fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

„Maður þarf ekki alltaf að vera aðal“

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 18. mars 2020 08:49

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn góðkunni, Hilmir Snær Guðnason, er fyrir löngu orðinn eitt af okkar allra þekktustu andlitum, en stjarna hans skaust hratt upp á himininn við útskrift frá Leiklistarskóla Íslands. Hann veitir þó sjaldan viðtal enda segist hann forðast það eins og heitan eldinn að vera sjálfur í framlínunni.

Það kann að hljóma furðulega að starfa innan leiklistargeirans en vera á sama tíma svo fráhverfur sviðsljósinu. Spurður hvort mýtan um athyglissjúka leikarann sé byggð á sandi segist Hilmir frekar fara áfram á þörfinni til þess að skapa. „Ég sótti eflaust meira í athyglina þegar ég var yngri, en í dag hef ég enga þörf til þess að trana mér fram. Með aldrinum breytast áherslurnar og mér finnst dásamlegt að eldast. Mér líður betur og tek árunum fagnandi. Maður er afslappaðri í eigin skinni og hefur meira vit fyrir sjálfum sér.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þrátt fyrir hógværðina stendur Hilmir í ströngu því hann leikur um þessar mundir í rússneska leikverkinu Vanja frænda ásamt því að leikstýra sýningunni Oléanna sem frumsýnt verður síðar í mánuðinum. „Það er merkilegt að segja frá því að þótt þetta sé rúmlega tuttugu ára gamalt leikverk er eins og það hafi verið skrifað núna í kjölfar #metoo-byltingarinnar. Sagan fjallar um samskipti prófessors og nemanda og deilur þeirra um það hvort hann hafi áreitt hana eða á einhvern hátt farið yfir hennar mörk. Skiljanlega er þetta mjög eldfimt efni og við erum rúmlega hálfnuð á æfingartímabilinu. Fyrir mér er þetta hið dæmigerða „well made play“ og þá á ég við mikið textaleikhús marghlaðið frábærri sögu.“

Mistökin alltaf augljósari
Aðspurður hvort vegi þyngra, starf leikarans eða leikstjórans, segir Hilmir ómögulegt að gera þar upp á milli enda sé mikil hvíld fólgin í hvoru tveggja. „Að vera leikari er allt öðruvísi vinna, leikstjórinn ber alla ábyrgð og þarf að vinna með fjölbreyttum hópi fólks, skapa umgjörð og auðvitað er það öðruvísi hausverkur – í flestum tilfellum mun meiri hausverkur. Þessi sýning er þó afskaplega notaleg. Hér er ég með tvo leikara út af fyrir mig á Nýja sviðinu sem er í eðli sínu allt annað en að leikstýra fjölda manns á stóru sviði, hvort sem það er söngleikur eða ópera. Að mínu mati er þetta draumaverkefni, því það eina sem þú þarft að hugsa um er að vera trúr söguþræðinum. Margir telja þó litla uppfærslu eins og þessa vera í eðli sínu auðveldari og það er rangt, því í þeim verða mistökin alltaf augljósari – það má einfaldlega ekkert fara úrskeiðis. Ef einhver klikkar eða leikur aðeins illa sést það alltaf langar leiðir og að því leyti eru þessi verk flóknari viðureignar.“

Mynd: Eyþór Árnason

Telur þú nauðsynlegt að leikstjórar hafi reynslu af sviði sem leikarar?

„Að mínu mati er það ekki nauðsynlegt, þótt þeir líti vissulega öðrum augum á vinnuferlið. Við eigum fjölda frábærra leikstjóra sem eru sprenglærðir í sínu fagi þótt þeir hafi aldrei stigið á svið. Hinir sem hafa gert það líta hins vegar öðrum augum á sama hlutinn og stundum hjálpar það. Þetta snýst um mismunandi skilning á starfi leikarans. Ég myndi sem dæmi helst vilja sleppa uppklappi í lok sýningar. Mér finnst það ákveðið brot á sögunni. Þegar bíómynd er búin fara áhorfendur heim og hugsa um atburðarásina. Þú sérð aldrei leikarana stíga út úr karakterum sínum. Þess vegna finnst mér það brjóta upp verkið að koma fram í lokin sem maður sjálfur og hneigja sig, þegar maður hefur verið í hlutverki einhvers allt annars allt kvöldið. En auðvitað er þetta hefð sem áhorfendur vilja halda í, að fá að þakka fyrir sig. Það eru þau svör sem ég fæ þegar ég sting upp á að þessu sé sleppt. En eflaust er þetta bara fallegt.“

Leikhúsið fjári fljótt að kalla á mann aftur
Sérðu einhvern tímann eftir því að hafa fetað þessa braut?

