fbpx
Laugardagur 11.júlí 2020
Fókus

Leyndarmál og hneyksli innan strákasveita: „Ég er ekki barnaníðingur“ – „Paris var versta manneskjan fyrir mig að byrja með“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 10. apríl 2019 19:15

Leyndardómar strákasveita.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lance Bass, meðlimur N Sync, frumsýndi nýverið heimildarmyndina The Boy Band Con: The Lou Pearlman Story á YouTube, en í henni er hulunni svipt af umboðsmanninum Lou Pearlman, sem lést í fangelsi árið 2016. Lou var umboðsmaður N Sync, sem og Backstreeet Boys, og hafði milljónir dollara af skjólstæðingum sínum með svikum og prettum.

Þetta eru ekki einu tvær strákasveitirnar sem hafa komist í hann krappan í gegnum tíðina, en í tilefni af frumsýningu fyrrnefndrar heimildarmyndar ákváð miðillinn E News að kíkja yfir stærstu hneykslin í sögu strákasveita.

Backstreet Boys

Það kemur líklegast mörgum, sem ekki hafa fylgst grannt með sveitinni, á óvart að meðlimir Backstreet Boys hafi vaðið eld og brennistein, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða þá strákasveit sem hefur selt mest af plötum.

Sveitin var stofnuð árið 1993 en fyrsta hneykslið dundi yfir fimm árum síðar þegar að þeir komust að því að fyrrnefndur Lou Pearlman, sem þeir kölluðu Big Poppa, væri búinn að fara illa með þá árum saman og stofnaði aðra strákasveit, N Sync, án þess að láta þá vita.

Lou Pearlman.

Backstreet Boys skilaði tekjum upp á tíu milljónir dollara fyrstu fjögur árin. Þrátt fyrir það fengu meðlimir sveitarinnar aðeins þrjú hundruð þúsund dollara í sinn hlut samanlagt, en einn meðlimurinn, AJ McLean, segir í The Boy Band Con að sumir meðlimir hljómsveitarinnar hafi varla átt efni á húsaleigu á þessum tíma. Brian Littrell var fyrstur til að kæra Lou fyrir að hafa af þeim fé og hinir meðlimirnir fylgdu hans fordæmi. Niðurstaða í málinu varð hins vegar sú að Lou, sem þá var orðinn fyrrverandi umboðsmaður sveitarinnar, fékk einn sjötta af tekjunum.

„Þetta er fáránlegt,“ sagði Brian í viðtali við Rolling Stone árið 2000. „Hann er ekki að vinna neitt.“

Að fríka út að innan

Þegar að Lou var dæmdur í 25 ára fangelsi árið 2008 fyrir að stjórna einu stærsta Ponzi-svindli í sögunni, kærðu meðlimir Backstreet Boys hann aftur og héldu því fram að hann skuldaði þeim tæplega þrjár og hálfa milljón dollara. Að lokum fengu meðlimirnir tæplega hundrað þúsund dollara í reiðufé, 26 geisladiska, sex plaköt, þrjár kassettur og eina VHS spólu, en meðal þess sem var á upptökunum var upprunalegt efni með sveitinni og óútgefið efni. Þessi barátta við Big Poppa gerði ástandið innan sveitarinnar talsvert verra, eins og gefur að skilja, en þeir áttu í erfiðleikum með að höndla frægðina.

Backstreet Boys voru vinsælir en leið illa á sálinni.

„Draumar okkar voru að rætast en við vorum allir að fríka út að innan,“ sagði Kevin Richardson í viðtali árið 2018. „Í staðinn fyrir að verða nánari þá fjarlægðumst við hvor öðrum til að fá rými. Tengsl okkar voru ekki jafnsterk á þessum stundum og þau hefði geta verið.“

Frestaði aðgerð út af ferlinum

Ekki bætti úr skák að heilsu Brian hrakaði á gullaldarárum sveitarinnar og árið 1998 var honum sagt að hann þyrfti að fara í hjartaaðgerð til að laga hjartagalla sem hann var búinn að vera með frá fæðingu. Hann fann samt fyrir þrýstingi að setja hljómsveitina í fyrsta sæti, eins og kom fram í viðtali við Rolling Stone.

„Ég frestaði aðgerðinni tvisvar út af tónleikaferðalögum,“ sagði hann. „Ég meina, það dapurlegasta er að ég planaði hjartaaðgerð út frá vinnunni. Það var eins og öllum væri saman eða engum finndist þetta merkilegt því ferilinn var á flugi,“ bætti hann við. Hann kom fram með sveitinni allt þar til hann fór í aðgerðina.

„Ég var 65% í rauninni. Hugur minn var ekki með. En tónleikarnir þurftu að halda áfram,“ sagði hann, en því skal haldið til haga að súrefnistankar þurftu að vera nálægt sviðinu ef Brian þyrfti á þeim að halda.

Brian fann aftur fyrir heilsubrestum nokkrum árum seinna en þá var hann greindur með „muscle tension dysphonia“, eða raddóþægindi og/eða raddbreytingar sem eiga sér stað án þess að einhverjar sjúklegar breytingar séu sjáanlegar á raddböndunum. Brian tók sér frí frá Backstreet Boys í sex ár þegar hann fékk þessa greiningu og leitaði sér læknishjálpar í laumi. Hinir meðlimirnir komust ekki að þessu fyrr en þeir horfðu á heimildarmyndina um sveitina, Show ‚Em What You‘re Made Of sem kom út árið 2015. Myndin varpaði einnig ljósi á flókið samband Brian og Nick og mátti sjá þá rífast heiftarlega í henni. Nick leit á Brian sem föðurímynd á upphafsárum sveitarinnar en átti erfitt þegar að Brian eignaðist konu og börn.

„Ég held að það hafi brotið hjarta Nick því þá snerist allt um Brian og Leighanne [Littrell] en ekki um Brian og Nick lengur,“ segir AJ í heimildarmyndinni. „Ég held að þetta hafi verið upphafið að niðurtúr Nick í sambandi þeirra Brian. Og ég held að Brian hafi ógnað Nick í mörg ár.“

Ég vil ekki deyja

Nick var yngstur í sveitinni en fyrstur til að gefa út sólóefni af Backstreet-drengjunum. Það náði aldrei flugi, en verra mál var að Nick barðist einnig við fíknidjöfulinn.

„Ég vil ekki deyja. Ég vil ekki vera þessi manneskja sem fólk les um og hugsar: Það er sorglegt að hann gat ekki hætt og drap sig,“ sagði hann í viðtali árið 2009, en árið áður greindist hann með hjartavöðvakvilla sem var bein afleiðing af óhóflegri eiturlyfja- og áfengisneyslu. Hann opnaði sig um þessa baráttu við bakkus og fíkniefnin í endurminningum sínum Facing the Music and Living to Talk About It sem kom út árið 2013.

„Þegar ég var sem verstur tók ég alsælu, kókaín og drakk stóra vodkaflösku á hverju kvöldi,“ stendur í bókinni. „Þetta gífurlega magn lyfja breytti virkni heilans og er ástæða fyrir þunglyndi mínu í dag.“ Þá segir hann einnig að stormasamt samband sitt við Paris Hilton árið 2003 hafi haft vond áhrif á hann.

„Paris var versta manneskjan fyrir mig að byrja með. Hún fóðraði djöflana mína í partístandi. Þetta hefði geta orðið harmleikur.“

Lítið var talað opinberlega um þessa fíknibaráttu Nick. Hins vegar var mikið skrafað og skrifað um vandamál AJ, sem fór í meðferð árið 2001. Tónleikum var frestað svo AJ gæti náð bata. Hann fór síðan aftur í meðferð árið 2002 og 2011 og datt aftur í það árið 2018.

„Sko, það er áhugavert um fjölskyldu og börnin – maður þarf samt að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og það hefur verið erfitt fyrir mig. Sko, ég skammast mín ekkert fyrir að segja að ég féll síðasta árið. Það er ekkert leyndarmál að þetta er sjúkdómur og að þetta er dagleg barátta,“ sagði AJ í viðtali við People á sínum tíma.

Backstreet Boys.

N Sync

Justin Timberlake, JC Chasez, Lance Bass, Joey Fatone og Chris Kirkpatrick voru einnig blekktir af Lou Pearlman, eins og áður segir. Í viðtali í The Boy Band Con segir Lance að hljómsveitin hafi verið haldið leyndri sökum þess að Lou stofnaði hana án vitundar Backstreet Boys.

N Sync náðu gríðarlegum vinsældum.

„Okkur leið alltaf eins og rauðhærða stjúpbarninu. Við máttum ekki fara inn á skrifstofur plötufyrirtækisins því starfsmennirnir vissu ekki að við værum til,“ segir Lance. „Og Lou vildi ekki að þeir vissu af okkur strax því hann vildi ekki koma Backstreet Boys í uppnám.“

En eftir að N Sync náðu frægð og frama lentu þeir í því sama og Backstreet Boys – fengu aðeins brotabrot af milljóna hagnaði. Á tímabili fengu þeir aðeins 35 dollara á dag í laun, eða rúmlega þrjú þúsund krónur. N Sync náði að losa sig undan samningi við útgáfufyrirtækið vegna tæknigalla í samningi en þá fór Lou í mál við sveitina og vildi 150 milljónir dollara fyrir nafnið N Sync. Þetta var í október árið 1999. N Sync-drengirnir kærðu hann á móti og heimtuðu 25 milljónir dollara úr vasa svikahrappsins. Þetta endaði með því að N Sync hélt nafninu, en samið var um málið utan réttarsals.

Kom út úr skápnum á forsíðunni

Lance kom út úr skápnum árið 2006 á forsíðu tímaritsins People og opnaði sig um kynhneigð sína árið 2018.

„Ég sá svo marga unga, samkynhneigða aðdáendur á hverju kvöldi á sviðinu og þeir sungu af lífs og sálarkröftum. Mig langaði svo að segja þeim að ég væri eins og þeir,“ sagði Lance. „Ég hafði bara ekki styrk til þess þá. En ég hef hann í dag og mig langar að segja það skýrt og stoltur til allra hinsegin bræðra minna og systra, sem taka mér og sýna mér hvernig ég á að vera ég sjálfur – þúsund þakkir.“

Forsíða People.

Í viðtali við HuffPost sagði Lance frá því hvernig hann þurfti að vera í felum á hátindi ferilsins.

„Tíundi áratugurinn var öðruvísi tími. Ef maður kom út, ef einhver vissi að maður væri hommi, þá var það hörmung og fólk flippaði út. Ég hélt að ef einhver kæmist að því að ég væri hommi þá myndi plötufyrirtækið rifta samningum við okkur samstundis og aðdáendur myndu hata okkur – þetta var það sem fór í gegnum huga minn sem táningur. Þannig að ég þjálfaði mig upp í að vera ákveðin manneskja og varð sú manneskja.“

One Direction

Breska strákasveitin var mynduð í raunveruleikaþættinum X Factor. Einn af meðlimunum, Zayn Malik, hætti í sveitinni árið 2015 og hefur ekki farið í felur um hve óhamingjusamur hann var í bandinu.

„Mig langaði aldrei að vera í hljómsveitinni. Ég ákvað bara að prófa en þegar ég sá í hvert stefndi tónlistarlega séð sá ég strax að þetta var ekki fyrir mig því ég fattaði að ég hefði ekkert um þetta að segja,“ sagði hann í viðtali við Beats 1.

Zayn sagði í viðtali við GQ að hann hefði ekki verið mjög náinn hinum strákunum í sveitinni.

„Ég eignaðist enga vini í hljómsveitinni. Ég er ekki hræddur við að segja það. Ég á vissulega erfitt með að treysta fólki,“ sagði hann. „Í hreinskilni sagt þá talaði ég aldrei við Harry [Styles] þegar ég var í bandinu,“ sagði hann í samtali við Us Weekly.

Frestuðu tónleikum út af Liam

Zayn var ekki sá eini sem átti erfitt uppdráttar þegar að sveitin var sem vinsælust. Liam Payne glímdi einnig við geðvandamál og sagði frá því í viðtali við Scottish Sun.

„Að fara út og vera glaður og syngja lög var stundum eins og að klæða mig í búning. Fólk vildi ekki sjá það sem var að gerast undir búningnum. Ég var ekki á góðum stað. Því miður gekk ég í gegnum erfiða tíma og lét það hafa vond áhrif á mig,“ sagði hann og bætti við að One Direction frestaði tónleikum árið 2015 vegna hans.

Þá voru háværar sögusagnir um að Louis Tomlinson og Harry Styles væru í raun í ástarsambandi, sem setti aukna pressu á hljómsveitarmeðlimi.

„Þetta bjó til andrúmsloft á milli okkar tveggja þar sem allir voru að hnýsast í okkar mál,“ sagði Louis við The Sun. „Það tók margt í burtu frá okkur. Það gerði allt meira þvingað.“

Jonas Brothers

Þegar Kevin, Joe og Nick komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 2005 færðu þeir heiminum nýjan flöt á strákasveitum, svipað og Hanson-bræður gerðu á sínum tíma. Bræðurnir þrír gátu spilað á hljóðfæri og voru strangtrúaðir. Þeir báru skírlífishringa með reisn og sögðust ekki ætla að stunda kynlíf utan hjónabands, en Joe ljóstraði upp sögunni á bak við hringana í bílakarókí með James Corden.

„Við vorum þrír ungir drengir með hringa á fingrum þannig að allir veltu fyrir sér hvort við værum kvæntir,“ sagði hann og bætti við að þegar hann neitaði að tjá sig um hringana við blaðamann ætlaði blaðamaðurinn að skrifa grein um að þeir væru í sértrúarsöfnuði. Í framhaldinu blés þetta mál út og bræðurnir fíluðu ekki athyglina sem þeir fengu út á hringana. Árið 2013 hætti sveitin, meðal annars vegna fjaðrafoksins í kringum hringana og þá staðreynd að bræðurnir gátu ekki viðhaldið Disney-ímyndinni sinni, en þeir hlutu fyrst frægð og frama á Disney-rásinni.

„Við vildum ekki valda neinum vonbrigðum – ekki foreldrum okkar, aðdáendum, vinnuveitendum okkar – þannig að við settum gríðarlegt álag á okkur sjálfa, álag sem enginn unglingur ætti að vera undir,“ sagði Joe eitt sinn við Vulture. Nick var sammála í viðtali árið 2016.

„Það var svo mikill þrýstingur fyrir okkur að viðhalda vissri ímynd og haga okkur á vissan hátt.“

New Kids on the Block

Snemma á níunda áratugnum varð NKOTB til en meðlimir voru bræðurnir Jordan og Jonathan Knight, Joey McIntyre, Donnie Wahlberg og Danny Wood. Þetta varð ein vinsælasta strákasveit sögunnar, en á hátíndi ferilsins voru þeir sakaðir um að mæma af Gregory McPherson, sem vann að einni plötu sveitarinnar. Meðlimirnir vildu svo sannarlega kveða niður þann orðróm og mættu óundirbúnir í þátt Arsenio Hall þar sem þeir þöndu raddböndin með glæsibrag. Þeir fóru í mál við fyrrnefndan Gregory, en eftir að samið var um málið utan réttarsals tók Gregory þessa mæm staðhæfingu sína til baka.

NKOTB voru svo stórir að gríðarleg læti urðu á einum tónleikum þeirra í Suður-Kóreu árið 1992 – svo mikil að einn aðdándi lést og fimmtíu særðust í troðningi. Sorgardagur sem hafði mikil áhrif á meðlimi sveitarinnar. Þá glímdu meðlimir einnig við geðvandamál, þar á meðal Jonathan sem hætti í hljómsveitinni árið 1994 sökum kvíða, en raunveruleg ástæða brotthvarfsins kom ekki í ljós fyrr en í viðtali við Opruh Winfrey árið 2001. Árið 2011 kom Jonathan síðan út úr skápnum, eitthvað sem hann þorði ekki að gera á meðan hann var í sveitinni.

„Ég hafði verið í nokkrum samböndum með strákum og enginn vissi það. Ég vissi að ég vildi ekki vera læstur inni lengur. Ég var að kljást við mína innri djöfla,“ sagði Jonathan árið 2012.

B2K

Hljómsveitin B2K með þá Omarion, Lil Fizz, J. Boog og Raz-B fremsta í flokki, náði vinsældum með slögurum á borð við Bump, Bump, Bump á seinnihluta tíunda áratugar síðustu aldar en tilkynntu að þeir væru hættir árið 2004. Chris Stokes, umboðsmaður sveitarinnar, sagði hljómsveitina hætta í góðu en svo reyndist ekki vera.

Það kom aðdáendum í opna skjöldu þegar að Raz-B hélt því fram í myndbandi á netinu að Chris Stokes hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi og misnotað sig. Chris neitaði ásökunum.

„Allar þessar ásaknir eru rangar. Ég er ekki hommi. Og ég er kvæntur. Ég á fjögur börn. Ég hef verið með eiginkonu minni í sextán ár. Og ég er ekki barnaníðingur. Þannig að þetta eru allt rangar ásakanir. Ég ætla að fara í mál. Ég skulda eiginkonu minni og börnum það. Þetta er fáránlegt,“ sagði hann við fréttir á MTV. Á þessum tíma var Chris umboðsmaður Omarion, sem hafði þá hafið sólóferil. Omarion varði umboðsmann sinn í yfirlýsingu og kallaði hann föðurímynd sína.

Aðdáendur voru ekki síður hissa þegar að B2K tilkynnti um endurkomu sína, með Raz-B innanborðs. Fóru þeir í tónleikaferðalag, en þegar það hófst opnaði Raz-B sig á Instagram-sögu sinni og sagðist vera hættur.

„Mér finnst ég ekki öruggur því mér finnst Chris Stokes vera með. Ég er hættur.“

Enn er óljóst hvernig málum Raz-B er háttað og hvort hann ætli að leita réttar síns gagnvart Chris Stokes.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“

Illverk vekja áhuga fólks – „Jeffrey Dahmer er uppáhalds morðinginn minn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi

Sorgmæddur köttur tekur Internetið með trompi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“

Vikan á Instagram : „Hvað er skemmtilegra en að djamma með öllum sem þú dýrkar?“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands

Hinar raunverulegu húsfreyjur Íslands
Fókus
Fyrir 5 dögum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum
Fókus
Fyrir 1 viku

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum
Fókus
Fyrir 1 viku

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig
Fókus
Fyrir 1 viku

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur

Stjörnuparið setur „snubbuíbúð“ á sölu – Fallegt útsýni yfir miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 1 viku

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“