fbpx
Laugardagur 24.október 2020
Fókus

Frægar ritdeilur – Rifist um holdafar og geðveiki: „Við myndum aldrei gúddera þennan ógeðslega sirkus fyrir neinn annan hóp einstaklinga”

Fókus
Laugardaginn 9. nóvember 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og aktívistinn Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hafa átt í mikilli og hatrammri ritdeilu síðustu daga sem kviknaði út frá sigri leikarans Atla Rafns Sigurðssonar á Borgarleikhúsinu fyrir héraðsdómi. Einkenni ritdeilna er að oft ganga þær ansi langt, frá manneskju til manneskju, og oft fæst enginn botn í málið annar en sá að þeir sem deila neyðast til að vera sammála um að vera ósammála. DV fannst því tilvalið að taka saman nokkrar þekktar ritdeilur í gegnum tíðina.

„Vitið þér, að maðurinn yðar er geðveikur?“

Jónas frá Hriflu.

Það er ekki hægt að taka saman ritdeilur á Íslandi án þess að minnast á „Stóru bombuna“ árið 1930. Sú ritdeila var á milli Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem þá var dómsmálaráðherra, og Helga Tómassonar, yfirlæknis á Kleppi. Jónas var óvinsæll í embætti meðal lækna, sér í lagi vegna skipana í læknisembætti sem lyktuðu af spillingu. Helgi lýsti því yfir að hann teldi að hegðun Jónasar bæri merki um geðveiki og hvatti hann til að segja af sér embætti. Nafnið „Stóra bomban“ festist við þessa deilu en það er dregið úr grein sem Jónas skrifaði í Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, undir fyrirsögninni Stóra bomban. Í greininni lýsti Jónas heimsókn Helga og gagnrýndi meðal annars að Helgi hefði kallað hann geðveikan án skoðunar.

„Er konan mín var komin inn fyrir þröskuldinn grípið þér þétt með báðum höndum um handleggi hennar og segið dauðaþungum og alvarlegum rómi: Vitið þér, að maðurinn yðar er geðveikur?“ skrifar Jónas. Síðar sama ár skrifaði Helgi lýsingu á téðri heimsókn frá sínu sjónarhorni. Munurinn á þessum tveimur greinum var að í grein Helga fullyrti hann að eiginkona Jónasar hefði verið sammála um sjúkdómsgreininguna og beðið um ráð fyrir eiginmann sinn.

Sú merkasta

Einar Kvaran.

Ritdeila Sigurðar Nordal og Einars H. Kvaran ár árunum 1925 til 1927 er talin ein sú merkasta sinnar tegundar í Íslandssögunni. Svo merkilega að hún var gefin út í bókinni Skiptar skoðanir. Deilan fór fram í tímaritunum Skírni, Iðunni og Vöku og snertist um skáldskap og lífsskoðanir Einars. Sigurður benti sjálfur á í einni af greinum sínum að þetta væri deila tveggja kynslóða, en Einar stóð í ýmsum ritdeilum á sínum ferli, oft afar hatrömmum. Ritdeila hans við Sigurð einkenndist hins vegar af rökfestu og aga.

Falskur tónn

Bubbi Morthens skaust rækilega upp á stjörnuhimininn á áttunda áratug síðustu aldar og í upphafi þess níunda var hann orðinn vinsælasti tónlistarmaður landsins, en jafnframt sá umdeildasti. Þegar önnur plata Utangarðsmanna, Geislavirkir, kom út stóðu yfir miklar ritdeilur í dagblöðum um texta Bubba. Ekki voru allir á eitt sáttir um kjaftinn á rokkaranum og haldið var málþing í Háskólabíói um hvort textarnir væru leirburður eða ljóðlist. Bubbi gaf lítið fyrir þessar deilur. Eftir að Utangarðsmenn lögðu upp laupana magnaðist upp önnur áhugaverð ritdeila í lesendadálkum Morgunblaðsins um Bubba. Tóku þar til máls ónefndir einstaklingar sem skýldu sér á bak við nöfnin Hr. Flinkur, UB 40, Egóisti og Friðarsinni.

Árið 2008 spratt svo upp hörð ritdeila á milli Bubba og Birgis Arnar Steinarssonar, sem oft er kallaður Biggi í Maus. Þá var hann ritstjóri tímaritsins Monitor. Upphaf deilunnar var í leiðara Bigga þar sem hann skrifaði eftirfarandi.

„[Bubbi] hefur aldrei verið leiðandi afl. Hann er eins og svampur sem sýgur umhverfi sitt inn og mótar sig og skoðanir sínar eftir því hvað er í gangi hverju sinni.[…] Þegar Ísland var í kreppu og allt var skítt stóð Bubbi Morthens upp úr hópnum og hélt í fána pönksins sem aðrir héldu þó á lofti.“

Bubbi Morthens.

Þessu mótmælti Bubbi á heimasíðu sinni.

„Biggi verður að kyngja því að staðreyndin er sú að með Ísbjarnarblús breytti ég íslenskri tónlistarsögu ásamt Utangarðsmönnum. Sem og nokkrum öðrum sem fylgdu í kjölfarið. Frábið ég mér fleiri tilraunir til þess að falsa söguna frá manni sem hefur aldrei getað haldið lagi og hefur unnið sér það til frægðar að syngja falskast allra íslenskra tónlistarmanna á seinni tímum. Sá falski tónn hrakti hann frá míkrófóninum í það að gerast ritstjóri Monitors þar sem sami falski tónninn hljómar í skrifum hans.“

Birgir Örn Steinarsson.

Jarðvegur fasisma

Aktívistinn og fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir og presturinn Davíð Þór Jónsson fóru í hár saman árið 2011. Aðdragandinn var pistill sem Davíð Þór skrifaði í Fréttblaðið þar sem hann gagnrýndi það að nöfnum vændiskaupenda yrði safnað saman og komið til lögreglu. Þetta gagnrýndi María Lilja í pistli á vefsíðunni Innihald. Davíð Þór hótaði í kjölfarið að kæra Maríu Lilju fyrir að vega að æru hans með því að kalla tímaritið Bleikt og blátt, sem Davíð Þór ritstýrði á árum áður, klámbækling „þar sem líkamar kvenna voru hlutgerðir og settir upp sem söluvara.“ Krafðist hann afsökunarbeiðni frá Maríu Lilju sem hún varð ekki við. Davíð Þór baðst hins vegar afsökunar á því að hafa hótað Maríu Lilju og með því dregið umræðuna niður á lægra plan. Í afsökunarbeiðninni hnykkti hann hins vegar á þessu:

Davíð Þór Jónsson.

„Staðreyndin er nefnilega sú að fullt af fólki er dauðhrætt við að leggja orð í belg af ótta við viðbrögð eins og grein þín var. Og það, María Lilja, er jarðvegur fasismans. Þegar fólk þorir ekki að segja skoðanir sínar af ótta við ofbeldi er illt í efni. Þá er ástæða til að staldra við og hugsa sinn gang. Ég verð því að segja eins og er að ásakanir þínar um tilraunir til þöggunar þóttu mér koma úr hörðustu átt. Þar hjó sá er hlífa skyldi.“

Málið fór svo þannig að Innihald tók pistil Maríu Lilju úr birtingu því ritstjórar töldu hann brjóta í bága við siðareglur vefjarins og báðu Davíð Þór afsökunar.

María Lilja Þrastardóttir.

„Sorry allir sem móðguðust“

Stuttar en snarpar ritdeilur áttu sér stað á milli leikkonunnar Ágústu Evu Erlendsdóttur og áhrifavaldsins Manuelu Óskar Harðardóttur árið 2017. Þær ritdeilur voru færðar inn í nútímaheim samfélagsmiðlanna og hófust á því að Manuela birti mynd af sér á Instagram, sem nú hefur verið fjarlægð. Við myndina skrifaði leikkonan Ágústa Eva einfaldlega: „Borða ?“ og gaf þar með í skyn að henni þætti Manuela of grönn. Manuela greip á það ráð að svara leikkonunni í gegnum Snapchat.

Manuela Ósk Harðardóttir
Manuela Ósk.

„Þið heyrið í henni ef þið eruð eitthvað óviss með your body. Hún veit hvernig allir eiga að líta út,“ sagði Manuela og bætti við að þær stöllur hefðu rætt málin betur í einkaskilaboðum á Facebook. Það gekk ekki betur en svo að Ágústa Eva sleit þeim samskiptum og lokaði á Manuelu á Facebook, að sögn áhrifavaldsins. Manuela hvatti konur enn fremur til að standa saman og sagðist ekki þekkja Ágústu Evu, þess vegna hefðu ummælin komið henni í opna skjöldu.

„Þess vegna finnst mér það óskiljanlegt að þetta hafi gerst. Ég næ ekki utan um það. Ef ég væri búin að bæta á mig, hefði hún kommentað á myndina mína: Farðu í megrun, ekki borða svona mikið, róum okkur á gafflinum,“ sagði Manuela á Snapchat. Svo fór að Ágústa Eva baðst afsökunar á Instagram og eyddi fyrri ummælum sínum við myndina.

„Þetta var vel meint. Sorry allir sem móðguðust,“ skrifaði leikkonan.

Ágústa Eva Erlendsdóttir.

X D(avíð)

Ein umfangsmesta ritdeila nútímans er án efa ritdeila Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Sjálfstæðisflokksins. Davíð hefur verið hallur undir boðskap Miðflokksins og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hefur margoft gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson. Hefur vefurinn Eyjan, sem er hluti af DV, fullyrt að Davíð fjalægist flokk sinn með hverjum leiðara og Reykjavíkurbréfi. Sérstaka athygli vöktu skrif Davíðs um níu tíu ára afmæli Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu þar sem hann vandaði flokknum ekki kveðjurnar og sagði það ekkert „endilega harmsefni“ ef honum yrði útrýmt. Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, tók Davíð á beinið vegna skrifanna.

Davíð Oddsson.

„Bréfaskriftir geta verið hættulegar af því þær koma upp um mann, – lýsa því í hvaða sálarástandi maður er þá stundina. Og auðvitað hefnir það sín, ef illa liggur á manni, – þá miklar maður hlutina fyrir sér og freistast til að fara ekki rétt með. Faðir minn kenndi mér að senda ekki slík bréf frá mér fyrr en að morgni, sem var holl ráðlegging og olli því að þau voru aldrei send,“ skrifaði Halldór.

Halldór Blöndal. Ljósmynd: DV/Hanna

Annar flokksmaður sem hefur gagnrýnt Davíð er Þorkell Sigurlaugsson, formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Velti hann upp í pistil fyrir nokkru hvort Davíð væri fíkill.

„Ég setti inn úrklippur af greinum fyrir þá sem eru illa lesnir og merkti með gulu „góða spretti“ úr Reykjavíkurbréfinu, en skrifin geta varla komið frá manni sem er í eðlilegu andlegu jafnvægi. Höfundur Reykjavíkurbréfsins hefur áhyggjur af dalandi laganámi í landinu, en hann ætti frekar að leita sér aðstoðar við skrif sem eru orðin ávanabindandi fíkn og farin að skaða höfundinn eins og svæsnasti e-coli vírus úr ís frá Efstadal II. Það sem er verra, hann er farinn að skaða fjölda Íslendinga, því eins og forseti Filippseyja, sérstakur aðdáandi höfundar Reykjavíkurbréfsins sagði;, „.. þá borða Íslendingar bara ís“! Ég þvoði mér um hendurnar eftir að lesa Morgunblaðið að þessu sinni. Þetta Reykjavíkurbréf er mikil hrákasmíð. Ég sé mikið eftir þeim trjágróðri sem felldur hefur verið til að prenta það í 12.000 eintökum svo ég vitni til sambærilegrar gagnrýni Davíðs Oddssonar á endurreisnarskýrslu Flokksins sem Vilhjálmur Egilsson, veitti forstöðu árið 2009.“

Hlustar ekki á væl

Skammvinnt uppnám varð í maí árið 2015 þegar að leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson tjáði sig um rapparann Sævar Poetrix og þá ákvörðun hans að mæta ekki fyrir dóm vegna máls um vörslu á kannabis.

Jóhannes Haukur.

„Um leið og ég sé hóp af hassreykingamönnum sem eru pródúktívir einstaklingar sem leggja eitthvað til samfélagsins og gera eitthvað af viti, þó það sé ekki nema að sinna einhverju starfi af svo mikið sem örlitlum metnaði, þá er ég til í að fara að hlusta á svona málflutning. Þangað til það gerist, hlusta ég ekki á svona væl,“ skrifaði Jóhannes.

Þótt einhverjir hafi tekið undir orð leikarans voru margir sem úthúðuðu honum, sögðu hann afleitan leikara og fóru beinlínis í fýlu. Sævar svaraði leikaranum í pistli og sagði Jóhannes ekkert hafa með að segja öðrum hvernig ætti að lifa lífinu. Engir sérstakir eftirmálar urðu af þessu uppnámi og er Jóhannes Haukur orðinn heimsfrægur leikari í dag.

„Hafið alla heimsins skömm fyrir!“

Stefanía Fjóla Elísdóttir, móðir Áka Pálssonar, keppanda í Biggest Loser, gagnrýndi raunveruleikaþáttinn harðlega í viðtali við DV árið 2017. Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, tjáði sig um þættina á Facebook-síðu sinni í kjölfar viðtalsins.

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir. Mynd: Hanna/DV

„Tilgangur þáttanna hefur aldrei verið annar en að lítillækka og smána feitt fólk. Við búum því miður í samfélagi þar sem það selur. Og því meira brútal sem aðferðirnar eru, því meiri lítilsvirðing sem þjálfararnir sýna, því meira áhorf. Við myndum aldrei gúddera þennan ógeðslega sirkus fyrir neinn annan hóp einstaklinga en feitt fólk,“ skrifaði Tara og bætti við: „Þetta er hreinn og klár viðbjóður og þeirra sem standa að þessum þáttum mun verða minnst í sögubókum sem helstu stoða fitufordóma hér á landi. Skjárinn, Evert, Gurrý. Hafið alla heimsins skömm fyrir!“
Gurrý, einn af þjálfurunum í þáttunum, svaraði fyrir sig í útvarpsviðtali og vísaði ásökunum á bug.

„Ég held að það séu mjög margir sem sjái að við erum raunverulega að gera mjög góða hluti. Nema Tara ætlar að vera svolítið sein að fatta það,“ sagði hún og hélt áfram: „Ég myndi segja við hana Töru að það sé kominn tími til að hún og hennar samtök fari að skrifa eitthvað uppbyggilegt. Það eina sem þau gera er að gagnrýna aðra, í staðinn fyrir að skrifa greinar og hvetja fólk til að vera sátt í eigin skinni. Hún gerir það aldrei. Hún sækir bara í athygli við að dissa aðra og dæma hvað hinir eru að gera.“

Gurrý Jónsdóttir.

Tara svaraði Gurrý síðan á Facebook.

„Ætlið þið, sem fagfólk sem ber siðferðislega ábyrgð gagnvart skjólstæðingum ykkar, virkilega að yppa öxlum og láta sem ekkert sé? Ætlið þið að standa frammi fyrir fólki sem þið hafið skaðað, hlusta á það segja við ykkur: „það sem þið eruð að gera veldur mér líkamlegri og andlegri vanlíðan“ og halda áfram að yppa öxlum? Eða það sem verra er segja þessu fólki að það sé bara að bulla? Afneita upplifunum þeirra og reynslu, ásamt hegðun ykkar? Hvernig samræmist það faglegri skyldu ykkar sem lærðir einkaþjálfarar? Eða einfaldlega siðferðisvitund ykkar sem manneskjur?“ skrifaði hún og bætti við: „Þið eruð ekki að vinna faglegt starf sem er í samræmi við gagnreyndar aðferðir. Og þegar ykkur er bent á það, hvað gerið þið þá? Jú þið farið í útvarpsþátt til að drulla yfir gagnrýnendur ykkar á ómálefnalegan hátt. Og haldið þannig bara sama striki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hann vill líta út eins og Barbie-dúkka – Á erfitt með að finna kærustu

Hann vill líta út eins og Barbie-dúkka – Á erfitt með að finna kærustu
Fókus
Í gær

„Það voru ofsatrúarhópar sem réðust á okkur og lömdu okkur með biblíunni“

„Það voru ofsatrúarhópar sem réðust á okkur og lömdu okkur með biblíunni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Húsið hafði ekki verið þrifið árum saman – Ótrúlegar „fyrir og eftir“ myndir

Húsið hafði ekki verið þrifið árum saman – Ótrúlegar „fyrir og eftir“ myndir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Táningurinn með lengstu leggi í heimi

Táningurinn með lengstu leggi í heimi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þetta gerði Alexandra þegar hún fékk óumbeðna typpamynd – „Hann kúkaði í sig“

Þetta gerði Alexandra þegar hún fékk óumbeðna typpamynd – „Hann kúkaði í sig“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristófer ætlaði að kaupa tólf dósir af Pepsi Max Lime – Sjáðu hvað birtist á tröppunum

Kristófer ætlaði að kaupa tólf dósir af Pepsi Max Lime – Sjáðu hvað birtist á tröppunum