„Já, það kemur alveg fyrir, en það er eins og með önnur langtímastörf, maður hugsar gjarnan með sér; hvað er ég að gera hér? Er ég að fara í einhvern fáránlegan búning og þykjast vera einhver annar en ég er, er þetta ævistarfið? Stundum er það erfitt, sérstaklega ef illa gengur, ef maður hefur ekki náð utan um hlutverkið eða sýningin verður ekki nógu góð, þá er erfitt að standa þarna. Auðvitað hefur komið  fyrir að ég finni til leiða og þá hætti ég, en ég hef enst lengst í sex mánuði fjarri leikhúsinu, það er fjári fljótt að kalla á mann aftur. Það er eitthvað við þessa sköpun og bara það að vinna með fólki á öllum aldri sem er svo lærdómsríkt. Nú er ég sjálfur miðaldra og vinn jafnfætis með fólki sem gæti verið börnin mín sem og foreldrar, en það er það sem gerir þennan vinnustað svo merkilegan, því þú vinnur svo náið með fólki, bæði upp og niður fyrir þig. Allir með sama markmiðið – að skapa eitthvað fallegt. Það er gríðarlega þroskandi fyrir manneskjuna að vinna í umhverfi sem þessu þar sem þú lærir að taka tillit til þeirra sem yngri eru og læra af þeim, en sömuleiðis þeirra eldri. Þarna verða allir að vera hógværir og samstilltir og hlusta á hver annan, að því leyti er þetta æðislegur vinnustaður og engir dagar eins.“

Viljum sjá sannleika á sviðinu
Í beinu framhaldi er ekki úr vegi að spyrja hvernig það sé að segja sömu söguna á hverju kvöldi, en láta í sérhvert sinn eins og hún sé sögð í fyrsta skipti. Hilmir segist aldrei hafa átt í vandræðum með það. „Í því felst list leikarans og á sama tíma hans stærsta áskorun. Stundum brýtur maður handritið upp og gerir eitthvað pínulítið öðruvísi, því staðreyndin er sú að maður getur aldrei farið aftur á nákvæmlega sama staðinn og kvöldið áður. Markmiðið er alltaf að sýningin sé sönn og áhorfendur gera þá kröfu að þeir sjái einhvers konar sannleika á sviðinu. Sjálfur reyni ég alltaf að vinna út frá því að maður hafi eitthvað fram að færa og finna leið til að láta þá tilfinningu skína, en auðvitað koma tímar þar sem maður nær ekki inn á sömu djúpu tilfinningu og maður fór á á síðustu sýningu, en þá verður maður að fara krókaleið að því, þótt maður geri það satt. Maður fer aldrei að feika neitt og að sama skapi er þetta svo lifandi ferli, aldrei eins frá kvöldi til kvölds. Í kringum hverja sýningu skapast svo einhver sérstök hjátrú sem gengur í grunninn út á hugmyndina „Mér gekk svo vel í gær að ég vil ekki breyta neinu í dag“, þetta verður að tilhneigingu til að gera sömu hlutina aftur og aftur, sem getur orðið að áráttu. Sjálfur dett ég ósjálfrátt í einhverja hugarmöntru og hef meira að segja gengið svo langt að tala við látna ættingja og kalla til mín styrk fyrir sýningar. Þær eru auðvitað miserfiðar tilfinningalega sé og stundum er maður ekki vel stemmdur. Maður getur verið veikur eða einfaldlega þreyttur, en áhorfendur gefa manni alltaf þá pressu sem þarf. Það er ótrúlegur styrkur sem felst í þeim, því maður getur komið til vinnu alveg dauðþreyttur og sannfærður um að maður muni sofna á sviðinu en svo stígur maður á svið og eitthvað snarbreytist. Þreyta er nefnilega nýja stressið mitt, áður fyrr fékk ég fiðrildi í magann en núna verð ég gríðarlega syfjaður. Það er eins og líkaminn sé að undirbúa sig fyrir átök án þess að ég viti af því, svo vakna ég við það að ganga inn á sviðið. Þetta er oft eins og eitthvert dáleiðsluástand og þarna líður mér jafnframt best. Meðan á æfingaferlinu stendur er maður svo mikið í því að hugsa um tæknileg atriði og hvernig framkvæma skuli hvert atriði, en eftir að sýningar hefjast sleppir maður þessu taki og því fylgir ákveðið frelsi. Ég get alveg dottið út í því ástandi en svo er hægt að gleyma texta og það köllum við að vera stödd á þrettándu hæð, hæðinni sem er ekki til á neinum hótelum. Þá horfir maður á sjálfan sig utan líkamans, sem er auðvitað agalegt – að sjá sig gleyma og gera mistök, en þá verður maður bara að feika það.“

Mynd: Eyþór Árnason

Saknarðu aldrei fiðrildanna?

„Nei, ég er feginn að vera laus við þau. Ég var svo kvíðinn fyrstu árin að ég ældi næstum fyrir sýningar. Þetta var eins og að vera sjóveikur sjómaður. Ég get ekki sagt að ég sakni þess. Það er hins vegar hægara sagt en gert að ná sér niður eftir sýningu, það lærist ekki með aldrinum því þótt sýning sé búin á miðnætti er nær útilokað að ég nái að sofna fyrr en tæplega fjögur, sama hvað ég geri, maður er svo vakandi.“

Maður þarf ekki alltaf að vera aðal
Hilmir viðurkennir jafnframt að hafa talið sig of góðan fyrir ákveðin hlutverk. „Já, hér á árum áður fannst mér ég um tíma kunna allt og hélt þá um stund að ég væri orðinn svo góður að ég hefði ekkert fyrir neinu, en þá fyrst fór maður að verða lélegur. Þetta er hroki sem á ekki heima í leiklist. Aðrir sjá þetta samt á undan manni og þá er gott að eiga góða vini og fjölskyldu sem beina manni á rétta braut. Svo getur það líka gerst að maður verður leiður og þá er mikilvægt að velja vel hvað maður tekur að sér. Maður verður að hafa brennandi áhuga fyrir þeim verkefnum sem maður tekur að sér. Auðvitað er auðvelt að halda að maður sé búinn með þetta allt, en leiklist er rétt eins og læknisfræði, maður hættir aldrei að læra. Þú verður stöðugt að vera að endurskoða sjálfan þig. Um tíma var ég sem dæmi hræddur um að festast sem einhver „loverboj“ og vildi fá að leika önnur hlutverk og ég reyndist mjög heppinn og fékk að fást við fleira en það. Í seinni tíð koma svo áhugaverð, dýpri hlutverk og það er gaman að leika menn á mínum aldri því lengi vel var ég að leika niður fyrir mig, einhverja unga stráka. Svo er það nú annað, maður þarf ekki alltaf að vera aðal, maður getur alveg verið í góðum aukahlutverkum og ég er ekkert hræddur við það.“

Mynd: Eyþór Árnason

Spurður hvort slæm gagnrýni leggist á sálina segir Hilmir ekki svo vera, en vissulega sé það partur af starfinu að taka slíku og með árunum sé skrápurinn stöðugt að harðna. „Ég hef margsinnis lent í því að lesa slæma gagnrýni um mig en það lenda allir leikarar í því enda eðlilegur hluti af okkar starfi. Ég er ekkert alltaf sammála gagnrýni og oftar vill maður vera ósammála þeirri gagnrýni sem er neikvæð, en auðvitað verður maður að horfa á hana og reyna að skilja, því á meðan gagnrýni er málefnaleg og markmið hennar ekki að draga persónu þína niður er hún sett fram í þeim tilgangi að af henni sé lært. Auðvitað er það svo þannig með leikhús að við verðum ekkert alltaf að vera sammála. Við gerum aldrei öllum til hæfis og þess vegna má maður ekki fara grátandi heim þótt ákveðinn hópur fíli þig ekki. Við eigum öll okkar uppáhalds og það er bara skoðun hvers og eins.“
Aðspurður hvernig hann finni hrottann í sjálfum sér segist Hilmir vera með þúsund andlit. „Það er alltaf hægt að skilja alla, að einhverju marki. Yfirleitt þegar ég bý til karakter finn ég eitthvað úr sjálfum mér enda eigum við öll svo mörg andlit. Eitt sýnir þú barninu þínu, og annað konunni þinni, enn annað notar þú í vinnunni sem leikstjóri og það fjórða sýnir þú lögreglunni sem stoppar þig fyrir of hraðan akstur. Þetta eru allt mismunandi hliðar og maður reynir að nota þessar hliðar og setja þær inn í karakterinn. Kvikmyndagerð er svo annað listform sem heillar mig ákaflega, en þar varðveitist það sem þú gerir vel. Þá er maður bara ánægður með að hafa náð því, en í leikhúsinu er alltaf rými fyrir mistök frá kvöldi til kvölds enda ertu aldrei betri en þú varst í gær.“

Auðmýktin skilar manni lengst
Óhætt er að segja frægðarsól Hilmis hafi risið svo að segja á einni nóttu því strax eftir útskrift varð hann eftirsóttur leikari. Ferilinn hófst í Hárinu sem sett var upp í Gamla bíói en þar fór Hilmir með eitt af aðalhlutverkunum. Hann segir athyglina fljótlega hafa orðið áþreifanlega. „Ég hef alltaf reynt að vera auðmjúkur gagnvart þessu. Auðmýktin skilar manni lengst og bestu leikarar sem ég hef hitt eiga það sameiginlegt að vera bæði lítillátir, mjúkir og kátir. Ég hef reynt að tileinka mér þeirra hugarfar því það skilar manni mestu, sem og að hlusta á fólkið í kringum sig. Ég finn alveg fyrir frægðinni og er vanur því, en það er ekkert sem íþyngir mér. Ég finn aldrei fyrir neinu áreiti þannig – fólk er meira að koma og þakka manni fyrir, sem er gleðilegt. Ég held að við hér á Íslandi verðum síður stjörnustjörf nema ef við sjáum einhverri Hollywood-stjörnu bregða fyrir, en við látum nú fólkið okkar mestmegnis í friði. Þetta er bara eins og hvert annað starf, ég gæti alveg eins verið pípari, þótt þetta sé ekki beint iðnaður snýst þetta um ákveðið verklag, skipulag og vinnu og auðvitað smá sköpun, sem betur fer.“

Mynd: Eyþór Árnason

En íslenska smæðin hefur vissulega tvær hliðar og spurður hvort hann finni fyrir Gróu á Leiti segist Hilmir hafa fundið vel fyrir nærveru hennar í gegnum tíðina. „Auðvitað hafa oft verið sögur, bæði sannar og ósannar, og óhjákvæmilega finnur maður fyrir því, en það er eitthvað sem venst. Hvar sem maður kemur er talað um mann og stundum hefur maður ekki verið passasamur og þá fer það út um allt, en aðra stundina er maður meira að passa sig.“

Nauðsynlegt hverri byltingu að ganga of langt
Sýningin Oléanna vísar að miklum hluta til þeirra breyttu viðhorfa sem #metoo-byltingin hafði í för með sér. Spurður hvernig það hafi verið að fylgjast með atburðarásinni, bæði sem starfsmaður innan leikhússins og líka sem faðir, segist Hilmir taka breytingunni fagnandi. „Nú á ég tvær dætur, önnur er tuttugu og fimm og hin er tíu ára. Í ljósi þeirra finnst mér þetta auðvitað þörf bylting. Eðlilega á enginn að slá í rassa eða káfa á brjóstum sem þeir þekkja ekki, en það er hlutur sem ég held að ég hafi aldrei gert sjálfur og mjög margir karlmenn hafa ekki gert það, þótt vissulega hafi maður séð þetta. Þessi bylting var því andskoti þörf og ég tek henni fagnandi því það þurftu allir á henni að halda og að skoða það hvernig við berum virðingu hvert fyrir öðru. Við megum ekki ganga of langt í okkar samskiptum, en að því sögðu tel ég að hún hafi farið yfir ákveðin mörk, um tíma. Ég held að núna fyrst séum við að finna jafnvægi, en kannski er það nauðsynlegt hverri byltingu að ganga aðeins of langt. Við eigum kannski eftir að endurskoða hana síðar meir þegar við lítum í baksýnisspegilinn, þá sjáum við fyrst hvað það var sem gerðist. Auðvitað fer þetta líka í hina áttina og maður hefur sjálfur orðið fyrir svona, það er ekkert skemmtilegt en það er eins og karlmenn eigi frekar að taka því. Jafnvel eftir að byltingin komst í hámæli lenti ég í þessu einu sinni eða tvisvar og maður á bara að taka því. Hins vegar er maður bara fullorðin manneskja og kann að koma sér út úr svona aðstæðum. Maður þarf ekkert að æsa sig yfir öllu, en maður bendir bara kurteislega á þetta eða færir sig og fer eitthvert annað.“

Bragðlaukarnir misstu áhugann
Hilmir er sannkölluð miðbæjarrotta og sleit barnsskónum í 101 Reykjavík. Hann lýsir æskunni sem ljúfri en hann er fyrsta barn foreldra sinna. „Ég átti fjórar yngri systur en ein er nú fallin frá. Fjölskylda mín er yndisleg og ég ólst upp meðal góðra vina. Við Benedikt (Erlingsson) vorum bestu vinir frá tíu ára aldri og urðum síðar samferða í Leiklistarskólann. Mamma hans bauð okkur gjarnan í leikhúsið þar sem hún leikstýrði verkum og því má segja að áhuginn hafi á einhvern hátt kviknað þar. Lengi vel ætlaði ég að vísu að verða dýralæknir og hefði eflaust orðið góður í því en ég er mikið í hestamennsku og fæ mína útrás þar. Annars tek ég tarnir í að synda eða hjóla ef mér finnst ég verða of feitur en þegar ég er á sviði grennist ég nær undantekningarlaust enda mikil átök sem því fylgja. Ég á aldrei neitt kort í ræktina og drekk sáralítið af grænum bústum en ég reyni að borða hollt og takmarka nammið þótt ég sé enginn fanatíkus á það. Áður fyrr borðaði ég mikið nammi og drakk rautt kók en með árunum hafa bragðlaukarnir misst áhugann, sem er gott. Ég greindist með flogaveiki stuttu eftir útskrift og það gerði skiljanlega ákveðið strik í reikninginn. Lengi vel lifði ég í hræðslu um að fá kast en sömuleiðis hvarflaði sú hugsun að mér hvort ég gæti sinnt þessu starfi ef ég væri sífellt að hrynja niður. Í byrjun kom það fyrir á sirka hálfs árs fresti að ég fékk flog og það tvisvar á sviði fyrir fullu húsi. Síðar fundum við nýtt lyf sem hentar mér betur og í dag hef ég ekki fengið kast í tæp sjö ár. Með árunum lærir maður að hugsa um þetta af æðruleysi því ef kastið kemur þá gerist það bara og ég ræð engu um það hvort sem er. Það eru vissulega ákveðnir hlutir sem hægt er að gera, eins og að hugsa vel um sig, borða vel og sofa, en það voru hlutir sem ég var ekki góður í að gera á sínum tíma. En ég er ekki hræddur við þetta lengur.“

Hægt að vera leikari án þess að verða listamaður
Sú sýning sem markaði straumhvörf í lífi Hilmis var Dagur vonar eftir Birgi Sigurðsson en hann leikstýrði síðar sjálfur sama verki. „Ég var átján ára þegar ég sá þessa sýningu fyrst og ákvað þá að þetta væri sú leið sem ég vildi fara. Mörgum árum síðar sótti ég svo fast að fá að leikstýra verkinu sjálfur, enda er þetta gríðarlega vel skrifað. Ég varð fyrir ótrúlegum áhrifum, því fram að þessu hafði ég bara séð verk sem einblíndu á gamanið en þarna sá ég að það var eitthvað alvöru þarna og það heillaði mig svo gjörsamlega að geta trúað því sem fram fór á sviðinu. Ég gat aldrei gleymt þessu og þar af leiðandi ákvað ég að þetta væri það sem ég vildi gera. Þarna sá ég listina í faginu. Það er nefnilega hægt að vera leikari án þess að verða nokkurn tímann listamaður. Það er ekkert mál að ganga inn á svið og leika og gera nokkurn veginn allt rétt án þess þó að fara alla leið, en í þessu tilfelli sá ég fólk fara alla leið og það var leyndarmálið sem ég vildi kynna mér betur. Birgir var mér innan handar þegar kom að minni uppfærslu og við ræddum mikið um hvernig hann sæi þetta allt saman fyrir sér, sem var afskaplega gefandi ferli og frábær vinna meðan á henni stóð. Þarna var ég auðvitað með frábæra leikara og leikmyndahönnuð og útkoman eitthvað sem við erum öll afskaplega stolt af í dag.“

Mynd: Eyþór Árnason

Aðspurður hvað sé fram undan segir Hilmir framtíðina ávallt vera óráðna. „Ég er mikill flakkari og ferðast á milli leikhúsa eftir verkefnum og því sem ég eltist við hverju sinni. Síðasta veiðiferðin var frumsýnd í kvikmyndahúsum síðustu helgi, en þar fer ég með eitt af aðalhlutverkunum. Myndin fjallar um, eins og titillinn ber með sér, nokkra miðaldra karla sem fara saman að skemmta sér þótt atburðarásin verði ólík því sem þeir ætla sér. Auk þess var ég að leika í mynd sem nefnist Dýrið, eða Lamb á ensku, en hún verður frumsýnd næsta haust. Maður er því aðeins að pota sér aftur í kvikmyndaverkefnin. Það hefur verið pása á því, en það er gaman að taka þann þráð upp að nýju. Nú, svo eru alltaf eftir einhver góð karlahlutverk, það er alltaf eitthvað eftir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun