fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Algengustu mistökin þegar kemur að áramótaheitum – „Það er auðvelt að breyta því“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 17. janúar 2021 09:00

Alda Sigurðardóttir. Mynd: Tinna Stefánsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alda Sigurðardóttir hefur mikla reynslu þegar kemur að markmiðasetningu og stjórnendaþjálfun og hefur þjálfað margar stjörnur úr íslensku viðskiptalífi. Hún hvetur alla til að strengja áramótaheit.

Alda Sigurðardóttir er stofnandi og eigandi Vendum. Hún starfar sem framkvæmdastjóri, ráðgjafi og stjórnendaþjálfi. Hún hefur mikla reynslu af einstaklingsráðgjöf, hópþjálfun og námskeiðum, fyrirlestrahaldi og fleiru. Alda hefur unnið með hundruðum stjórnenda síðustu tíu ár og er með viðskiptavini í yfir tíu löndum.

Skemmtileg hefð

Alda hvetur alla til að strengja áramótaheit. „Það er skemmtileg hefð því að hún krefst árlegrar endurskoðunar á lífi okkar. Við erum að vaxa sem manneskjur alla ævi og á þessum tímamótum er svo tilvalið að fara í huganum yfir liðið ár, hvað var ég ánægð með á síðasta ári og hverju vil ég viðhalda en ekki síst hvað vil ég sjá öðruvísi á næsta ári, hverju vil ég hætta og hvað vil ég gera nýtt,“ segir hún.

Alda fer yfir muninn á áramótaheitum og markmiðum. „Það má alveg kalla áramótaheit markmið, munurinn er kannski sá að með áramótaheitum erum við yfirleitt eingöngu að heita á okkur eða lofa okkur sjálfum einhverjum persónulegum breytingum, eins og hollara mataræði, meiri hreyfingu, meiri samveru og svo framvegis. Á meðan markviss og árangursdrifin markmiðasetning er oft lengra og ígrundaðra stefnumótunarferli óháð því hvort það sé persónuleg, starfstengd eða viðskiptatengd markmiðasetning.“

Það er mjög algengt að áramótaheit mistakist, allt að 80 prósent þeirra ganga ekki upp samkvæmt fjölda rannsókna. Alda segir ástæðuna vera þá að áramótaheit eru bara hugsuð. „En það er sjaldnast hönnuð framkvæmdaáætlun sem er bæði tímasett og raunhæf með skýrum mælikvörðum, öflugum stuðningi og hvatningu og reglulegri endurskoðun. Áramótaheitin eru því oft bara í orði en ekki á borði, en það er auðvelt að breyta því. Áramótaheit geta einmitt verið fyrsta skrefið í persónulegri stefnumótun og markmiðasetningu.“

Fyrsta skrefið

„Fyrsta skrefið er að skrifa markmiðin niður á blað og spyrja sig af hverju er þetta mikilvægt markmið eða áramótaheit fyrir mig, rökstyðja það og kveikja þannig á innri hvatningu því þá eykst eigin skuldbinding á markmiðinu sem eykur líkur á árangri. Næsta skref er að spyrja sig hvaða fyrsta skref væri gott að taka til að færast nær markmiðinu, það er að aðgerðabinda markmiðið,“ segir Alda.

„Það er ekki síður mikilvægt að greina sjálfan sig eða fyrirtækið sitt. Það er: Hvað hef ég að byggja á núna, hvaða styrkleikum, þekkingu, hæfni og eru markmiðin í takt við eigin burði og núverandi ástand?“

Þegar kemur að því að fylgja eftir mælir Alda með því að fá sér stjórnendaþjálfa, ef þú ert stjórnandi, annars almennan markþjálfa með sérhæfingu, eins og heilsumarkþjálfa.

„Það er mjög gott að vinna að markmiðum með einhverjum sem maður treystir, það getur líka verið samstarfsfélagi eða vinur, það hjálpar sérstaklega að hafa aðhald en það býður líka upp á að hanna sérsniðið árangursmælingarkerfi sem hentar hverjum og einum út frá þeirra forsendum.“

Alda Sigurðardóttir. Mynd/Tinna Stefánsdóttir.

Algengustu mistökin

Alda segir að algengustu mistökin þegar kemur að áramótaheitum og markmiðasetningu séu að ætla sér of mikið í einu og á of stuttum tíma.

„Það er þjálfun að ná árangri. Það getur verið gott að byrja á að setja sér lítil markmið og æfa sig í einfaldri markmiðasetningu, til dæmis setja sér tíu örmarkmið á næstu tíu dögum og finna vellíðanina þegar við náum þeim. Þá er áskorunin að hafa þau nógu smá í byrjun, enn og aftur er tilhneigingin að ætla sér of mikið. Stundum þurfum við líka að byrja á því að taka til í lífinu okkar, eða fyrirtækjum, áður en við setjum okkur stærri markmið. Þá getur verið gott að hugsa: ef þú ættir fleiri tíma í sólarhringnum hvað myndirðu setja aukatímann þinn í? Einnig eru algeng mistök að bera sig saman við aðra, það er svo ósanngjarnt, best er að vera eingöngu í samkeppni við sjálfan sig og bera árangur sinn saman á milli tímabila,“ segir hún.

En þegar okkur mistekst, hvað er þá best til ráða?

„Við getum til dæmis spurt okkur hvað við getum lært af mistökunum eða þeirri hindrun sem við verðum fyrir þannig að í næstu lotu mætum við sterkari,“ segir Alda.

„Við upplifum stundum þá tilfinningu að við höfum svikið okkur sjálf ef við náum ekki markmiðunum og förum í huglægt niðurrif, sem er ekki vænlegt til árangurs. Hluti af því að ná markmiðum sínum er að gera ráð fyrir einhverjum óvæntum hindrunum. Ef þú gerir ekki neitt, þá gerist ekki neitt, ef þú ákveður að gera eitthvað þá er nokkuð öruggt að einhvers staðar verða mistök og þú hrasar og þá er bara eitt að gera og það er að sleikja sárin í smástund og standa svo upp og halda áfram. Við ráðum ekki alltaf við hvaða hindranir birtast en við getum valið hvernig við bregðumst við þeim. Framfaramiðað, eða svokallað vaxtarhugarfar, er einn af lyklunum í að ná markmiðunum sínum. Þegar hindranirnar birtast þá er gott að spyrja sig, get ég gert eitthvað öðruvísi en ég er vön, get ég breytt mínum aðferðum eða þarf ég kannski að endurskoða markmiðið?“

Verkfæri en á ekki að stjórna lífi okkar

Alda segir að starfstengd markmiðasetning sé sérstaklega mikilvæg í dag því fram undan er áframhaldandi mikil breyting og þróun á störfum vegna aukinnar tæknivæðingar.

„Við erum komin inn í nýja stafræna veröld og því hefur það aldrei verið eins mikilvægt og nú að setja sér starfstengd markmið. Gera það sem er í okkar valdi til að taka ábyrgð á okkar eigin starfsþróun, vera opin fyrir lærdómi og nýjungum og auka hæfni okkar, hvort sem það er með því að sækja sér námskeið eða læra af samstarfsfólki okkar á einn eða annan hátt,“ segir hún.

„Það er einnig mikilvægt að markmiðasetning stjórni ekki lífi okkar heldur er þetta verkfæri til að hjálpa okkur að lifa lífinu í takt við okkur sjálf og að við séum samkvæm okkur sjálfum. Þess vegna þarf að ígrunda mælikvarða sérstaklega vel því þeir stýra oft hegðun okkar. Persónulegu markmiðin eiga að vera í takt við okkar eigin gildi eins og vinnu-, heilsu- eða fjölskyldugildi, áhugamálin okkar og drauma og hafa þannig áhrif á vellíðan okkar sem við sköpum sjálf. Við viljum flest vaxa á okkar æviskeiði, hafa tileinkað okkur framfaramiðað hugarfar, vera forvitin og eflast hvert og eitt á sinn hátt. Yngsti viðskiptavinur minn er kona á þrítugsaldri og elsti er 74 ára karlmaður og þau eiga það sameiginlegt að þau eru bæði að setja sér áhugaverð og metnaðarfull markmið í leik og starfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna