fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Vigfús Bjarni: Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 20. september 2020 07:00

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur segir mikilvægt að við séum almennileg við hvert annað á þessum erfiðu tímum. Einangrun geti haft alvarleg áhrif á andlega heilsu og hreinlega slökkt lífsneistann, enda sé henni beitt sem refsiúrræði.

Forsíðuviðtal við Vigfús Bjarna úr helgarblaði DV 11. september er hér birt í heild sinni.

„Ég tók þá ákvörðun að læra guðfræði þegar ég var að vinna við skógarhögg í Danmörku. Ég hafði lengi verði mjög spyrjandi um lífið og tilveruna, og þessar spurningar sóttu stíft á mig. Ég var hræddur við að taka þessa ákvörðun því hún var mikil u-beygja frá því sem ég hafði áður verið að gera,“ segir Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum.

Hann tók árs frí frá námi eftir útskrift frá Menntaskólanum við Sund og vann við skógarhögg á meðan hann velti framtíðinni fyrir sér. „Ég velti mikið fyrir mér raungreinum og flestir héldu að ég myndi fara í þá átt. Það kom því mörgum á óvart þegar ég ákvað að læra guðfræði og í byrjun sagði ég aðeins mínum nánustu frá þeirri ákvörðun. Þarna þurfti ég að sýna hugrekki, vera trúr sjálfum mér og lét bara vaða.“

Hann segir það þó ekki hafa verið neitt eitt sérstakt sem rak hann áfram í þetta nám. „Ég hef alltaf verið þannig gerður að þegar ég hef ekki getað skilið þá vil ég leita dýpra. Í guðfræðinni er mikil dýpt og spurt um ákveðinn tilgang. Ég hafði horft upp á fólk takast á við sjálft sig, takast á við lífið og ég sá hvað það var dýrmætt að hafa gott fólk í kring um sig og fá leiðbeiningar.“

Lögreglumaður á námsárunum

Vigfús hefur starfað nær óslitið sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum frá árinu 2005. Hann lauk gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands en fór síðan í framhaldsnám til Bandaríkjanna. „Þetta er fimm ára nám hér heima og ég var svo heppinn að geta unnið meðfram námi hjá lögreglunni í Reykjavík. Það þroskaði mig mikið og dýpkaði. Ég vissi að ef ég yrði prestur þá myndi ég vilja vinna við sálgæslu og þá lá beinast við að fara á sjúkrahús. Ég fór því út í framhaldsnám til að læra meira um sorg og áföll, enda er nauðsynlegt að hafa þekkingu á slíkum málum þegar starfið snýst oft um útköll og viðtöl við erfiðar aðstæður.“ Alls er það átta manna hópur sem sinnir sálgæslu á Landspítalanum, sjö prestar og einn djákni. Þau skipta svæðum og vöktum á milli sín, en það er ekki síst á nóttunni sem kalla þarf út prest. „Sú þjónusta hefur verið mjög mikilvæg. Þetta eru útköll vegna slysa, kyrrlátar stundir við dánarbeð og allt þar á milli,“ segir hann.

Vigfús er fráskilinn þriggja barna faðir þeirra Rannveigar Ívu, sem er sálfræðinemi og lögreglukona í Reykjavík, Alberts Elís, sem er 16 ára nemi við Borgarholtsskóla „og mikill íþróttamaður,“ og hins tólf ára Patreks Veigars, sem er í Langholtsskóla. „Við eigum líka hund, hana Sölku, sem er stór hluti af fjölskyldunni,“ segir Vigfús, en Salka er orkumikil og skemmtileg svört labradortík.

Mynd/Anton Brink

Mikið náttúrubarn

Vigfús er mikið náttúrubarn og var langt fram undir tvítugt alltaf mikið á sumrin hjá afa sínum og ömmu á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu. „Náttúran er stór hluti af því hvernig ég upplifi lífið og ég finn sterka náttúrutengingu í trúnni. Ég verð alltaf meiri og meiri náttúruverndarsinni með árunum. Ég veit eiginlega ekki hvar þetta endar. Það er mikil viska í náttúrunni, þar sjáum við hringrás lífsins og hvernig dýrin hafa áhrif hvert á annað. Dýr eru stórgáfuð og magnað hvernig þau skynja lífið og lifa af við krefjandi aðstæður. Ég hef oft séð hvernig það getur verið fólki dýrmætt veganesti í mótlæti, þegar það á sterka tengingu við náttúruna. Margir finna fyrir andlegum og trúarlegum tengingum í náttúrunni og finna fyrir afli sem þeir geta ekki alveg skilgreint. Náttúran er okkur öllum mikilvæg.“

Trúin skiptir Vigfús miklu máli en hann leggur líka áherslu á að velta henni ekki yfir á annað fólk. „Mér finnst trú mín hafa bæði dýpkað og einfaldast í gegnum árin. Ég trúi því að við séum samverkafólk í að búa til gott og að við séum að gera heilt það sem hægt er að gera heilt. Mér finnst trúin kenna mér óendanleg dýrmæti hverrar manneskju og hún er líka boðberi vonar. Þessi einfaldi Kristur sem hjálpar manni að hafa hugrekki til að stíga inn í aðstæður, er mér mjög að skapi.“

Flókið tilfinningalega

Vigfús hefur sannarlega ekki alltaf verið trúaður heldur kom trúin smátt og smátt. „Ég ólst upp á venjulegu heimili. Íslendingar eru trúuð þjóð miðað við margar aðrar. Ég er lánsamur að hafa kynnst fólki á lífsleiðinni, allt frá því ég var barn, sem trúin hafði gert góða hluti fyrir.“

Starf sjúkrahússprests hefur verið óhefðbundið á ákveðinn hátt síðustu mánuði, eins og flestallt annað á tímum kórónaveirunnar. „Þetta hefur verið krefjandi tími fyrir marga, til dæmis sjúklinga sem þurftu að liggja inni á sjúkrahúsi en urðu jafnframt að vera einangraðir. Það reynir á að geta ekki verið í samskiptum við fólkið sitt. Ég hef kynnst mörgum fjölskyldum sem ástandið hefur reynt mikið á. Oft var þetta mjög sárt, eins og þegar fólk lést og ástvinir gátu ekki haft útförina eins og þeir hefðu viljað. Það er líka erfitt að hafa ekki aðgang að fólkinu sínu á dánarbeðinum. Fólk hefur skilið varúðarráðstafanir vitsmunalega, en þetta hefur verið flókið fyrir fólk tilfinningalega.“

Hann varð snemma var við svokallaðan heilsuótta, þar sem fólk hafði áhyggjur af sinni eigin heilsu í faraldrinum, og einangrunin sem fylgir hefur faldar afleiðingar. „Við erum félags- og tengslaverur. Við erum vön því að geta tekist í hendur og faðmast. Ég held að mannskepnan þoli illa að vera ekki í nánd. Fyrirbærið einangrun hefur verið beitt í refsilöggjöf því hún getur brotið mannsandann niður. Þessi einangrun nú hefur ekki síður áhrif á mannsandann sem er okkar lífsorka. Það er hreinlega hægt að slökkva á lífsorku fólks. Þetta er viðkvæmur tími og við þurfum að vera almennileg hvert við annað.“

Fíknisjúkdómar aukist

Á síðustu vikum og mánuðum finnst Vigfúsi hann hafa orðið meira var við efnahagslegar afleiðingar faraldursins. „Ég finn til með fólki sem hefur misst lífsviðurværið sitt. Það þrengir að hjá mörgum og við þurfum að gæta þess að taka tillit til þess fólks. Ég heyri meira af því að fólk hefur áhyggjur af því að geta ekki brauðfætt sig og sína. Þá er margt sem bendir til þess að andleg líðan fólks hafi versnað mikið og ýmsir fíknisjúkdómar aukist.“ Komið hefur fram að tíðni sjálfsvíga sé þegar orðin hærri en í meðalári. Vigfús segir mikilvægt að hafa í huga að ekki sé hægt að gefa sér að það sé tengt faraldrinum.

„Það er virkilega sorglegt hversu margir falla á hverju ári vegna sjálfsvíga. Sú breyting sem ég hef tekið eftir nýlega í mínu starfi er hversu margir hafa verið að deyja vegna ofskammta. Það er stærsta breytingin sem ég hef tekið eftir. Margir hafa fundið fyrir óöryggi og ótta á þessum tímum. Ég vona að okkur beri gæfa til að þróa samfélag þar sem við munum eftir þeim sem minna mega sín og veitum þeim þá hjálp sem þau þurfa.“

Sem sjúkrahúsprestur er Vigfús oft með fólki á erfiðustu stundum lífsins. Hann segir ótímabær dauðsföll vera það sem mest reyni á hann. „Mér hefur alltaf fundist erfitt að horfa upp á þessi skyndilegu dauðsföll, þar sem ungt fólk er jafnvel að falla frá börnum. Það eru ýmis myndbrot í kollinum sem maður geymir með sjálfum sér og eiga eflaust alltaf eftir að fylgja manni.“

Hvernig útskýrir maður það fyrir ungum börnum þegar foreldri þeirra deyr skyndilega? „Maður getur aldrei útskýrt það, enda reynir maður það aldrei. Mikilvægt er að hefja fljótt þá vinnu að miðla öryggi til barnanna og láta þau vita að það verði allt í lagi með þau, þrátt fyrir allt. Þetta er stórt áfall fyrir börn og þau spyrja sig: Hvað verður um mig? Fagvinnan á að snúast um að barnið upplifi að það verði að því gætt. Hluti af því er að virkja fólkið í kringum barnið til að taka þátt í þessu samtali, svo sem eftirlifandi foreldri. Þetta eru mikilvægari skilaboð til barna á þessum tímum heldur en að fara út í flóknari útskýringar, og þetta þarf að endurtaka aftur og aftur. Þau þurfa að vita að þau eru örugg.“

Mynd/Anton Brink

Reynir að vera eðlilegur

Það er ákveðinn undirbúningur sem fylgir því að vera til staðar fyrir fólk þegar sársaukinn er sem mestur. „Mér finnst gríðarlega mikilvægt að setja mig í þær stellingar að ég er ekki að fara að taka pláss eða yfirgnæfa neinn. Maður er að koma inn til að reyna að miðla öryggi og ró, og reynir eftir fremsta megni að tryggja að fólk sem hefur lent í skelfilegum áföllum, upplifi einhvers konar stjórn í óstjórninni. Ég reyni að hjálpa fólki að virkja þau tengsl sem það vill hafa með sér í aðstæðunum, hjálpa fólki að tala saman og hjálpa fólki að heyra. Alltaf á forsendum þessa fólks. Alltaf. Maður er ekki kominn til að flytja ótímabærar útskýringar á þjáningu eða flytja einhver slagorð inn í aðstæður, því kannski er maður að koma inn í aðstæður þar sem fólk getur varla lifað af. Ég held að fagmennskan snúist um að reyna að vera sem eðlilegust manneskja og ekki þykjast vera annað en maður er.

Ég held að það hjálpi fólki best að sjá það og heyra í því. Kornungur vinur minn sem var með langt genginn sjúkdóm skammaði stundum okkur heilbrigðisstarfsfólkið því honum fannst við vera svo alvarleg í kring um hann. Hann sagði: Hvað er þetta með ykkur – getið þið ekki bara verið eðlileg? Þetta er mér dýrmæt minning og ég minni mig oft á þennan unga pilt. Kannski er undirbúningurinn fólginn í því að maður reynir að minnka sig, á þann hátt að muna að maður er kominn til að vera til staðar en ekki taka yfir. Í sumum aðstæðum finn ég fyrir sorg og ótta og þá er mikilvægt að gangast við því.“

Ertu stundum kvíðinn áður en þú gengur inn í þessar erfiðu aðstæður? „Það hefur oft komið fyrir. En sá kvíði víkur yfirleitt þegar maður er kominn inn í aðstæðurnar. Maður er að verða vitni að aðstæðum þar sem fólk er að upplifa slíkt að maður getur ekki einu sinni hugsað það til enda að vera sjálfur á þessum stað. Það víkur allt fyrir því hvernig maður getur lagt eitthvað gott til.“

Verndandi þættir

Aðstoð við foreldra sem hafa misst ung börn og konur sem hafa þurft að fæða andvana börn, er hluti af starfi Vigfúsar. „Þessar mæður hafa fundið fyrir börnunum sínum í marga mánuði og tengst þeim í gegnum líkamleg viðbrögð. Oft eru þær orðnar mjög tengdar þessum einstaklingi, sem strax fyrir fæðinguna var orðinn risastór áhrifaþáttur tilhlökkunar og gleði, en hverfur síðan á braut. Þetta er gríðarlega flókin reynsla fyrir fólk. Þarna skiptir miklu máli að virða reynsluheim konunnar en um leið hjálpa sambúðarfólki að vera saman í sorginni.“

Sorgarvinna með fjölskyldum er Vigfúsi mikilvæg og hefur hann unnið mikið við það í gegnum tíðina að hjálpa fólki að skapa getu til að tala saman, þrátt fyrir allt. „Það er vinna sem skilar oft mjög miklum árangri, og hjálpar hjónum að skilja og skynja hvort annað. Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur. Það er ákveðin áfallavinna að kenna fólki að reyna ekki að lesa hugsanir heldur efla getuna til að tjá sig og spyrja spurninga.“

Fæstum dylst að starf sjúkrahússprests er afar krefjandi. Hann viðurkennir að hafa stundum hugsað að þetta sé bara komið gott. „Jú, jú. Mér finnst samt ekki að neinn eigi að fá sérstakt hól fyrir að sinna starfinu sínu. Starf sem þetta er líka þess eðlis að það hefur að geyma verndandi þátt, því hægt er að upplifa mikla gagnsemi. Samskiptin eru yfirleitt jákvæð og í þeim er ákveðin mildi sem einnig er verndandi. Það sem er erfiðast við að yfirgefa svona störf er að maður getur fundið fyrir tilgangsleysi í öðrum störfum. Það er þó ekki rétt sýn, enda öll störf jafn mikilvæg og tilgangsrík. En þegar maður er vanur því að vera í krefjandi og ögrandi aðstæðum getur verið erfitt að fara úr þeim.

Eitt af því sem verndar fólk í svona störfum er að maður sér oft svo mikinn árangur. Ég hef séð fólk vinna í sínum málum, rísa upp og ná tökum á sínu lífi. Ég finn þá fyrir svo mikilli virðingu fyrir fólki og starfið hefur fært mér aukna trú á mannkynið. Allir eru að gera sitt besta. Ég held satt að segja að mörg önnur störf séu miklu erfiðari. Hér get ég horft á fólk öðlast ný gildi og nýjan styrk, upplifa að það sé lifandi þrátt fyrir allt.“

Endurnærandi að kenna

Þá er afar mismunandi að koma heim eftir vinnudaginn. „Margt fylgir manni að sjálfsögðu og maður nær ekki að sleppa hugsuninni. Það er mikilvægt að varðveita ákveðin skil milli heimilis og vinnu. Ég er þó viss um að ég hef lagt mikið á mína fjölskyldu út af vinnunni, en ég reyni að gera eins lítið af því og ég get. Ég vil ekki að heimilislífið litist af því sem ég var að sjá eða upplifa. Það væri ósanngjarnt gagnvart fjölskyldunni. Stundum er gott að tala við einhvern áður en maður fer heim, en stundum hefur maður ekki þörf fyrir það.“

Auk þess að starfa á Landspítalanum hefur Vigfús síðustu þrjú ár kennt sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þetta er diplómanám á meistarastigi sem hann kennir ásamt séra Gunnari Rúnari Matthíassyni og fjölda gestakennara. „Mér finnst þetta afskaplega skemmtilegt og endurnærandi. Í námið kemur fólk úr ýmsum áttum: heilbrigðisstarfsfólk, starfsmenn kirkjunnar og félagslega kerfisins. Við kennum bæði út frá fræðum um sorgarkenningar en höfum einnig verið með verklega kennslu. Þá búum við til aðstæður þar sem fólk getur æft sig í að taka erfið samtöl. Fólk er oft feimið í byrjun en það er alveg magnað að sjá fólk eflast í svona hlutverkaleik.“

Vigfús er ekki nema 46 ára gamall, ánægður með þá reynslu sem hann hefur öðlast, og nóg eftir. „Það er gott að eldast. Margt hefur komið á óvart í lífinu. Þetta er ferðalag sem geymir fullt af tækifærum. Mér finnst gott að gefa mér tíma í að efla þá hluti sem hafa góð áhrif á mig. Ég hef verið drjúgur við að efla tenginguna við náttúruna, var duglegur að hreyfa mig en þarf að verða virkari á því sviði aftur. Mér finnst gott að lesa og ég þarf að eiga mitt andlega líf. Þá gengur mér betur, ég er rólegri og æðrulausari. Síðan finnst mér fólk yfirleitt skemmtilegt. Það er alltaf kostur.“ Hann nær síðan ágætlega utan um eðli starfsins þegar hann segir á léttu nótunum: „Ég vildi bara óska að fólk þyrfti aldrei að kynnast mér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda