Hin ástralska Robyn Morrison hefur keppt í fegurðarsamkeppnum í meira en 10 ár, og er gríðarlega sigursæl í þeim bransa. Það er þó einungis aukastarf, en hún hefur komið víða við. Mirror greinir frá þessu.
Þessa stundina starfar hún sem útfararstjóri á daginn og á kvöldin kennir hún ungum klappstýrum að dansa. Ekki nóg með það, heldur starfaði hún áður fyrr sem leynilögreglukona.
Í dag er Robyn 45 ára gömul, og býr í Yorkshire-sýslu á Bretlandi. Hún segir að útfararstjórastarfið sé erfitt. Það snúist um að tala við fólk og veita því stuðning á erfiðum tíma í lífi þess. Hún fær að heyra óskir þess um hvað skuli gera í jarðarförum, sem gengur til að mynda út á að hjálpa syrgjendum að velja líkkistur og hverskonar tónlist eigi að spila í útförinni.
„Þetta er fjölbreytt starf. Ég myndi ekki hætta þó mér yrði boðinn allur heimurinn. ég lýt nefnilega svo á að hjálpa fjölskyldum í gegn um sorgartíma er mest gefandi starf sem hugsast getur.“ segir hún.
Robyn hefur dansað frá barnsaldri, og líkt og áður segir kennir hún einnig ungum klappstýrum að dansa. Það gerir hún á kvöldin, þegar hún er búin á kvöldvöktunum á útfararheimilinu.
Hún hefur einnig keppt í fegurðarsamkeppnum um allan heim, og vann síðast keppni í Las Vegas árið 2017, síðan hefur hún tekið sér pásu, en hyggst þó snúa aftur í ágúst. Hún hefur unnið til verðlauna í flestum keppnum sem hún hefur tekið þátt í, en segir aðalatriðið ekki vera að vinna.
„Ef ég vinn ekki þá skiptir það ekki máli. Ég geri þetta fyrir góð málefni, og til þess að hita mismunandi fólk. Ég nýt þess í botn að keppa.“
Í viðtali við Daily Mail frá árinu 2012 fjallaði Robyn um ferill sinn í lögreglunni, sem stóð yfir í tíu ár á meðan hún bjó í Ástralíu. Hún byrjaði 18 ára sem hefðbundinn lögregluþjónn, en færði sig svo yfir í leynilögregluna. Þar var hún dulbúin sem fíkill og starfaði í hverfi í Sidney sem þykir ansi hættulegt.
Hún lýsti átökum sem hún lenti í, til að mynda missti hún einu sinni framtennurnar í slagsmálum við lögregluþjóna sem vissu ekki að hún væri í dulargervi. Robyn sagði að starfið hafi verið mjög erfitt, en hún sjái ekki eftir því:
„Þarna áttu ömurlegir hlutir sér stað, en það hefur ekki eyðilagt mig. Ég finn ekki fyrir andlegum kvilla vegna starfa minna. Ég sé ekki eftir þessu.“ sagði hún.