fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

„Í dag fæ ég hroll og skil ég ekki hvernig ég fór að þessu“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 8. febrúar 2020 13:25

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórhildi Þorleifsdóttur þarft vart að kynna en hún hefur starfað við allar stærstu menningarstofnanir landsins sem leikstjóri ásamt því að sinna starfi leikhússtjóra, kvenréttindafrömuðar og alþingiskonu.

Við hittum Þórhildi fyrir í Söngskóla Reykjavíkur þar sem nemendur á efsta stigi stóðu í ströngu við æfingar á Fiðlaranum á þakinu. „Ég hef margoft komið að uppsetningum sem þessum, bæði hjá menntaskólum sem og Stúdentaleikhúsinu,“ segir Þórhildur og býður blaðakonu í beinu framhaldi upp á laufléttan latte í tilefni dagsins. „Æfingar ganga vel en ég gef engan afslátt. Auðvitað er þetta mikil ögrun fyrir krakkana, þeir hafa aldrei stigið á svið en ég slæ ekkert af kröfunum þótt þeir séu byrjendur. Einhver sagði að við værum nú ekki á leiðinni með þetta verk á Broadway en mín skoðun er sú að auðvitað stefnum við alltaf á Broadway. Ég geri alltaf gríðarlegar kröfur og kannski fullmiklar, en þó held ég ekki.“

Þetta er brot úr stærra viðtali við Þórhildi úr helgarblaði DV

Eiginmanni sínum, Arnari Jónssyni leikara, kynntist Þórhildur eðli málsins samkvæmt í leikhúsinu en þau voru þá bæði aukaleikarar í Pétri Gauti. Það tók þau þó talsverðan tíma að ákveða formlega að fella hugi saman. „Ég hafði heyrt um þennan æðislega sæta strák í leiklistarskólanum sem væri víst mikið talent og næstu sex mánuði þreifuðum við fyrir okkur, en þegar líða tók á vor ákváðum við að verða par. Ég hef alltaf verið hans strangasti gagnrýnandi og þarna, þegar hann var ungur og allir dáðust að honum, var ég sú eina sem togaði hann niður. Ég hef aldrei verið hvorki móðir né eiginkona sem klappstýri mínu fólki enda finnst mér ég sýna mesta umhyggju með því að rýna til gagns. Það álít ég vera mitt hlutverk enda verður hitt svo fljótt merkingarlaust. Mömmu finnst ég alltaf frábær, hvað þýðir það? Eftir þrjú skipti hættirðu að taka mark á því. Auðvitað eiga ekki allir að standa í því að gagnrýna börnin sín á sviði, en sjálf er ég í faginu og byrjaði mjög snemma að gagnrýna Arnar grimmilega. Hann var ekkert alltaf hrifinn en ég held að það hafi ekki orðið honum til skaða.“

Áhættu fylgja hættur
Saman eignuðust hjónin fimm börn og segist Þórhildur í góðlátlegum tón hugsa með hryllingi til þess tíma. „Í dag fæ ég hroll og skil ég ekki hvernig ég fór að þessu án þess að hafa upplifað það þannig á þeim tíma. Margir minntust á hvað ég væri heppin því Arnar væri alltaf með börnin og það gat auðvitað sært mig pínulítið, en ég hefði aldrei komist í gegnum þennan barnaþunga ein. Við vorum heppin með það að ekkert barna okkar vakti á næturnar, en á þessum tíma dvöldu mæðurnar í viku á spítalanum eftir fæðingu, þarna voru börnin vanin á reglu sem við héldum svo áfram. Ég tók aldrei neitt fæðingarorlof en blessuð börnin sváfu sem betur fer öll sína tólf tíma á nóttu og voru heilsuhraust. Ég held ég geti með sanni sagt að ég hafi aldrei vakað nótt með barni.“

Mynd: Eyþór Árnason

Þórhildur segir þá hugsun aldrei hafa hvarflað að henni að láta barneignir hægja á framaferlinum. „Nei, við héldum bæði okkar striki samhliða barnauppeldinu. Þau komu auðvitað oft með mér í vinnuna, en þá fengu þau ekkert að hlaupa um leikhúsið og allra síst trufla nokkurn mann. Það var frekar að þau hnýttu í leikarana til að segja þeim ef þau hefðu ekki gert það sem mamma bað um í gær, en fólk hafði bara gaman af því. Á þessum vettvangi var ég aldrei til afnota fyrir þau sem mamma, enda var ég í vinnunni, en ég held að þeim hafi fundist þetta fínt, í það minnsta minnist ég þess ekki að þau hafi kvartað. Það var þó alveg sama hversu mikið við höfðum að gera við misstum aldrei út kvöldstund þar sem við lásum með börnunum. Þá áttum við rólega stund hvort sem við lásum eða sungum og maður taldi sér trú um að það kæmi að góðu gagni, þetta vanræktum við aldrei.“

Mynd: Eyþór Árnason

Tvö barnanna hafa fetað sömu braut og foreldrarnir og segist Þórhildur telja það jafn algengt og þegar börn í öðrum starfsstéttum feti sömu braut og þau alist upp við. „Sólveig hefur sagt að þetta hafi verið skortur á ímyndunarafli en Þorleifur stefndi sömuleiðis alltaf á að verða leikari. Hann, rétt eins og ég, komst þó fljótt að því að hann var sleipari í að fylgjast með öllu í kringum sig heldur en einbeita sér að sjálfum sér svo hann gerðist leikstjóri. Ég held að ég hefði ekkert orðið verri leikari en aðrir, en ég fann fljótt að það var ekki það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf verið svo upptekin af heildarmyndinni. Þorleifur er óumræðanlega framúrstefnulegur leikstjóri og það var ég líka, en hann er líka laminn inni á milli og ferðast frá því að vera valinn besti leikstjóri Þýskalands yfir í að vera sallaður niður. En það er það sem fylgir því að taka áhættu, henni fylgja hættur. Ég get þó ekki talað um verkin hans sem heild því ég hef verið mjög hrifin af sumu sem hann hefur gert, miður hrifin af öðru og beinlínis óánægð með annað. Oftast reyni ég að koma út og sjá það sem hann setur upp og lengi vel fylgdist ég með honum á æfingum, en í dag hef ég sleppt af honum hendinni. Hann er farinn að ganga sjálfur, en ég fylgdist grannt með honum fyrstu árin og reyndi að styðja hann og kenna allt sem ég kunni. Hann hefur ekkert dregið úr hendi sjálfur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Í gær

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu
Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell