fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Viðtal: „Íslendingar eru gjörsamlega einstök tegund sem finnst ekki annars staðar“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 28. september 2018 21:00

Mads Mikkelsen elskar Ísland. Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta á eftir að hljóma eins og lygi, en Ísland er uppáhaldslandið mitt. Ég elska að taka upp myndir hér því tökuliðið og fólkið í bransanum er framúrskarandi,“ segir danski stórleikarinn Mads Mikkelsen, sem er heiðursgestur á alþjóðlegu, íslensku kvikmyndahátíðinni RIFF.

Blaðamaður DV fékk tækifæri til að setjast niður með Mads í hinni sögufrægu byggingu Höfða í dag, rétt áður en hann tók við viðurkenningu fyrir framúrskarandi leiklistarferil sinn á hátíðinni. Neðst í þessari grein má sjá upptöku af viðtalinu við leikarann.

Aragrúa af fjölmiðlamönnum var stefnt í Höfða í dag til að ná tali af kappanum og því var tíminn knappur – í raun skammtaður á hvern blaðamann fyrir sig. Blaðamaður DV greip því tækifærið og rabbaði stuttlega við eiginkonu leikarans, Hanne Jacobsen, á meðan beðið var eftir stórleikaranum. Þau byrjuðu að stinga saman nefjum árið 1987 og gengu í það heilaga árið 2000. Þau eiga tvö börn saman; dótturina Violu, sem er 26 ára, og soninn Carl sem er 21 árs.

„Börnin okkar eru orðin stór þannig að nú get ég ferðast með honum um heiminn,“ segir Hanne, aðspurð um hvort þau hjónin fari saman í ferðalög út af vinnu Mads. Þetta er í fjórða sinn sem Mads sækir Ísland heim, nú síðast í fyrra til að taka upp myndina Arctic, en þetta er í fyrsta sinn sem Hanne heimsækir land og þjóð.

„Ég elska að vera hérna. Við fórum í Bláa lónið í gær og það var yndislegt,“ segir hún.

Þetta er í fjórða sinn sem Mads heimsækir land og þjóð. Ljósmynd: DV/Hanna

Þreyttur á spurningum um einkalífið

Þar sem blaðamönnum er, eins og fyrr segir, skammtaður tími með stórleikaranum, verður blaðamaður DV að spyrja Hanne hvort það séu einhverjar spurningar sem fari í taugarnar á leikaranum. Einhverjar sem hann er jafnvel kominn með leið á.

„Tja, hann er ekki hrifinn af spurningum um einkalífið. Hann finnur yfirleitt leið til að forðast þær,“ segir hún og bætir við. „Hann elskar að tala um listina. Spurðu um hana.“

Gerir orminn eftir nokkra snafsa

Og því næst er blaðamaður DV kallaður inn til heiðursgests RIFF. Hann er prúðbúinn og afslappaður og ekki skemmir fyrir þegar undirritaður blaðamaður brýtur ísinn með því að segja leikaranum að þau eigi eitt sameiginlegt – þau lærðu leiklist í sömu borg, nefnilega Árósum í Danmörku. Áður en Mads hóf nám í leiklistarskólanum í Árósum árið 1996 var hann atvinnudansari í nærri áratug. Það liggur því beinast við að spyrja hann hvort hann taki dansspor þegar hann á stund á milli stríða. Spurningin kemur eilítið aftan að leikaranum.

„Dansa ég enn? Nei. Þegar maður er búinn að vera dansari af vissum kaliber getur maður ekki farið aftur í danstíma. Það er ómögulegt. Maður verður að vera í mjög góðu formi til að gera þær listir sem maður gerði í gamla daga,“ segir Mads og brosir. „Ég dansa aðeins þegar ég er fullur en ég fer ekki í tíma.“

Áttu einhver sérstök spor sem þú tekur alltaf?

„Nei, ég á ekkert svoleiðis. Ég er bara út um allt, kasta höfðinu til og frá og geri kannski nokkur brögð og meiði mig.“

Gerirðu orminn?

„Það gæti verið hægt að sannfæra mig um að gera orminn eftir nokkra snafsa. En ég myndi örugglega slasa mig.“

Elskar ljóðrænan sannleik í brjálæðinu

Eins og áður segir hóf Mads leiklistarnám árið 1996, en sama ár þreytti hann frumraun sína á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni Pusher sem vakti gríðarlega athygli. Smátt og smátt vatt ferilinn upp á sig með leik í kvikmyndum eins og Blinkende Lygter, En kort en lang, Elsker dig for evigt, De grønne slagtere, Adams Æbler og Efter brylluppet. Það var svo árið 2006 sem Mads landaði hlutverki illmennisins í Bond-myndinni Casino Royale. Þá for Hollywood-boltinn að rúlla og muna einhverjir eftir Mads til dæmis í Rogue One: A Star Wars Story og sjónvarpsseríunni Hannibal. Hann er einn af þekktustu leikurum Danmerkur og virðast vinsældir hans engan endi ætla að taka. Hann hefur verið áberandi í dramahlutverkum síðustu ár, en blaðamanni leikur forvitni á að vita af hverju hann taki ekki að sér fleiri gamanhlutverk í ætt við Adams Æbler og De grønne slagtere, sem leikstýrt var af Anders Thomas Jensen?

„Mig langar til þess. Ég hef fundið fáar gamanmyndir sem eru mér að skapi. Þær sem ég fíla eru eftir Anders Thomas Jensen. Ég hef gert fjórar með honum. Þær einkennast af brjálæði í bland við ljóðlist hans og eru algjörlega ópólitískt rétthugsandi. Það er það sem ég elska. Það er það sem ég ólst upp við. Mér finnst Anders snillingur. Ég hef séð aðrar gamanmyndir sem ég elska en mér hefur ekki verið boðið að leika í þeim. Ég bíð bara eftir að Anders hringi í mig,“ segir Mads og bætir við að hann sé einnig mjög hrifinn af gömlu brýnunum í Monthy Python.

„Ég horfi á þær myndir enn í dag og stend mig að því að sitja heima í stofu og flissa. Þær eru algjörlega brjálaðar. En í brjálæðinu er hægt að finna einhvern ljóðrænan sannleik.“

Mads tók við viðurkenningu fyrir framúrskarandi leiklistarferil í dag í Höfða. Ljósmynd: DV/Hanna

En hvað er það við þannig brjálaðar myndir sem heillar Danann?

„Þegar maður tekur gjörsamlega fáránlegar manneskjur alvarlega. Ef það heppnast þá getur það verið ofboðslega fyndið – fyrir suma, ekki fyrir alla.“

„Ég heiti Mads Mikkelsen“

Eins og við Íslendingar vitum er danski hreimurinn ansi þykkur, en Mads hefur náð að milda hann ótrúlega mikið í þeim hlutverkum sem hann tekur að sér á ensku.

„Þú ert íslensk þannig að þú heldur að ég hafi mildað hann. Bandaríkjamenn myndu ekki segja það. Englendingar myndu ekki heldur segja það. Danir heyra hreiminn minn alveg líka. Sumir danskra kollega minna komast mjög vel upp með að tala ensku. Ég kemst þokkalega frá því. Fyrir mig snýst þetta um jafnvægi. Þetta þarf að vera hluti af karakternum sem ég túlka. Ég get ekki bara svissað yfir í einhvern hreim. Þá týni ég mér. Ég þarf að byggja hann upp, annars er ég óheiðarlegur mér og persónunni sem ég leik. Kannski mun hreimurinn hverfa smátt og smátt og hverfa algjörlega þegar ég verð níræður. Ég held samt að hreimurinn verði alltaf hluti af mér,“ segir hann. En hefur hann lært einhverja íslensku í þessi skipti sem hann hefur heimsótt landið?

„Hérna,“ segir hann á ágætri íslensku og hlær. „Ég er Dani þannig að ég skil margt. Svo stundum fara margir að tala í einu og þá týni ég þræðinum. Síðan næ ég honum aftur.“

Geturðu samt ekki sagt: Ég heiti Mads Mikkelsen?

„Ég heiti Mads Mikkelsen. En það er ekkert erfitt. Það er ekki svo langt frá dönsku.“

Ekki lítill Hamlet

Mads er rúmlega fimmtugur og hefur unnið til fjölda verðlauna á ferlinum; til dæmis í Cannes árið 2012 fyrir bestan leik fyrir kvikmyndina Jagten, Zulu-verðlaunin fyrir leik í meðal annars Jagten, Prag og En kort en langt og Bodil-verðlaunin fyrir Jagten og Pusher II. En hverju er hann stoltastur af á ferlinum?

„Ég er stoltast af öllu – jafnvel því sem varð ekki alveg nógu gott. Ég er stoltur af því að reyna. Að trúa á verkefnin. Það er mikilvægt að gera mistök því þá er hægt að læra af þeim og halda áfram. Ég á vissulega myndir sem ég stoltari af en öðrum, en ég ætla ekki að segja frá hverjar þær eru. En ég er mjög stoltur af fleiri en einni,“ segir Mads, sem segist ekki ganga með eitt, sérstakt draumahlutverk í maganum.

„Ég er ekki með lítinn Hamlet í mér. Það er búið að gera Hamlet og það mjög vel. Ég ætla að leggja það til hliðar. Draumahlutverkið er næsta verkefni sem fellur mér að krami og fólk býður mér. Og það verður draumahlutverkið mitt á meðan ég er að vinna það verkefni.“

Hefði misst tökin 16 ára

Mads er alveg laus við hroka og tilgerð, allavega í þessu stutta spjalli við blaðamann DV, spjall sem hefur þó dregist aðeins of lengi ef marka má tímaplanið sem lagt var upp með. Svo er hann líka afskaplega hógvær þegar talið berst af þeirri stöðu sem hann er í – að vera súperstjarna.

Laus við tilgerð og hroka. Ljósmynd: DV/Hanna

„Ég lít ekki á mig sem súperstjörnu. Ég held að það sé erfitt fyrir Dani að líta á sig sem súperstjörnu. Ef maður hagar sér eins og súperstjarna eru Danir fljótir að henda þér aftur niður á jörðina, þannig að ég held að það sé erfitt að vera súperstjarna í Danmörku. Ég varð frægur þegar ég var í kringum 32ja ára og ég held að það hafi hjálpað mjög mikið. Ef ég hefði orðið frægur þegar ég var 16 ára hefði þetta verið öðruvísi. Þá hefði ég örugglega misst tökin. Þegar maður er 32 ára fattar maður af hverju fólk veifar þér í dag en vildi ekki tala við þig í gær,“ segir hann og brosir.

„Þið eigið einstakt land. Farið vel með það“

Talið berst aftur að Íslandi og íslensku þjóðinni, sem Mads er yfir sig hrifinn af.

„Íslendingar eru gjörsamlega einstök tegund sem finnst ekki annars staðar. Það er skrýtin, andleg hlið á Íslendingum sem þeir taka ekki alvarlega. En hún er þarna og ég elska það. Landið er líka fallegt og ég mun tvímælalaust koma hingað aftur ef mér er boðið,“ segir Mads.

Vill hann segja eitthvað við land og þjóð?

„Þið verðið að vita að þið eruð einstakt fólk. Þið eigið einstakt land. Farið vel með það. Og haldið áfram að vera jafn svöl og þið eruð.“

Viðtal DV við Mads Mikkelsen má sjá í heild sinni hér:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
Fókus
Fyrir 2 dögum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því

Er kallinn sjaldan í kynlífsstuði? Þetta gætu verið ástæðurnar fyrir því
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“