðu, skila skömminni, sýna samstöðu með þolendum ofbeldis og ganga Druslugönguna og sameinanst í baráttunni gegn ofbeldi og krefjast breytinga.

Meðfylgjandi eru myndir frá peppkvöldi fyrir Druslugönguna sem haldið var á fimmtudagskvöld.