fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Blóðið leiðir sannleikann í ljós – „Maður vill komast að því úr hverju einstaklingur dó, hvernig, hvar, hvenær.“

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 29. nóvember 2020 21:00

Ragnar Jónsson mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglumaðurinn Ragnar Jónsson hefur vegna starfa sinna sem blóðferlasérfræðingur hjá Tæknideild lögreglunnar komið að mörgum af stærstu rannsóknum landsins undanfarin ár. Nú nýtir Ragnar reynslu sína í handritaskrif og reynir fyrir sér í leiklistinni sem, ef ekki væri fyrir lögregluna, hefði getað orðið hans leið í lífinu.

Í byrjun febrúar árið 2004 bjó Þorgeir Jónsson, kafari í Neskaupstað, sig undir verkefni dagsins. Að kanna skemmdir á höfninni sem orðið höfðu eftir að skip rakst á bryggjuna í vonskuveðri sem gengið hafði yfir dagana á undan. Á um sex metra dýpi blasti við Þorgeiri lík af manni sem vafið hafði verið í plast og keðjur. Áður en langt um leið og áður en sökudólgarnir fundust hafði rannsókn lögreglu leitt það í ljós að þrátt fyrir stungusár á líkama og hálsi væri ekki um morð að ræða og að maðurinn hefði verið að smygla fíkniefnum. Þrír menn voru að lokum handteknir og sakfelldir í málinu.

Ragnar Jónsson var einn þeirra er leiddu þennan sannleik í ljós en í hátt í 30 ár hefur Ragnar starfað sem lögreglumaður, þar af 23 sem rannsóknarlögreglumaður. Á þeim árum hefur hann sérhæft sig í svokölluðum blóðferlum innan tæknideildar lögreglunnar, það er, rannsóknum á blóðslettum á vettvangi glæpa.

Ragnar er um margt óhefðbundinn karakter í nútíma samfélagi. Þar sem hann sat á fyrirfram ákveðnum fundarstað hans og blaðamanns var lítið sem gaf það til kynna að þarna væri á ferð maður sem hefur komið að rannsókn á svo til öllum þekktustu sakamálum landsins síðustu tvo áratugi. Að utan ber Ragnar þess öll einkenni að vera „einn af okkur“, sem unir sér best í fastri rútínu borgarmannsins. Svo er aldeilis ekki.

Í umfjöllun Morgunblaðsins fyrir hálfum öðrum áratug var Ragnar sagður réttargæslumaður hinna látnu. Á það enn við í dag?

„Já, ég held að við öll í lögreglunni lítum svo á. Í hverri viku kemur upp andlátsmál sem lögregla þarf að bregðast við og það heldur manni á tánum að hugsa svoleiðis. Að maður sjái ekki endilega bara manneskju hreyfingarlausa, heldur fari beint í að skoða ummerkin, dó hún í þessari stellingu, eru lyf nálægt, eru ummerki um að einhver annar hafi verið þarna? Þetta er okkar vinkill,“ segir Ragnar.

Ást við fyrstu sýn

Tæknideild lögreglu er ekki fjölmenn deild, og enn færri hafa af því atvinnu að skoða blóðslettur úr fórnarlömbum. Hvernig leiðir lífið mann á þann stað? Í tilfelli Ragnars virðast örlögin hafa ráðið för.

Fljótlega eftir að hann hóf störf hjá lögreglunni var Ragnar kominn í ofbeldisbrotadeild og eftir rúm tvö ár þar bauðst honum að fara í tæknideildina. Þar innanborðs er sú regla höfð á að menn velji sér sérsvið. Haustið 2001 ákvað Ragnar að sækja sér aukna þekkingu í dauða- og sárarannsóknum á námskeiði í Bandaríkjunum. „Á því námskeiði kemur til okkar maður frá NCIS, rannsóknardeild hersins, og fer að tala um blóðferla og blóðslettur og kvaðst lesa hitt og þetta úr þeim og það var bara ást við fyrstu sýn,“ útskýrir Ragnar einlæglega. „Mér fannst það bara svo mikil áskorun. Þarna er enginn framburður vitna heldur bara blóðið og ummerkin sem verða að leiða mann áfram.“ Ragnar leitaði síðar í frekara nám í fræðunum og er nú stjórnarmaður í samtökum norrænna blóðferlasérfræðinga.

