fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

María og Ingileif opna sig: „Mælikvarðinn á það að vera gott foreldri snýst ekki um að það séu bæði karl og kona á heimilinu”

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 17. mars 2019 20:00

Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir eru mörgum Íslendingum kunnar. Báðar hafa þær verið ötulir talsmenn fyrir baráttu hinsegin fólks hérlendis, verið áberandi í fjölmiðlum sem og samfélagsmiðlum í gegnum störf sín og aktívisma ásamt því að taka að sér talskonu hlutverk verðugra málefna.

Blaðakona kíkti í heimsókn til fjölskyldunnar á björtum laugardegi, fékk að knúsa nýjasta fjölskyldumeðliminn hundinn Míló og ræddi við þær um lífið og tilveruna. Samræðurnar stóðu yfir í um þrjár klukkustundir og hefðum við líklega geta setið í aðrar þrjár til viðbótar enda voru hjónin sérstaklega skemmtilegir, einlægir og málefnalegir viðmælendur. Til þess að fá að grennslast örlítið nánar um hverjar þær eru bað blaðakona hjónin að lýsa hvorri annarri.

Ingileif: „María er að verða þrítug á árinu, hún er á miklu brekku ári eins og hún segir sjálf. Hún er algjör hugsjónar og baráttu kona sem hefur starfað við ýmislegt sem tengist málefnum sem hún brennur fyrir. Var formaður stúdentaráðs í háskólanum, talskona druslugöngunnar og starfaði hjá innanríkisráðuneytinu. Hún þarf alltaf að vera með mikinn metnað fyrir því sem hún er að gera. Hún fór út í pólitík sem kom engum á óvart og starfar í dag sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar formanns Viðreysnar. Hún er algjör neglukona, frábær mamma og eiginkona. Svo er hún fyrst og fremst stórkostleg hundamamma þrátt fyrir að hafa ekki gefið mikið út fyrir það til þess að byrja með. Hún er yndisleg manneskja og leggur mikið upp úr því að vera góð við alla, vill ekkert ranglæti í heiminum og er með mikla réttlætiskennd. Það er líka það fallegasta við hana.“

María: „Ingileif er að verða 26 ára og ég myndi segja að hún sé svona allt muligt manneskja. Allt frá því að vera fjölmiðlakona, söngkona, þáttastjórnandi og aktívisiti. Hún hefur sjálf verið mikið í allskonar baráttum og hefur verið virk í hinsegin fræðslu. Stofnaði Hinseginn leikann og er að mínu mati frábær fyrirmynd fyrir allt ungt fólk og hinsegin fólk. Frábær mamma, geggjuð hundamamma og fyrst og fremst rosalega góð manneskja sem má aldrei neitt aumt sjá.“

„Við erum í grunninn mjög líkar en með mismunandi áhugamál“ / Ljósmynd: Hanna

Ingileif: „Við erum í grunninn mjög líkar en með mismunandi áhugamál. Erum alveg nákvæmlega eins innréttaðar, það er eiginlega pínu fyndið. En við höfum bara svo svipaða sýn á lífið og svipuð grunngildi. Erum með brjálaða réttlætiskennd og viljum gera gott, skilja eitthvað gott eftir okkur. Þannig að við erum svolítið svipaðar en með hæfileika á mismunandi sviðum. Ég er ekki á leiðinni í pólitík og María er ekki á leiðinni að syngja,“ segir Ingileif og hlæja þær báðar að því.

María: „Já ég geri öllum greiða með því. Við pössum okkur líka að lyfta hvorri annarri upp og höfum aldrei staðið í vegi fyrir draumum hvorra annarrar. Ef við höfum fundið fyrir því að við séum að fara út af brautinni þá tökum við svokallaðan stöðufund og Ingileif sparkar í rassinn á mér og ég henni. Það er rosalega gott að vera í þannig sambandi því það er engin samkeppni heldur samstaða. Finnum okkar braut og það þarf alls ekki að vera sama brautin.“

Ingileif: „Ég held einmitt að það skapi miklu jákvæðari sambönd og jákvæðari samskipti ef fólk hjálpar hvort öðru. Ég held því miður að það sé allt of mikið um það að fólk sé að draga úr hvoru öðru.“

María: „Líka bara að virða sjálfstæði hvorrar annarrar og passa upp á það. Það er mjög auðvelt, sérstaklega svona í lesbískum samböndum að það skapist ákveðin nægjusemi í því að vera bara saman og þurfa ekkert annað fólk.“

Ingileif: „Já kannski þegar vinkonurnar eru að hittast og það eru ekki makar með, þá slædum við samt alltaf sem makar hvorrar annarrar inn í allar aðstæður. Líf okkar varð því mjög samtvinnað á skömmum tíma en við höfum alveg passað upp á að halda líka í sjálfstæðið. Ekki það að við gerum eiginlega allt saman sko,“ þær brosa til hvorrar annarrar.

Ástfangnar við fyrstu sýn

Talið berst að þeim tíma sem parið kynntist og segja má að þær hafi orðnar ástfangnar við fyrstu sýn.

Ingileif: „Við hittumst fyrst 30. ágúst árið 2013, við vorum báðar búnar að vera í sitthvoru partýinu og ég var að fara með sameiginlegri vinkonu okkar niður í bæ. Hún ákvað að koma við í partýinu sem María var í og kippa henni með okkur niður í bæ. Þannig að við hittumst í fyrsta skiptið í leigubíl. Við áttum svo eitthvað augnablik í leigubílnum.“

María: „Ég var á þessum tíma algjörlega búin að gefast upp á þessu stefnumóta lífi og nennti engan vegin að opna hjarta mitt fyrir einum né neinum.“

Ingileif: „Svo kem ég og skemmi allt!“ Segir Ingileif og skellir upp úr.

Fljótlega eftir komuna niður í bæ urðu þær viðskila en hittust svo í lok kvölds aftur heima hjá sameiginlegri vinkonu þeirra.

María: „Við fórum bara að spjalla og enduðum í sleik. Mjög beisik. Eldhússleikur heima hjá vinkonu okkar. Ég vissi ekkert hvort hún væri lesbía eða ekki.“ Segir María hlæjandi um þetta örlagaríka kvöld í lífi þeirra hjóna.

María og Ingileif / Ljósmynd: Hanna

Sambandið var aldrei spurning

Á þessum tíma var Ingileif ekki komin út úr skápnum en hafði yfir sumarið verið að fikra sig nær því. Segir hún að þegar María hafi komið inn í líf hennar hafi hlutirnir smollið saman og að samband þeirra hafi aldrei verið nein spurning í hennar huga. María sem þá átti fimm ára gamlan son reyndi að telja Ingileif trú um það að njóta lífsins en ekki festa sig í sambandi með einstæðri móður.

Ingileif: „María var alltaf að segja hvað hún væri mikill pakki, hún ætlaði bara að hrekja mig í burtu. En henni tókst það ekkert sérstaklega vel.“

María: „Nei sem betur fer ekki. Ég er náttúrulega fjórum árum eldri og var búin að vera út úr skápnum í alveg þrjú ár þegar við kynntumst. Ég ætlaði að hafa eitthvað vit fyrir Ingileif að ég væri svo gömul og ætti barn og að hún þyrfti nú að lifa lífinu. Ég skildi ekki af hverju þessi tvítuga stelpa myndi vilja verða stjúpmamma og taka ábyrgðina á því. En hún bað mig bara vinsamlegast um að virða það að hún gæti ákveðið þetta sjálf. Svo þetta gekk bara ótrúlega vel, engar flækjur og aldrei nein spurning. Það var í raun Ingileif sem róaði mig svo niður en ekki öfugt.“

Ingileif: „Mér fannst ég bara vera að græða. Ég fékk bara plús einn með Þorgeiri. Ég held að það hafi verið svona tveir mánuðir liðnir þegar hann bauð mig formlega velkominn í fjölskylduna. Hann hefur alltaf kallað mig mömmu og þetta gerðist allt mjög náttúrulega. Hann er bara strákurinn minn og það hefur alltaf verið þannig, það er ekkert sem mér finnst skilja okkur að. Ég elska hann út af lífinu. Ég er svo þrjósk að ég leyfði Maríu ekki í eina sekúndu að segja mér fyrir verkum og hrekja mig í burtu.“

Börn fæðast fordómalaus

Segja þær Þorgeir, son Maríu úr fyrra sambandi aldrei hafa pælt neitt í því að mæður hans séu lesbíur enda fæðist börn fordómalaus.

María: „Börn fæðast ekki með fordóma og ef maður kynnir þeim fyrir fjölbreytileikanum þá kippa þau sér minnst upp við þetta. Svo finnst honum líka stórfurðuleg tilhugsun að ég hafi einhvern tíma verið með karlmanni. Það finnst honum óeðlilegt.“

Börn fæðast fordómalaus / Ljósmynd: Hanna

Ingileif: „Eins og með Þorgeir, mamma hans hafði átt kærustu þegar hann var pínu lítill og svo eignast hún aftur kærustu og honum fannst ekkert óeðlilegt við það. Þegar þau alast upp við eitthvað þá skiptir það þau engu máli. En svo var fullt af krökkum þegar hann byrjaði í skóla sem að voru ekki alveg að skilja þetta. Hann hefur sem betur fer alltaf svarað því mjög vel og okkur finnst okkar fjölskylda alveg jafn eðlileg og allra annara, enda er hún það. Hann hefur líka alltaf verið stoltur af því sem hann á. Það hafa komið upp aðstæður þar sem verið er að ræða hinseginfræðslu og ákveðnar týpur fara upp á afturlappirnar og vilja meina að það sé verið að kenna börnum einhverja óeðlilega lifnaðarhætti en við höfum alltaf bara talað um þetta. Það eru í öllum skólum einhver aðili sem er hinsegin eða á hinsegin fjölskyldu. Þannig að því fyrr sem við segjum börnunum að það sé í lagi að eiga allskonar fjölskyldur því auðveldara verður það fyrir þau. Fyrir honum var þetta aldrei neitt vandamál en fyrir hinum börnunum var það það. Og það er alveg eðlilegt þegar í öllum teiknimyndum og bókum eru bara prinsinn og prinsessan. Það er aldrei gert ráð fyrir öðru en því fjölskyldumynstri. Í barnabókum er alltaf þetta gagnkynhneigða norm sem gengið er út frá, að við séum öll gagnkynhneigð þar til annað kemur í ljós og því þurfum við að „koma út úr skápnum“. Við höfum alltaf í gegnum okkar fræðsluvettvang talað fyrir því að það skiptir engu máli hvern við elskum, hvernig við lítum út eða hvernig við skilgreinum okkur. Við eigum öll 100% tilveru rétt. Það er ekki verið að segja neitt sem er hræðilegt, það er bara verið að tala um mismunandi fjölskylduform.“

Fæddist ekki í ákjósanlegum aðstæðum

Segist Ingileif hafa elskað það að hafa fengið að ganga beint inn í stjúpmóður hlutverkið og að fyrir henni hafi það verið mjög náttúrulegt.

María: „Ingileif kenndi mér líka að verða betri mamma. Ég var bara átján ára þegar ég átti hann og var alls ekki tilbúin. Var gengin næstum því átján vikur þegar ég komst að því að ég væri ólétt og þetta kom upp á mjög erfiðu tímabili í mínu lífi. Ég stóð mig alltaf vel, passaði alltaf upp á allt en það var alltaf þetta í hjartanu sem að vantaði upp á hjá mér. Ekki það að ég elskaði hann auðvitað en það var bara þetta, að vera sátt við hlutverkið og hlutskiptið. Á þessum tíma voru allar vinkonur mínar að gera allt aðra hluti og höfðu ákveðið frelsi sem ég hafði ekki. Þegar Ingileif kom inn í líf okkar þá kenndi hún mér að elska þetta hlutverk og ég er orðin miklu betri mamma fyrir vikið. Fullkomlega sátt við sjálfa mig og hlutskipti mín. Hann fæddist ekki alveg í ákjósanlegustu aðstæðurnar þegar hann kom fyrst í heiminn.“

Ingileif: „Hún var að ganga í gegnum málaferli við stjúppabba sinn.“

María: „Já og þetta gerðist allt saman á sama árinu. Ég sagði frá kynferðisofbeldinu í janúar og komst að því að ég var ólétt í júní. Þetta var stórt og erfitt ár. Ég var með áfallastreituröskun á háu stigi og var rosalega veik. Ég faldi það vel, mætti alltaf í skólann og kláraði stúdentsprófið á réttum tíma. Var alltaf fullkomin út á við en var algjörlega dofin og dáin að innan. Þá er maður auðvitað ekki í besta forminu til þess að sinna barni líka. En ég hef lýst þessu þannig að ég lét það fljóta. Ég lét þetta ganga upp og passaði að það myndi ekki bitna á honum.“

Ingileif: „Við höfum líka talað um það að Þorgeir hafi veitt henni ákveðin tilgang. Hún þurfti að vakna á morgnanna fyrir hann.“

María: „Já ég veit ekkert hvernig ég hefði orðið ef ég hefði ekki haft hann. Ég þurfti að standa mig og vildi standa mig fyrir hann. Gefa honum gott líf. Þess vegna kláraði ég skólann og fór í háskólann. Ég veit ekki hvort ég hefði endilega komist alla leið þangað ef ég hefði ekki haft hann af því að ég var það veik. Langaði oft ekki til þess að lifa. Þetta var svona tímabil sem að ég sé bara í móðu í dag en var mjög mikilvægur og lærdómsríkur tími. Þess vegna finnst mér í hjartanu rosalega gott að fá annað tækifæri til þess að fara í gegnum þetta ferli á jákvæðu nótunum þegar það er svo ótrúlega velkomið og ég hjartanlega tilbúin í það. Þó svo að ég viðurkenni að hafa verið smá hrædd við það að fara út í annað barn vegna þess að ég á erfiðar minningar. En við erum bara mjög spenntar núna fyrir hlutskiptunum. Ég er auðvitað búin að fara í gegnum tíu ára sálfræði meðferð og hef unnið vel úr mínum málum. Ég held ég hafi alveg náð bata þrátt fyrir að auðvitað komi öðru hvoru bakslög en það er ekkert í líkingu við áður. Þannig að það að Ingileif hafi komið inn í líf okkar gerði held ég mig og Þorgeir bæði að betri manneskjum. Það var ekki bara hún sem fékk einhvern bónus.“ Segir María og dáist að sinni konu.

Ingileif: „Það er auðvitað allskonar sem að María upplifði í gegnum sitt fyrra ferli sem að við þurftum alveg að fara yfir áður en að við fórum út í þetta. Við líka róuðum líf okkar niður í fyrra af því að ég greindist með flogaveiki svo ég var svolítið þvinguð til þess að taka lífið á annað tempó. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei verið mikill djammari að þá hef ég samt alltaf sokkið mér aðeins of mikið í vinnu og skóla og haft mikinn metnað fyrir því. Ég keyrði mig svo út á síðasta ári og þá vorum við þvingaðar til þess að róa okkur niður. Við hættum báðar að drekka og höfum verið rosalega rólegar síðustu mánuði. Sumir segja að það sé leiðinlegt og að við séum orðnar miðaldra en ég held að við séum enn þá bara skemmtilegar þrátt fyrir að hafa aðeins þurft að róa tempóið.“ Segir Ingileif og þær skella báðar upp úr.

Eðlileg fjölskylda líkt og allar aðrar / Ljósmynd: Hanna

Uppræta ekki fordóma nema að tala um þá

Berst talið að núverandi meðgöngu þeirra hjóna en Ingileif gengur nú með þeirra annað barn.

Ingileif: „Þetta gerir það líka bara að verkum að við erum með allar kjöraðstæður fyrir lítið kríli sem er á leiðinni og við erum alveg tilbúnar í það. Við bjuggumst reyndar við því að þetta myndi taka okkur svolítinn tíma og við þekkjum mikið af fólki sem hefur verið í mörg ár að reyna. Svo förum við skunkarnir sem við erum og þetta gengur upp í fyrstu tilraun. Við vorum alveg ótrúlega heppnar með það og ég held líka að hugarfarið hafi hjálpað til. Við vorum svo niðri á jörðinni með þetta allt saman.“

María: „Við fórum í tæknisæðingu en ekki glasafrjóvgun. Það er svona fyrsta skrefið, þá er í raun bara sprautað inn þessu stöffi. Eitthvað sem við hefðum þess vegna geta gert heima en það var fínt að gera þetta svona,“ segir hún og hlær.

Ingileif tekur undir hláturinn og segir: „Já þetta var mjög rómantísk stund. Ég lá þarna á þessum bekk og María spyr mig hvort ég vilji að hún haldi í höndina á mér. Við vorum alveg ótrúlega heppnar. Það voru greinilega bara kjöraðstæður og legið mitt rosalega tilbúið í þetta. Ég er líka búin að vera með baby fever í mörg ár. Svo erum við líka búnar að upplifa þennan hinseginn vinkil á þessu öllu saman. Upp í Livio þar sem við fórum í meðferðina upplifðum við ekki neina fordóma og ekkert neikvætt. En svo höfum við alveg mætt viðmóti eftir það. Við fórum til dæmis í skoðun og ég var spurð hver minn nánasti aðstandandi var. Ég benti auðvitað á Maríu og segi hún. Þá spyrja þau okkur hver okkar tengsl séu og þegar ég segi þeim að við séum hjón þá segir einstaklingurinn við mig: „Bíddu nú við, hvað meinarðu? Eruð þið giftar?“ Ég sagði bara já það er nú það sem það þýðir að vera hjón. Svo við höfum svolítið þurft að útskýra þetta. En við ætlum bara að vera mjög opnar og tala mikið um þetta því að ég held að maður uppræti ekki svona nema að tala um það.“

María: „Það er líka svolítið áhugavert að vera þeim megin sem ég er núna, hafandi gengið sjálf með barn áður. Nú er ég á þessari „pabbahlið“ og ég held að margir karlmenn upplifi sig svolítið utangátta í þessu ferli. Ég hef alveg tekið eftir því að það er mjög oft sem fólk óskar bara Ingileif til hamingju þrátt fyrir að ég standi við hliðina á henni. Ég held að þetta sé alveg ótrúlega náttúrulegt en ég held að þetta sjónarhorn upplifi rosalega fáar konur. Maður veltir því svolítið fyrir sér hvert hlutverk sitt sé. Þannig að mér finnst mjög áhugavert að vera hérna megin og sjá þetta svona. Ég held að þetta viðmót sem karlmenn upplifi oft geti alveg verið ástæðan fyrir því af hverju margir þeirra segja að það hafi verið erfitt að tengjast barninu og eru kannski ekki alveg jafn „all in“ í hlutverkinu. Ég held að þetta hljóti að vera einhverskonar rót, strax þarna er búið að setja ákveðna gjá á milli. Hún er að ganga með barnið og hún er að verða mamma en ég er meira bara svona að vera með. Mér finnst þetta ótrúlega áhugavert og er alls ekki bitur. Ingileif kemur ekki svona fram og við erum alveg jafn mikið saman í þessu en maður finnur þetta alveg svona lúmskt.“

Fær ekki að vera móðir barnsins

Segja þær muninn á milli þess að vera móðir og faðir ekki eiga við rök að styðjast og að sjálfsögðu eigi báðir foreldrar rétt á að upplifa allar tilfinningarnar. Segist María ekki tengja við föðurhlutverkið þrátt fyrir að standa þeim megin við línuna.

María: „Þegar ég les um hluti sem beint er til feðra þá tengi ég ekki því ég er ekki að verða pabbi. Ég er að verða mamma. En munurinn er að daginn eftir að barnið fæðist þá þarf ég að fara og fá vottorð fyrir því að ég sé foreldri þess og senda á fæðingarorlofssjóð. Ef að gagnkynhneigt par væri í sömu stöðu og við, væri að eignast barn saman í gegnum tæknisæðingu þá þyrfti karlmaðurinn ekki að fara og gera þetta. Ef fólk er í hjónabandi þá verður hann sjálfkrafa faðir barnsins í öllum skrám. Jafnvel þó þau hafi keypt sæði eða hún hafi haldið fram hjá. Ég þarf hins vegar að sækja sérstaklega um það.“

Ingileif: „Svo verð ég skráð móðir barnsins en hún verður skráð foreldri þess, hún fær ekki að vera móðir líka. Það eru allskonar svona litlir hlutir sem eru alltaf að minna mann á að það er enn þá mismunun í kerfinu.“

María: „Ég finn oft að ég fer inn í hausinn á mér og fer að velta því fyrir mér hvort fólk sé að dæma okkur. Það haldi að ég verði ekki jafn mikið foreldri af því að genatískt muni ég ekki eiga hlut í barninu eins og væri alla jafna. Maður þarf bara að passa hausinn sinn af því að ég ætla ekki að láta þetta skemma neitt.“

María fær ekki að vera móðir barns þeirra / Ljósmynd: Hanna

Ingileif: „Við höfum alltaf passað upp á hvor aðra í þessu. Við pössum okkur á því að ég sé ekki að upplifa mig í einhverju hlutverki og að hún upplifi sig út undan. Við erum saman í þessu ferli og ég sé engan mun á okkur sem foreldrum þessa barns. Við erum báðar alveg jafn miklir foreldrar barnsins og það er algjör firring ef fólk heldur einhverju öðru fram. Þetta er bara eins og hefðbundin meðganga þó svo að María hafi ekki frjóvgað mig.“

María hlær: „Já það hefði reyndar verið geggjað. Ég væri alveg til í að sjá kombóið okkar saman. Það er víst verið að vinna í því að finna út úr því hvernig á að frjóvga tvö egg saman, þá fyrst held ég að karlmennskan fari á hliðina.“

Ingileif: „Já þá færi allt á hliðina og allt yrði vitlaust. En við höfum alveg syrgt það að geta ekki búið til okkar eigin blöndu. Líka af því að þetta var fáránlega skrítið og erfitt ferli að velja sæðisgjafa. En ég held að okkur hafi tekist ágætlega upp, það er allavegana barn á leiðinni.“

Útiloka ekki ættleiðingu

Segist parið ekki útiloka þann möguleika að ættleiða barn í framtíðinni en að staðan sé nú þannig að samkynhneigðum pörum hérlendis sé nánast ógert að fá barn.

María: „Ísland heimilar ættleiðingar samkynhneigðra eða hinsegin fólks en það eru nánast engin lönd úti í heimi sem heimila ættleiðingar til samkynhneigðra á móti. Þannig að þetta er bara „dead end“ einmitt núna. Svo er ættleiðing yfirhöfuð líka erfið fyrir gagnkynhneigt fólk. Þetta tekur rosalega langan tíma og tekur mikið á fólk. Við útilokum ekkert en þetta er bara hægara sagt en gert af því að við erum tvær konur.“

Ingileif: „Það er alveg ótrúlega sturlað af því að ég er alveg örugg með það að við eigum alla ást í heiminum. Við eigum gott heimili og allar aðstæður okkar eru upp á tíu. Það er fullt af fólki sem að á börn sem er í slæmum aðstæðum. Þrátt fyrir að við séum samkynhneigt par þá þýðir það ekki að við séum slæmir foreldrar. Þess vegna líka gerir það okkur svo sárar þegar umræðan fer út í það að vegna þess að við séum samkynhneigðar þá eigum við ekki rétt á því að eignast börn. Maður sér oft svona komment á netinu: „Hvað eruði að gera barninu með því að alast upp hjá ykkur?“ Við eigum frábært heimili og fullt af ást að gefa. Þetta er svo mikil hugsana villa hjá fólki, að gera ráð fyrir því að af því að við séum tvær konur að þá séum við ekki hæfar til þess að vera foreldrar. Það er mjög sorglegt að sumt fólk hugsi þannig. Við vitum alveg hvernig foreldrar við erum og erum öruggar í því hlutverki.“

María: „Það er löngu búið að ákveða það að normið sé karl og kona, vissulega og við erum undantekningin. En mælikvarðinn á það að vera gott foreldri eða geta gefið gott heimili snýst ekki um það hvort að það séu karl og kona á heimilinu. Það snýst um það hvort þú gefir góðan ramma, ást, umhyggju og skýra leiðsögn. Það hefur ekkert með kynið að gera. Það eru til frábærir pabbar og frábærar mömmur, það eru líka til ömurlegar mömmur og ömurlegir pabbar.“

Allar fyrirmyndir mikilvægar

Þegar Ingileif og María tilkynntu fólki að von væri á viðbót við fjölskylduna fengu þær strax skilaboð frá óviðkomandi aðilum um hvernig þær yrðu að ala barnið upp.

Ingileif: „Við fengum strax skilaboð þess efnis að ef þetta yrði strákur að þá yrðum við að hafa einhverja mjög sterka karlkynsímynd í lífi barnsins sem fengi að hitta barnið reglulega. Þetta fannst okkur skringilegt. Við þekkjum auðvitað fullt af frábærum mönnum sem að munu koma til með að vera inni í lífi þessa barns en ef að það á að vera einhver fókuspunktur þá getur það líka haft skringileg áhrif. Ég held einmitt að af því að strákurinn okkar hefur svona mikið af kvennkynsfyrirmyndum í sínu lífi að það hafi gert það að verkum að hann er mikið í tengslum við sínar tilfinningar. Það gerir hann að frábærum einstaklingi og ég er alveg sannfærð um það að við getum alveg séð um þetta uppeldi. Auðvitað eru allar fyrirmyndir mjög mikilvægar en þetta er skrítinn hugsanagangur.“

María: „Já strákurinn okkar er einmitt ótrúlega öruggur með sínar tilfinningar, er það vont af því að hann er karlmaður? Erum við að brengla hann sem karlmann af því að hann er traustur með sínar tilfinningar? Þetta er svolítið gamaldags hugsun og í raun og veru vandinn við kynjaskiptinguna. Hvað með börn sem eru alin upp af einstæðri móður? Eða eiga ömurlegan pabba? Ég held að það sé bara mjög gott að eiga fyrirmyndir á mörgum stöðum. Það er bara fyndið að þetta sé svona fyrsti varnaglinn sem er settur á okkar uppeldi.“

„Ég held meira að segja að flestir séu ekki á beinu brautinni. Það er stóri sannleikurinn, normið er ekki til“ / Ljósmynd: Hanna

Normið er ekki til

Bæði Ingileif og María hafa verið talsmenn þess hve fyrirmyndir séu mikilvægar í lífi fólks og telja þær ástæðu þess hve seint þær komu út úr skápnum megi meðal annars rekja til þess að þær sjálfar hafi ekki átt neinar fyrirmyndir til þess að spegla sig í.

Ingileif: „Fyrirmyndir eru mjög mikilvægar. Þetta norm almennt, það er líka kannski vandinn. Af hverju er alltaf verið að ganga út frá einhverju normi? Allt sem er eitthvað út fyrir það er svo talið afbrigðilegt. Af hverju þarf alltaf að vera að gera ráð fyrir þessari beinu braut og svo ef þú ferð út af henni þá ertu eitthvað skrítinn.“

María: „Ég held meira að segja að flestir séu ekki á beinu brautinni. Það er stóri sannleikurinn, normið er ekki til. Þeir sem eru á „beinu brautinni“ eru líka alltaf að upplifa eitthvað. Það þurfa allir að takast á við eitthvað. Það er svo mikil pressa sem að fylgir því að hafa þessa ímynd um hið „eðlilega.““

Ingileif: „Við eigum bara að gefa skít í þetta norm og viðurkenna það að við erum öll mismunandi og það er frábært. Við eigum að fagna því að eiga allskonar fyrirmyndir sem að eru svona ólíkar. Það er það sem gerir okkur, að okkur. Það væri heldur ekkert skemmtilegt ef að við værum öll eins og að engin mætti vera neitt öðruvísi. Þetta norm skemmdi fyrir okkur báðum í menntaskóla. Við vorum báðar að reyna að þröngva okkur inn í einhvern kassa sem okkur leið eins og við þyrftum að vera inn í af því að umhverfið sagði okkur það. Okkur langar rosalega mikið að fólk og ungir krakkar geti fagnað því hvað við erum öll ólík og fundist það bara frábært. Hætta að reyna alltaf að niðurlægja annað fólk og hætta að búa til brandara á kostnað annara. Ef að við gætum bara öll hjálpast að sem samfélag að uppræta þetta þá væri það frábært. Þá erum við sáttar. Þetta er okkar markmið í lífinu.“

Greindist með flogaveiki á síðasta ári

Þegar hér er komið við sögu tekur Míló litli sig til og reynir eftir bestu getu að afvegaleiða samræðurnar með mjúku hvolpavæli. Eftir smá klór á magann virðist hann sáttur og umræðan fer yfir í meðgönguna. Ingileif sem sett er þann 23. ágúst næst komandi segir meðgönguna algjöran draum sem gengið hafi lygilega vel.

Ingileif: „Frjóvgunin átti sér stað þann 28. nóvember klukkan 11,“ segir hún og hlær. „Ég fann aðeins fyrir einhverri ógleði í byrjun en ældi samt ekki neitt. Ég var bara randomly að kúgast hingað og þangað Maríu til mikillar gleði. Við vorum kannski úti í búð og þá var ég bara að kúgast yfir öllu. Mér fannst skrítnustu hlutir ógeðslegir en ég finn ekkert svona lengur. Ég er bara að bíða eftir því að það komi bumba, hún er svo lítil enn þá og ég er svo spennt að fá alvöru bumbu.“

„Manni langar líka bara að vera til taks ef eitthvað kemur upp á“ / Ljósmynd: Hanna

María: „Hún er líka heppin að því leitinu til að vera í þessari vinnu núna,“ segir María og vísar til þess að Ingileif starfar sem dómari í þáttunum Gettu betur, sem sýndir eru á föstudagskvöldum. „Það eru útsendingar á föstudagskvöldum en þar inn á milli er hún alveg flex. Þannig að hún getur lagt sig ef hún er þreytt sem er náttúrulega ekki sjálfgefið og öll þessi streita, pressa og álag í samfélaginu okkar í dag er ekkert að hjálpa til.“

Ingileif: „Já læknirinn sagði líka við mig að bara það að kona sé ólétt þá verði hún að tóna sig niður en ég er bæði ólétt og með flogaveiki ég verð því að slaka á. Þetta hefur því verið rólyndislíf hjá mér, bumba og hvolpinum. Meðgangan getur haft áhrif á flogaveikina en ég hef sem betur fer ekki fundið fyrir neinu. Ég er enn þá á lyfjunum mínum en sumar konur triggerast mjög mikið á meðgöngunni og fá fullt af flogum. Ég vona bara að þetta muni haldast svona.“

María: „Það sem virðist triggera flogin eru til dæmis streita, áfengi, fíkniefni og svefnleysi. Við hættum að drekka áfengi, ég ákvað að gera það með henni því mér finnst ekki smart að vera fulli makinn.“

Ingileif: „Ég þvingaði hana ekki í þetta ég lofa, þetta hljómar alltaf svolítið þannig.“ Segir hún og hlær.

María: „Já manni langar líka bara að vera til taks ef eitthvað kemur upp á. Hún má til dæmis ekki keyra svo það var ekki mikil praktík í því að ég væri að drekka. Við erum líka að passa upp á rútínuna okkar. Í rauninni þvingaði þetta okkur í heilbrigðan lífsstíl sem er ekki svo slæmt. Var bara fínt spark í rassinn. Ef að þetta allt er í lagi og hún tekur lyfin sín þá á þetta ekkert að gerast en auðvitað ef þú ferð eitthvað að „djöggla“ þá ertu bara að taka áhættu og það er undir manni sjálfum komið.“

Ingileif: „Einmitt í þessi tvö skipti sem ég hef fengið flog þá hefur það verið þannig. Fyrsta flogið fékk ég fyrir ári síðan, þá vorum við bara sofandi heima og María vaknar upp við það að ég er eins og atriði úr The Exorsist. Þetta er náttúrulega mjög hræðilegt og María hélt að ég væri að deyja. Ég man ekki eftir neinu af því að ég er bara í einhverju meðvitundarleysi á meðan þetta á sér stað. Þarna var ég búin að vera að „djöggla“ of mörgum boltum. Var bæði að skrifa BA ritgerð og að klára nám, var að gera þætti og gefa út lag. Það var allt of mikið að gera og ég svaf hvorki né borðaði. Það gerði það að verkum að ég náði einhverjum þröskuldi.“

María: „Við erum öll með flogaþröskuld. Ef að þú myndir ekki sofa í viku þá fengir þú líklega flog. Hann er mishár hjá fólki og um leið og þú ert búinn að fá eitt flog þá lækkar hann. Í brúðkaupsferðinni okkar í Mexíkó fékk Ingileif svo seinna flogið. Við vorum í tíu klukkustunda dagsferð í rútu og það voru tvær klukkustundir búnar af ferðinni. Það var ekki hægt að snúa við og lá hún á lærunum á mér alla ferðina. Við náðum á læknana heima og þeir sögðu okkur að fyrst að hún væri búin að fá annað flog þá væru 90% líkur á því að þriðja flogið kæmi. Við fórum á spítalann í Mexíkó og fengum lyf og þá áttuðum við okkur á því að þetta væri sjúkdómur. Ég man að ég var alveg pínu pirruð. Fannst lífið okkar svo gott og skildi ekki af hverju þetta þurfti að koma fyrir okkur. Ég fékk alveg smá áfallastreitu og þurfti að tækla það núna í haust. Ég átti erfitt með að sofa og var ótrúlega hrædd um að þetta myndi gerast aftur. Ég var alltaf viðbúin.“

Hræddar að um heilaæxli væri að ræða

Við tók hræðsluástand þar sem Ingileif gekkst undir rannsóknir og grunur um heilaæxli fór vaxandi hjá þeim hjónum.

María: „Fyrst náttúrulega vissi ég ekkert hvað var að gerast og það var spurning hvort hún væri með heilaæxli. Í annað skiptið var ég rólegri. Ég er með mjög lágan óvissu þröskuld og fyrir mér er óvissa það versta sem er til. Sem er ekki mjög gott af því að lífið er ein stór óvissa. En ég er alltaf að þjálfa mig í því, þetta er bara partur af minni áfallasögu vegna slæmra uppeldisskilyrða. Það að þetta geti gerst hvenær sem er, er það sem er erfiðast fyrir mig og sérstaklega núna á meðgöngunni og þegar hún verður með lítið barn. Ég er að æfa mig í því að treysta og að það sem gerist það gerist. Við vinnum svo bara úr því.

Ingileif: „Ég hef ekki á neinum tímapunkti pirrað mig á þessu eða fundist þetta vera einhver hlutskipti sem ég þarf að takast á við. Strax í upphafi var ég bara mjög fegin að þetta var ekki heilaæxli þar sem þetta er eitthvað sem hægt er að takast á við. Þetta er ekki það versta sem hægt er að lenda í.“

María: „Ingileif er almennt mjög vel innréttuð manneskja, það þarf mikil til þess að hún fari í neikvæðni eða pirring. Ég er hinsvegar bara algjört keis hvað það varðar. Hún er mjög góð að díla við mig þegar ég er alltaf að búast við því versta,“ segir hún og hlæja þær báðar saman.

Hafa heyrt allskonar hluti um sig

Aðspurðar út í það hvernig það sé að lífa jafn opinberu lífi og fjölskyldan hefur gert undanfarin ár segjast þær báðar gleyma því reglulega. Þær verði hissa þegar fólk labbi upp að þeim eða vinki þeim á förnum vegi.

María: „En á sama tíma þegar við fáum mikið af skilaboðum um að eitthvað sem við séum að gera eða höfum gert hafi gert það að verkum að aðilar hafi þorað að koma út úr skápnum eða bara þorðu að horfast í augu við einhverja hluti þá þykir okkur ofboðslega vænt um það.“

Ingileif: „Já það er tilgangur okkar með þessu öllu saman.“

María: „Ég byrjaði í gegnum druslugönguna á sínum tíma, þá talaði ég upphátt um kynferðisofbeldi og ég er enn þann dag í dag að fá skilaboð frá fólki sem vill fá ráð eða þarf einhverja hálp. Þegar ég fæ svona skilaboð þá hugsa ég að við séum að gera rétt með því að tala um þetta. Við erum líka með nógu þykkan skráp til þess að taka við leiðindunum. Auðvitað höfum við heyrt allskonar hluti um okkur, það er alltaf þessi þórðagleði í fólki að geta ekki bara samglaðst.“

Ingileif: „Þegar við vorum tiltölulega ný byrjaðar saman þá heyrðum við út undan okkur að fólk væri að tala um það að við værum að birta svo ótrúlega mikið af myndum af okkur saman, að kyssast og svona. Þetta efldi okkur eiginlega svolítið í því að vilja gera meira í því af því að bara það eitt og sér að við setjum mynd af okkur á netið vera að kyssast er smá aktívismi út af fyrir sig. Við megum líka alveg kyssast án þess að einhverjum finnist það skrítið eða kippi sér upp við það.“

María: „Það hljómar kannski asnalega en við erum ekki að gera það fyrir okkur heldur til þess að búa til platform af því að þegar við vorum að alast upp þá áttum við engar fyrirmyndir. Í dag finnst mér bara forréttindi að geta verið það örugg að við getum gefið þannig af okkur. Auðvitað takmörkum við og sínum ekki hvað sem er. Við erum alveg meðvitaðar um það og á tímabili tókum við okkur algjörlega pásu frá því að vera svona opinberar. Þegar Ingileif var á Snapchat þá var komin svo mikil tilætlunarsemi í fólk.“

Ingileif: „Já fólk var líka bara að koma með ályktanir um okkur hafandi séð eina mínútu af öllum deginum inni á Snapchat.“

Héldu þriggja daga ástarveislu

Síðasta sumar giftu María og Ingileif sig við hátíðlega athöfn á Flateyri. Þar slógu þær til þriggja daga veislu og fjölguðu bæjarbúum um helming. Fyrir veisluna höfðu þær farið til sýslumanns sem gaf þær saman og kalla þær brúðkaup sitt ástarveislu.

María: „Það eru ekkert margir sem sjá hinsegin brúðkaup og við gerðum líka í því að brjóta allar hefðir. Við löbbuðum saman niður að altari með mæðrum okkar og rugluðum í öllu svoleiðis. Af því að maður má það. Þetta var bara gott partý, ástarveisla.“

Ingileif: „Það var líka svo ótrúlega gaman að í kjölfar þess að við sýndum frá brúðkaupinu þá var svo mikið af fólki sem sendi okkur skilaboð og þakkaði okkur fyrir. Sagði okkur að þetta hafi sýnt þeim að þau geti líka á einhverjum tímapunkti gifst manneskjunni sem þau elska. Öll þessi skilaboð eru okkur svo mikils virði og fær okkur til þess að halda áfram af því að við þekkjum það að vera í þessum sporum.“

„Aldrei þykjast vera eitthvað annað en þú ert og gerðu hlutina frá hjartanu“ / Ljósmynd: Hanna

Leyndarmál velgengninnar er einlægni

Bæði Ingileif og María eru metnaðarfullar í því sem þær taka sér fyrir hendur og hafa þær báðar náð lagt í þeim hlutum sem þær hafa tekið sér fyrir hendur. Blaðakona forvitnaðist um velgengni þeirra og velti því fyrir sér hvert leyndarmálið væri.

María: „Einlægni og hreinskilni. Aldrei þykjast vera eitthvað annað en þú ert og gerðu hlutina frá hjartanu. Þetta hljómar rosalega klisjukennt en fólk sér í gegnum það um leið og þú ert farinn að gera eitthvað sem er ekki einlægt.

Ingileif: „Já ég tek undir með því og líka bara það að gera hluti sem þú trúir á sjálfur. Ef þú ert að gera hluti sem þú brennur fyrir þá leiðir það þig á staði þar sem þú nærð að blómstra.“

María: „Ekki afsaka þig, bara láta vaða. Ef einhver gagnrýnir þig þá er það bara þannig.“

Ingileif: „Eins og þegar Hinseginn leikinn byrjaði þá hefði verið svo auðvelt að hætta ef við hefðum ekki haft óbilandi trú á þessu. Metnaður okkar leiddi okkur svo áfram og í kjölfarið fengum við hugmyndina að sjónvarpsþáttum. Við fórum sjálfar með hugmyndina til Rúv og einmitt af því að við höfðum þennan drifkraft þá held ég að við höfum verið ennþá meira sannfærandi fyrir vikið. Lykillinn er að gera hluti sem þú hefur ofurtrú á, ég held að það sé það sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Svo verður maður að hafa trú á sjálfum sér í gegnum allt saman. Auðvitað getur maður dottið í sjálfsefa og við erum báðar sekar um það. En við höfum sem betur fer alltaf hvor aðra.“

Vinirnir kalla þær miðaldra

Þegar talið berst að uppáhalds iðju fjölskyldunnar hlæja þær báðar og segjast oft vera kallaðar miðaldra af vinum og fjölskyldu. Kósíkvöld á föstudögum sé heilög stund og að grípa í spil um helgar.

María: „Svo förum við mikið vestur og erum dugleg að fara út úr bænum. Það að skapa minningar er í raun okkar uppáhalds iðja.“

Ingileif: „Já það helst líka svolítið í hendur við vildi okkar í lífinu. Þegar við vorum að gifta okkur þá afþökkuðum við allar gjafir því við vildum frekar þyggja pening í upplifunarsjóð. Það gerði það að verkum að við gátum farið í geggjaða brúðkaupsferð. Veraldlegir hlutir skipta okkur ekki miklu máli og okkur langaði ekki að fara inn í búð og velja okkur stell sem yrði svo rykfallið.“

María: „Þó það sé auðvitað eitthvað sem hentar mjög mörgum.“

Ingileif: „Já, það hentaði okkur bara ekki. Við erum ekki mikið að versla okkur hluti og erum mjög nægjusamar. Auðvitað viljum við hafa fínt í kringum okkur og finnst gaman að kaupa fína hluti annað slagið en við til dæmis verslum örsjaldan einhver föt.“

María: „Það er einmitt mjög þægilegt að vera lesbía hvað það verðar, við deilum bara fataskáp. Pössum okkur að fitna alltaf saman og grennast alltaf saman. Þannig að núna er ég að æfa mig í því að fitna með henni,“ segir hún og þær skella báðar uppúr.

Hvað framtíðarhorfur varðar segjast þær bíða spenntar eftir því að verða vísitölufjölskylda í ágúst. Þær muni halda áfram að rækta sig og vefja sig ást og fjölskyldu.

María: „Það er ekkert sjálfgefið að vera með góða líkamlega heilsu eða geðheilsu og lykillinn er svolítið þetta Zen sem við erum að læra á. Þessi nýji lífstíll sem við erum að fikra okkur áfram í og er bara fjandi góður.

Ingileif: „Okkar ráðleggingar til ungra kvenna er líka það að slaka á og passa sig ekki að keyra sig út. Maður vill oft sigra heiminn og gleypa hann í einum bita. Tekur að sér endalaust af verkefnum af því að maður er svo þakklátur fyrir það að fá tækifæri. Maður verður líka að kunna að meta rólegheitin inni á milli og vera þakklátur fyrir þau. Það var auðvitað ákveðið áfall að greinast með þennan sjúkdóm en ég er samt mjögþakklát fyrir það. Það dró okkur niður á jörðina og fékk mig til þess að velta því fyrir mér hvort ég væri að gera hluti fyrir sjálfa mig eða aðra. Það er svo mikilvægt að finna jafnvægi í lífinu og fara ekki út í neinar öfgar.

María: „Ætli við séum ekki bara að fara að gleypa heiminn í litlum bitum. Ekki í einum bita.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mesta snilldin og algjört klúður 21. aldarinnar

Mesta snilldin og algjört klúður 21. aldarinnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi Tryggva kom sjálfum sér á óvart: „Gaman að segja stórt fokkjú við allar hræðsluraddirnar“

Sölvi Tryggva kom sjálfum sér á óvart: „Gaman að segja stórt fokkjú við allar hræðsluraddirnar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Felix misboðið í útlöndum: „Þá mæta fíflin, draga upp ógeðið“

Felix misboðið í útlöndum: „Þá mæta fíflin, draga upp ógeðið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Himnasendingin sonurinn blómstrar og stórfjölskyldan í skýjunum“

„Himnasendingin sonurinn blómstrar og stórfjölskyldan í skýjunum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

24 ósiðir sem þú ættir að venja þig af fyrir þrítugt

24 ósiðir sem þú ættir að venja þig af fyrir þrítugt