fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Viktor tekst á við kvíða og fer einn í heimsreisu

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 12. maí 2019 13:00

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viktor Freyr Jogensen er tuttugu og tveggja ára gamall Reykvíkingur sem glímt hefur við mikinn kvíða allt frá blautu barnsbeini. Kvíðinn hefur heltekið líf Viktors í fjölda ára og hann lifði í stanslausum ótta við framtíðina allt þar til fyrir einu ári, þegar augu hans opnuðust og hann fór að sjá hvernig lífið hafði farið fram hjá honum.

Þá hóf Viktor mikla sjálfsvinnu og tókst á við margs konar verkefni til þess að yfirstíga óttann. Fljótlega fóru hlutirnir að skýrast almennilega og draumar framtíðarinnar fóru að taka á sig mynd. Það var þá sem Viktor tók þá ákvörðun að sleppa tökunum á óttanum og hoppa út í djúpu laugina. Hann pantaði sér flugmiða aðra leiðina til Noregs og það eina sem hann hyggst taka með sér verður reiðhjól, tjald og myndavél. Áætluð brottför Viktors er þann 15. maí í næstu viku og ætlar hann sér að hjóla einn í kringum heiminn á rúmlega einu ári. Segir Viktor í viðtali við blaðamann að heimsreisan sé aðeins upphafið að stórum draumum hans.

„Ég gekk í skóla og átti nokkuð venjulegt líf. Ég man í raun ekki mikið eftir æskunni þannig séð en ég man eftir að hafa verið á svolitlu flakki. Skipti um skóla og flutti oft. Ég greindist ungur með ADHD og er með mikinn kvíða sem hefur hrjáð mig afskaplega mikið í gegnum tíðina. Ég er í rauninni bara knúinn áfram af kvíða, það er svolítið svoleiðis,“ segir Viktor einlægur.

Ég var alltaf svo hræddur við framtíðina og það kom mér á svolítið slæman stað. / Mynd: Hanna

Alltaf verið hræddur við framtíðina

Viktor segist hafa verið lengi að reyna að koma sér fyrir í lífinu. Hann hafi ekki vitað hvað hann vildi gera með líf sitt og stefnuleysið verið allsráðandi.

„Allt mitt líf hef ég verið í lítilli skel, ef svo má segja, og alltaf verið svolítið hræddur. En ég átti samt marga drauma sem mig langaði að láta rætast en ég þorði aldrei að láta verða af þeim. Ég var alltaf svo hræddur við framtíðina og það kom mér á svolítið slæman stað. Ég lýsi þessu svolítið eins og ég hafi verið farþegi í einhverri rútu á flakki og vaknaði svo bara hér og þar. Þannig var hausinn á mér og ég vissi ekkert hvert ég var að stefna eða hvað ég vildi verða.“

Fyrir rúmlega ári vaknaði Viktor skyndilega í fyrsta skiptið upp og fékk nóg af því að lifa lífinu á þennan hátt.

„Ég vaknaði þá upp og vissi hvað mig langaði að gera. Ég sá það í afar skýrri mynd og það var ekki neinn kvíði á bak við það. Vinnan í sjálfum mér hefur eiginlega verið meira ferðalag núna þetta ár, heldur en öll æska mín. Stefnan að því sem mig langar að gera, ekki bara þessi ferð, en hún er einungis hluti af öllu því sem mig langar að gera. Hún er upphafið að einhverju risastóru.“

Upplifði stefnuleysi og hræðslu

Aðspurður út í viðhorfsbreytinguna segir Viktor hana hafa verið meðferðarráðgjafa að þakka, sem hafi náð til hans og fengið hann til þess að sjá lífið í öðru ljósi.

„Allt mitt líf þá hef ég verið svolítið, „ekki neinn“. Eða í raun mjög margir, en ekki með neina stefnu,“ segir Viktor. „Þessi ráðgjafi náði til mín á þann hátt að hann fékk mig til að snúa höfðinu algjörlega við. Hann sýndi mér hvað lífið hafði farið snögglega frá mér og fékk mig til þess að sjá að ég hafði bara verið einhver ferðalangur í eigin lífi. Á því augnabliki áttaði ég mig og varð skíthræddur. Ég sá að ég var ekki að stefna neitt, ég vissi ekki hver ég var eða hvað ég var að gera. Það blossaði upp smá neisti sem fór svo af stað og fljótlega fóru dagarnir að líða og ég velti því fyrir mér hvað mig langaði virkilega að gera og reyndi að móta mynd af sjálfum mér. Það var svo stórt augnablik fyrir mig þegar hann fékk mig til þess að sjá þetta, að ég fór í svakalegt kvíðakast og þá fyrst fór ég að taka eftir því hvað ég var í raun kvíðinn. Ég hafði aldrei séð það áður. Síðan fór ég að taka eftir fullt af hlutum hjá sjálfum mér sem mig langaði að laga og bæta. Svo ég ákvað að tækla þetta á hverjum degi. Ég hugsaði með mér hvernig ég gæti lagað þetta og hvernig ég gæti orðið sú manneskja sem mig langar að vera. Hægt og rólega fór ég að mynda mér það líf sem mig langar að lifa en auðvitað komu fjölmargar hraðahindranir. Ég ákvað að taka öllu með opnum örmum og er búin að reyna margt. Ég er búinn að lesa mikið um tilfinningar og ég hef komist að því að ég var bara dofinn. Ég hélt áfram þangað til ég sá loksins skýra mynd af draumalífinu mínu og nú stefni ég að því marki.“

Viktor leggur af stað í heimsreisu þann 15. maí með hjól, tjald og myndavél. / Mynd: Hanna

Lærir mest á því að glíma við kvíðann

Að ferðast í kringum heiminn hefur verið langþráður draumur Viktors en vegna kvíðans þorði hann aldrei að hugsa um það.

„Ég bara mokaði yfir það. Ég var svo hræddur og hugsaði stanslaust um framtíðina. En fyrir um hálfu ári tók ég ákvörðun og hef unnið statt og stöðugt að þessum draumi. Ég hef kynnst svo mörgu fólki sem er að hjálpa mér í kringum þetta og það hefur svo mikið gerst sem ég bara skil ekki. Ég hélt að ég væri sjálfur að fara að axla alla ábyrgðina á þessu, en ég er búinn að læra mjög vel að treysta á hlutina, að sjá að hlutirnir séu að gerast. Ég er búinn að sá þeim fræjum sem ég get og núna sé ég hvað þetta er að verða stórt. Ég er auðvitað búinn að lenda í ýmislegu og hef séð fram á það að ég muni ekki geta farið, en ég held alltaf fast í þennan draum – og þessi kvíði, hann á ekki séns í mig núna. Hann reynir og það koma augnablik þar sem ég hugsa: „Jæja, eitt gott slys væri bara fínt núna. Bara ef ég slít vöðva þá væri það bara flott.“ En þannig hefur kvíðinn alltaf verið hjá mér. Hann tekur alla framtíðina frá mér og reynir að halda mér öruggum,“ segir Viktor sem getur í dag hlegið að þeim hugsunum sem kvikna stundum upp vegna kvíðans.

„En ég elska að berjast við hausinn á mér. Það er svo gaman að glíma við kvíðann og ég sé hann bara sem vin minn í dag. Hann mótar mig, reynir að níðast á mér og stjórna mér á hverjum degi, en ég tekst á við ýmis skrítin verkefni í staðinn. Ég hef til dæmis alltaf hatað kulda af því að hausinn á mér var alltaf að segja mér að kalt væri vont. Ég ákvað að fara á Winhof-kuldanámskeið og takast á við kuldann. Svo hef ég gengið upp á Esjuna á tánum. Þá var ég að lesa bókina eftir hann Sölva þar sem hann talar um þetta og ég ákvað að prófa. Hausinn á mér sagði stöðugt við mig: „Hvað ertu að gera, drullaðu þér niður, ertu ekki að grínast maður!“ En ég komst alla leið upp og fór aftur niður. Ég svelti mig líka í fimm daga og drakk aðeins vatn. Það gerði ég af sömu ástæðu. Ég finn með hverjum deginum að ég er að verða sterkari andlega og læri að lækka þessa kvíðarödd. En mér finnst líka gott þegar hún öskrar á mig, því þá læri ég svo mikið.“

Undirbýr sig fyrir það versta en vonar það besta

Undanfarna sex mánuði hefur mikill undirbúningur farið í heimsreisu Viktors og hann segist eiga erfitt með að átta sig á hvort allt sé tilbúið eða ekki.

„Það er allt tilbúið hjá mér andlega og líkamlega en ég veit í rauninni ekki hvað mig gæti vantað, af því að ég er að fara í ferðalag þar sem allt getur gerst. Ég hætti að skipuleggja ferðalagið fyrir stuttu af því að það var maður sem ráðlagði mér að fara út með ekkert plan. Gera bara hlutina sem bjóðast og gera þá vel. Ég gerði því aðeins lauslegt plan og ég leyfi mér svo að breyta ef ég vil. En það er mikill undirbúningur sem þarf fyrir svona ferðalag, samt sem áður, sérstaklega þegar þú ert að glíma við kvíða. Ég þarf alltaf að undirbúa mig fyrir það versta en vona það besta.“

Viktor sagði upp vinnu sinni fyrir þremur mánuðum. Hann segir það áhættu sem hann hafi orðið að taka til þess að geta undirbúið sig nóg. Hann leitaði sér ráða hjá Kristjáni Gíslasyni sem ók í kringum heiminn á mótorhjóli. Einnig þurfti hann að fá sprautur, ferðaleyfi og fleira.

Ég vona að ég geti reddað mér, það hljóta að vera til dekk í Ítalíu eða skrúfjárn í Þýskalandi.“ / Mynd: Hanna

Langar að hjálpa fólki

Viktor tók þá ákvörðun að byrja ferðalag sitt í Noregi þar sem móðir hans býr og teiknaði hann svo upp gróft plan af ferðaleið í gegnum heiminn sem hann getur farið eftir ef til þess kemur.

„Endapunkturinn verður í New York þaðan sem ég flýg heim. Ég er ekki búinn að kaupa miðann heim svo ég er ekki í neinni keppni við tímann. Ég er bara með þetta grófa plan og reikna með því að vera í rúmt ár á ferðinni. Eini staðurinn sem ég stoppa lengi á er Ítalía en ég er mjög spenntur fyrir því. Þar þekki ég marga sem starfa sem kokkar en sjálfur hef ég kunnáttu í eldhúsi og get vonandi reddað mér einhverri vinnu þannig. Svo ætla ég að vinna til dæmis á hostelum og reyna að eyða sem minnstum pening. Mig langar líka að fara í sjálfboðastörf og reyna að hjálpa fólki. Ég hef lært að ef maður hjálpar öðrum þá fær maður það einhvern veginn til baka.“

Viktor segir foreldra sína ánægða með að sjá hann gera það sem hann langar að upplifa en hann viðurkennir þó að hann sjái glitta í smá kvíða og ótta hjá þeim.

„Ég sé alveg þennan ótta, þar sem ég þekki hann svo vel, en þau eru að reyna að sýna hann ekki. Það er örugglega erfitt að vita að barnið manns sé að fara í svona ferðalag en þau eru líka bara svo ánægð með að ég sé að fara að upplifa þetta. Ég er mjög þakklátur fyrir að foreldrar mínir séu svona ánægðir fyrir mína hönd, því að þá myndast ekki óþarfa kvíði hjá mér út frá því. Þetta verður líka mikil þroskaferð fyrir mig og mig langaði til þess að fara einn. Það eru líka ótrúlega margir á þessari plánetu svo ég er í rauninni aldrei einn, ég hlýt nú að kynnast einhverjum. Það hlýtur að vera allavega ein manneskja sem ég get talað við í þessu ferðalagi. Svo er líka búið að kenna mér að fara með sem minnst með mér og ég ætla að gera það. Mig langar auðvitað að vera með allt til alls, skó, fatnað og verkfæri, en ég er búinn að læra að treysta því fólki sem hefur áður farið í svona ferðir og segir mér að taka ekki of mikið. Ég vona að ég geti reddað mér, það hljóta að vera til dekk í Ítalíu eða skrúfjárn í Þýskalandi,“ segir Viktor og skellir upp úr.

 

Það er hægt að laga sjálfan sig

Í gegnum ferðalag sitt ætlar Viktor að leyfa fólki að fylgjast með sér á Instagram þar sem hann mun bæði sýna frá daglegum verkefnum í gegnum myndbönd og taka myndir og skrifa um ferðina.

„Það er rosalega stórt markmið hjá mér að reyna að hjálpa fólki sem glímir við mikinn kvíða. Mér finnst mikilvægt að segja fólki að vera opið fyrir öllu og að láta vita að vanlíðanin þarf ekki alltaf að vera þarna. Það er alltaf hægt að laga sjálfan sig og ég mun segja frá því á Instagram hvernig ég er að glíma við allt saman. Ég hef líka afar gaman af því að taka myndir og skrifa og því mun ég halda úti ferðabloggi á Instagram í leiðinni.“

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Viktors á Instagram undir notandanafninu: viktors_story

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 21 klukkutímum

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn

Peter Andre gæti fengið sekt vegna þess að hann nefnir ekki dóttur sína – Íslendingar hafa rýmri rétt til að trassa að nefna börn
Fókus
Í gær

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga

Lítt þekkt ættartengsl: Sjónvarpskonan sem gustar af og foringi lögfræðinga
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“

Lét sig hverfa ein og berfætt á Ítalíu – „Þegar ég skoða myndir af mér á þessum tíma þá sést alveg greinilega að ég er mjög veik“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“

Nýr veruleiki blasir við Láru eftir aflimanir – „Stundum getur útlitið orðið of svart, stundum er ekki hægt að snúa til baka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður