fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Manstu eftir Arne Aarhus sem sló í gegn á Skjá einum? Lenti í alvarlegu slysi í brúðkaupsferðinni – Svona er staðan hjá honum í dag

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 7. júlí 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenski ofurhuginn Arne Aarhus, sem á ættir að rekja til Noregs er eflaust mörgum ferskur í minni þótt nú séu tæplega tveir áratugir síðan þátturinn Adrenalín hóf göngu sína á Skjá Einum í umsjón Steingríms Dúa Mássonar. Þar mátti sjá Arne takast á við hin ýmsu jaðarsport en svokallað „base-jump“, þar sem kappinn stökk fram af húsþökum með fallhlíf á bakinu, var hans aðalsmerki. Eftir að Arne hvarf af skjánum hefur líf hans heldur betur tekið aðra stefnu en hann stýrði meðal annars einu stærsta laxútflutningsfyrirtæki heims. DV ræddi við Arne um lífið eftir sjónvarpið.

Árið 2002 kom út myndin Arne í Ameríku sem Steingrímur Dúi framleiddi ásamt Arndísi Bergsdóttur. Í miðlum þeim tíma kom fram að samningar hefðu náðst um dreifingu myndarinnar í Evrópu og að hún myndi heita „Base Stick“ á erlendri grundu. Fimm árum síðar voru svo sýndir þættir á Skjá Einum sem báru nafnið Póstkort frá Arne Aarhus. Það var fimm þátta sería þar sem hann heimsótti lönd á borð við Nýja-Sjáland, Malasíu, Kuala Lumpur og Taíland og endaði svo í Björgvin, heimabæ sínum.

Eins og áður segir tók líf Arne aðra stefnu eftir að hann hvarf af skjám landsmanna. Árið 2010 tók hann þátt í að stofna norska laxútflutningsfyrirtækið Ocean Quality. Fyrirtækið er í dag eitt af fimm stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í heiminum. Fyrirtækið sem selur lax til yfir 70 landa í hverri viku velti rúmlega níutíu milljörðum árið 2016.

Áttaði sig á mikilvægi þess að njóta lífsins

Á síðasta ári áttaði Arne sig á því að hann væri ekki að nýta lífið til fulls. Hann hætti hjá fyrirtækinu eftir sjö farsæl ár og ákvað breyta lífi sínu. „Ef þú eyðir nánast öllum þínum tíma í að safna peningum sem þú þarft ekki og fórnar þar með tíma með vinum og fjölskyldu ættirðu að hugsa þig tvisvar um. Ég veit að lífið getur stoppað á einu augnabliki og því mikilvægt að spyrja sig hvernig maður ver tímanum,“ segir Arne sem er giftur þriggja barna faðir.

Hann segir lykilinn að því að njóta lífsins til fulls felast í því að reyna að hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum sig og vera til staðar. „Jákvæð áhrif á aðra er það eina sem þú skilur eftir þig þegar þú fellur frá,“ segir Arne.

Eftir að hann hætti hjá Ocean Quality stofnaði hann sín eigin fyrirtæki. „Í dag á ég apótek, fasteignafélag, ráðgjafafyrirtæki og fyrirtæki sem flytur út fisk. Þetta hljómar örugglega eins og það sé brjálað að gera hjá mér en raunin er sú að núna vinn ég mun minna og ég get betur ráðið mínum vinnutíma.“

Alvarlegt slys í brúðkaupsferðinni

Þó að Arne hafi haft í nægu að snúast undanfarin ár er hann alls ekki hættur að stunda jaðarsport. Hann fer reglulega í svifflug, klifur og köfun. Þá hefur hann verið duglegur að stunda skíði. Kona Arne, Ingelill, hefur svipuð áhugamál og hann en í brúðkaupsferð þeirra hjóna árið 2008 lenti hún í alvarlegu slysi.

„Í brúðkaupsferðinni okkar árið 2008 ákváðum við að klifra upp á 600 metra háan klett. Ég ætlaði að fljúga niður með svifvæng en konan mín ákvað að klifra niður ásamt tveimur öðrum. Á miðri leið losnaði stór steinn sem lenti á henni. Hún braut 14 bein, missti tvo lítra af blóði og þurfti að gangast undir 6 klukkustunda langa aðgerð. Við áttum tvö börn á þessum tíma og hún var á milli heims og helju í nokkrar klukkustundir. Þarna sá ég hvað ég elskaði hana mikið,“ sagði Arne en til allrar hamingju náði hún sér eftir langa dvöl á spítala.

Langar að snúa aftur í sjónvarpið

Þó það séu tæplega tveir áratugir síðan Arne hætti í sjónvarpi langar hann mikið að snúa aftur. „Síðustu ár hef ég verið að skoða sögu Noregs og þeirra sem fóru til Íslands á landnámstímanum. Ég hef verið að reyna að sannfæra Rúv um að gera sjónvarpsþætti um þá sem voru neyddir frá Noregi til Íslands og settust þar að,“ segir Arne sem segir margar áhugaverðar sögur liggja ósagðar frá þessum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“