mynd/Tæknideild Lögreglu

Blóðugur sannleikur

Ragnar hefur síðan þá komið að allflestum morð- og ofbeldismálum sem komið hafa upp hér á landi. Í líkfundarmálinu til dæmis léku blóðferlarannsóknir Ragnars lykilhlutverk. „Það var mjög sérstakt mál þar sem luminol-notkun í herbergi hins látna sýndi að hann hafði verið að kasta upp blóði, sem passaði við framburð vitna og sakborninga í málinu.“ Þrátt fyrir að gólfið hefði verið þvegið allt að 20 sinnum fundu Ragnar og kollegar hans ummerki um blóð í íbúðinni í Furugrund, útskýrir hann. „Þarna voru parkettfjalir og á milli þeirra hafði vatnsmengað blóð lekið niður. Þegar við notuðum svo luminol þá mynduðust bara línur undir ljósunum okkar sem líktust flugbraut. Við rifum svo upp parketið og fundum þar blóð úr Vaidasi, hinum látna.“

Þar var sá sannleikur leiddur í ljós að sakborningar myrtu ekki Vaidas. Það er einmitt þessi sannleiksleit sem heldur Ragnari við efnið. „Hvort sem sá sannleikur leiðir til sakfellingar eða sýknu, viljum við varpa ljósi á hið rétta.“

Ragnar rifjar einnig upp Stórholtsmálið og bendir á að þá hafi þessi aðferðafræði lögreglu verið heldur ný hér á landi. Þar gátu rannsakendur lögreglunnar sýnt með óyggjandi hætti að átök hefðu átt sér stað í íbúðinni og gátu þeir út frá blóðferlum ályktað hvernig dauða Sri Rhamawati bar að. „Við gátum þar sýnt hvar hún hlaut högg í herberginu í íbúð þeirra í Stórholti, og aftur staðfesti luminol-notkun að reynt hafði verið að þrífa blóðið.“

Ragnar Jónsson og kollegar hans við vettvangsvinnu mynd/Tæknideild Lögreglu

Vatnaskil fyrir Hæstarétti

Enn sannaði þekking Ragnars á blóðferlum sig í Hringbrautarmálinu þegar maður var myrtur með slökkvitæki. Þar segir Ragnar þekkingu lögreglunnar á blóðferlum hafa leitt það í ljós að höggin hefðu verið nokkur og að þau hefðu komið á hlið. „Ummerkin leiddu okkur þarna áfram. Þetta voru þung högg og það voru blettir á veggjum en ekki á lofti svo höggin gátu ekki komið öðruvísi en á hlið. Manneskjan var blóðug, áhaldið var blóðugt, svo það skvettist blóð af áhaldinu á veggina. Sá grunaði kom með ýmsar skýringar á blóðslettunum sem við gátum hrakið.“

Í réttarhöldum yfir þeim grunaða var sænskur blóðferlasérfræðingur fenginn til þess að yfirfara skýrslu Ragnars, meðal annars með eigin vettvangsrannsókn, og gat hann staðfest allt sem í skýrslu Ragnars stóð. „Þetta mál fór alla leið fyrir Hæstarétt sem viðurkenndi þarna þessa sérgrein innan réttarvísindanna.“ Urðu þar viss vatnaskil í þessum málum, segir Ragnar.

En með alla þessa nýju tækni, er erfiðara að komast upp með morð í dag?

„Menn geta reynt að kynna sér ýmislegt, til dæmis er margt á netinu, en það er auðvitað líka margt vitlaust á netinu. Netið er fullt af rusli,“ útskýrir hann.

Ekki gaman að horfa á sakamálaseríur með honum

Ragnar hefur áður sagt frá störfum sínum innan lögreglunnar, meðal annars í þáttunum ódauðlegu Sönn íslensk sakamál, í þáttunum Lögreglan sem Stöð 2 sýndi um árið og nú síðast í Ummerki, einnig á Stöð 2. Þættirnir nutu allir gríðarlegra vinsælda og áhugi almennings á óhugnanlegum morðmálum virðist óseðjandi. „Sakamál vekja forvitni í fólki og við erum söguáhugaþjóð,“ segir Ragnar og segir forvitnina skiljanlega. „Þetta er lítið land og einhverjir tengjast og svona.“ Þessari forvitni líkir Ragnar raunar við eigin forvitni þegar hann rannsakar mál. „Maður vill komast að því úr hverju einstaklingur dó, hvernig, hvar, hvenær.“

Ragnar segir enn fremur að honum finnist í lagi að fjalla um þessi mál ef það er gert af nærgætni og vandvirkni. „Ekki í einhverjum æsifréttastíl eða þannig að maður fái kjánahroll. Það er til dæmis ekki gaman að horfa með mér held ég á einhverjar sakamálaseríur,“ segir Ragnar. „Þar eru alls konar vitleysur og maður pirrar sig á þessum smáatriðum. Menn strax komnir með niðurstöður í eitthvað sem maður veit að tekur marga daga.“

Á Ragnari er að heyra að honum finnist ef til vill lítið gert úr þáttum starfs síns sem hann leggur mikla áherslu á. „Þetta er þolinmæðisvinna fyrst og fremst. Maður verður að líta fram hjá öllu nema því sem gögnin eru að segja manni. Svo tekur við margra daga bið eftir DNA-niðurstöðum og öðru slíku,“ útskýrir Ragnar.

Á persónulegar hliðar geti svo reynt í mörgum málum og mörg mál verða eðli málsins samkvæmt að umfjöllunarefni fjölmiðla. Það sannaðist einna best í máli Birnu Brjánsdóttur þar sem blóðferlar í aftursæti Kia Rio-bifreiðar kom lögreglu á sporið. „Það mál tók á. Mjög mikið,“ segir Ragnar. Vó þar þyngst, segir hann, að engin tenging hafi verið milli grunaðra og fórnarlambsins. Handahófskenndin olli óhug. „Þetta voru langir dagar hjá okkur og mikill léttir þegar hún fannst.“ Svo tók við það sem ekki er sýnt í sjónvarpsþáttunum. „Það sem er ekki sexí og aldrei sýnt í myndunum sem er öll pappírsvinnan. Maður var þarna öll kvöld og helgar að klára skýrslurnar. Maður þarf að láta texta fylgja með öllum myndum sem teknar eru á vettvangi, útskýra rannsóknir sem gerðar voru og hafa allt klárt fyrir þá sem munu fjalla um málið.“

Af löggu og lögfræðingum kominn

Ragnar er sonur Jóns Péturssonar löggu, eða Jóns hástökkvara eins og hann var kallaður, sem nýlega gaf út bókina Jón lögga. Lýsir Jón þar meðal annars aðbúnaði lögreglumanna í gömlu lögreglustöðinni og reynslu sinni af áratuga starfi hjá lögreglunni. Ragnar segir svo lögfræðina hafa verið fyrirferðamikla í móðurætt og segist Ragnar þannig hafa fengið ríka réttlætiskennd með móðurmjólkinni og föðurættin ef til vill kennt honum að fá útrás fyrir þá réttlætiskennd.

En fyrir þann sem langar að verða rannsóknarlögreglumaður, hvar byrjar maður?

„Á götunni,“ segir Ragnar. „Þar kynnist maður svokölluðum góðkunningjum lögreglunnar og lærir mjög fljótt að fólk segir ekki alltaf sannleikann. Maður lærir að láta ljúga að sér. Fara í nokkrar húsleitir. Svo er hægt að sækja um að komast í rannsóknardeildir og á námskeið og annað. En varðandi tæknina, þá þarf maður að fara að huga að sérstöku námi eða námskeiðum erlendis því lítið af þessu er kennt hérna heima. Svo nýtast ýmsir eiginleikar úr bakgrunni fólks, til dæmis iðnmenntun eða áhugaljósmyndun, vel í þessu starfi.“

Hreyfanlega sviðsmyndin

En lögreglulífið og föðurhlutverkið er ekki það eina sem kemst að hjá Ragnari. Ragnar er nefnilega áhugaleikari og hefur andliti hans borið fyrir í hinum ýmsu myndum og þáttum undanfarin ár. „Ég er það sem ég kalla hreyfanleg sviðsmynd,“ segir Ragnar og hlær.

Síðast lék Ragnar hlutverk bílstjóra Benedikts Ríkharðssonar, forsætisráðherrans í sjónvarpsþáttunum Ráðherrann. „Það var gaman að leika ekki löggu,“ segir Ragnar og brosir. „Svo var gaman að leika útfararstjóra í Bergmáli eftir Rúnar Rúnarsson,“ segir hann. „Það var falleg mynd og situr eftir hjá manni.“

Þá hafa kvikmyndaframleiðendur enn fremur sótt í reynslubanka Ragnars í formi ráðgjafar. Meðal annars fyrir myndirnar Ég man þig og Brot. „Það var gaman að fá að lesa yfir handritin og sjá hvað þau voru að spá og spekúlera og eins að taka við spurningum frá handritshöfundum og leikstjóra,“ segir Ragnar sem er auðheyranlega ánægður með metnaðinn í íslenskri kvikmyndagerð og stoltur af að fá að taka þátt í henni.

Ragnar hefur svo undanfarið unnið að skrifum glæpaseríunnar Svartir sandar, með Baldvini Z og Aldísi Hamilton en upptökur hefjast í apríl. Aðspurður um frekari aðkomu hans að „Nordic Noir“ senunni vill Ragnar ekkert gefa upp, en játar því að markaðurinn virðist óseðjandi fyrir norrænar glæpasögur. „Þetta tengist auðvitað söguþjóðinni,“ útskýrir hann. „Þetta er í genunum okkar. Í Íslendingasögunum sjálfum er að finna víg og uppgjör og pólitík og plott. Þetta er alveg vel gróið í okkur.“

„Svo man ég auðvitað sem pjakkur á Hagamelnum í gamla daga eftir að hafa hlustað á útvarpsleikritin í útvarpinu hennar ömmu. Þá voru auðvitað einfaldari tímar, bókabíllinn leysti einu sjónvarpsstöðina af í júlí og maður las mikið, og svo hef ég alltaf verið bíónörd. Ég safnaði bíóprógrömmum og elskaði kvikmyndir og gott sjónvarpsefni. Það er því ótrúlega gaman núna að fá að vera, þó ekki nema pínu pons, með þessu fólki sem er að skapa og búa til þetta efni,“ segir hann. Hrifning Ragnars leynir sér ekki.

Ragnar segir ekki loku fyrir það skotið að hann hefði hellt sér út í leiklistina af fullum þunga ef lögreglan og blóðið hefði ekki kallað. „Tónlistin var líka fyrirferðarmikil, maður glamraði á hljómborð í gamla daga.“

Aðspurður hvernig honum myndi lítast á það að börnin hans 17 og 24 ára fetuðu í fótspor pabba síns og afa kemur hik á Ragnar, en hann segir þó lögreglustarfið hollt fyrir alla að prófa. „Þetta er áhugavert starf. Það á sínar góðu og slæmu hliðar og maður verður að trúa því að maður sé að gera eitthvað gott með þessu. Maður lærir heilmikið á þessu. Maður lærir að keyra bíl undir krefjandi aðstæðum. Maður lærir um réttindi og skyldur einstaklinga. Svo lærir maður aðra hlið á mannlífinu og það er þroskandi. Maður verður að finna það sjálfur, hvort þetta eigi við mann eða ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi