Söngkonan vinsæla Ellie Goulding er ólétt en hún á von á sínu fyrsta barni. Ellie, sem er 34 ára gömul, hefur vakið mikla athygli fyrir ljósmyndir sem ljósmyndarinn Steph Wilson tók fyrir tímaritið PAPER.
Helsta ástæðan fyrir athyglinni er án efa sú að Goulding situr fyrir nakin í myndatökunni. Þá eru myndirnar virkilega flottar og listrænar en búið er að þekja líkama hennar með málningarstrokum. Goulding er sett í sumar en þetta er einnig fyrsta barn eiginmanns hennar, Caspar Jopling.
Sönkonan var nýlega í viðtali þar sem hún talaði um meðgönguna og hvernig henni liði með líkamann sinn þegar hún er ólétt. „Ég hef alltaf verið með líkama eins og hlaupari og nú er ég með stærri rass og frekar fín brjóst,“ segir Goulding sem fagnar breyttum líkama sínum.
Þá hefur hún verið dugleg þegar kemur að því að sýna mismuninn á glansmyndum meðgöngunnar og raunveruleikans. Hún hefur deilt öðrum myndum sem sýna hvernig hún lítur út í sínu náttúrulega umhverfi á meðan hún gengur með barnið. „Instagram vs raunveruleikinn,“ skrifaði hún til að mynda með einni myndinni sem sýndi muninn.