fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Fíllinn í herberginu

Eyjan
Miðvikudaginn 7. janúar 2026 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar kemur að íslenskri efnahagsstjórn er að mínu mati risastór fíll í herberginu. Hann er stór og klaufalegur. Plássfrekur og ófyrirsjáanlegur. Hann heitir íslenska krónan. Það hefur einhverra hluta vegna orðið að einhvers konar þjóðarstolti að viðhalda eigin gjaldmiðli. Hann er vissulega fagur fimmhundruðkallinn með Jóni Sigurðssyni en hversu vel tekst okkur að halda honum stöðugum?

10 ár af 100

Frá því að Íslendingar tóku yfir stjórn efnahagsmála frá Dönum árið 1926 hafa í reynd komið tvö fimm ára tímabil þar sem við náðum að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Í annað skiptið vorum við inn í gjaldeyrishöftum og öllu handstýrt. Annars hefur það ekki verið reyndin í hin 90 árin. Með tilheyrandi tjóni fyrir íslenskan almenning.

Stærsta verkefni íslenskra stjórnmála er að ná niður vöxtum og verðbólgu, eins og svo oft áður. En stóra spurningin er þessi. Er það raunhæfur möguleiki þegar verðbólguvæntingar eru stöðugt miklar? Og hvers vegna eru þær svona háar? Er það vegna þess að fólk hefur almennt ekki ofurtrú á varanlegum efnahagslegum stöðugleika á Íslandi?

Hvað kostar krónan?

Við verðum að horfast í augu við það og þora að taka raunverulegt samtal um það hvað krónan er í reynd að kosta okkur? Hvað kostar hún venjulega fjölskyldu með húsnæðislán á Íslandi? Hvað kostar hún fyrirtækjaeiganda sem rekur lítið eða meðalstórt fyrirtæki og er nauðbeygður til að gera upp í íslenskri krónu en ekki evrópskri eða bandarískri eins og stórfyrirtæki gera? Hvað kostar hún okkur í samkeppnishæfni? Hvað kostar fákeppni sem henni fylgir? Hvað kostar hún okkur í raun og veru? Og erum við raunverulega tilbúin að borga hvað sem er til að viðhalda henni áfram?

Ungt fólk í dag kýs bara einfaldlega með fótunum. Við erum að tapa í samkeppnishæfninni um lífskjörin. Ég þekki alltof mikið af ungum fjölskyldum sem flytja út til að fara í framhaldsnám en snúa ekki aftur heim að námi loknu. Og þegar ég spyr hvers vegna þau koma ekki til baka þá er svarið einfalt: Lífið er bara þægilegra, fyrirsjáanlegra og betra úti. „Ég veit hvað ég er að fara að borga af lánunum mínum næstu árin,“ sagði vinkona mín á dögunum. Það er nefnilega það. Ég get sannarlega ekki sagt að ég geti með vissu sagt það sama. Og hvernig rótgreinum við þá þennan vanda? Hver er orsökin? Hver er afleiðingin? Er orsökin léleg efnahagsstjórn í 90 ár af 100? Eða er orsökin ef til vill önnur?

Sjálfstæðisbaráttan og sjálfstæður gjaldmiðill

Var það ætlunin hjá þeim brautryðjendum sem börðust fyrir sjálfstæði okkar að það yrði um leið ófrávíkjanleg krafa að héldum úti okkar eigin gjaldmiðli? Jón Sigurðsson, landsföðurinn sjálfur virðist hið minnsta ekki hafa haft það fyrir augum. Um það hefur Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri meðal annars fjallað í áhugaverðu afmælisriti sem gefið var út í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. En þar segir: „Það er ljóst að hvorki Jón Sigurðsson, né nokkur annar af leiðtogum sjálfstæðisbaráttunnar leit á sjálfstæða mynt og/eða sjálfstæða peningamálastjórnun sem fullveldismarkmið í sjálfu sér.“ Segir Ásgeir í grein sinni. Það er hið minnsta nokkuð ljóst á skriflegum heimildum að myntsamvinna við önnur lönd var heppilegur kostur að mati Jóns Sigurðssonar. Enda trúði Jón einlæglega á alþjóðasamvinnu og að hún fæli í sér betri lífskjör.

Í niðurlagi greinarinnar um mögulega afstöðu Jóns til Evrópusambandsins segir Ásgeir Jónsson: „Hvort hann hefði viljað ganga í Evrópusambandið til að tryggja slíkt samstarf eða talið Íslendinga eiga þar heima með öðrum Evrópuríkjum skal ósagt látið. Hins vegar er ekki að efa að hann hefði tekið afstöðu til Evrópusambandsins á grundvelli vel rökstudds og yfirvegaðs hagsmunamats með landsins gagn og nauðsynjar í huga.“

Þörf á hagsmunamati

Það er að mínu mati verkefnið núna. Að taka afstöðu til valkosta í breyttri heimsmynd. Umrætt hagsmunamat er nauðsynlegt á þessum tímapunkti. Hvar og hvernig er okkar hagsmunum best borgið?

Alþjóðasamvinna ýtir undir öryggi, hagsæld og stöðugleika. Tryggir okkur samkeppnishæfni og bætt lífskjör.

Nú er rétti tíminn til að nýta fullveldi okkar og spyrja okkur stórra spurninga. Hvernig tryggjum við efnahagslegan stöðugleika sem endist? Hvernig losum við okkur undan háum vöxtum og verðbólgu?

Ég tel að svarið felist í því að þora að losa okkur við fílinn í herberginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Víðsýn og frjálslynd hugsun endurvakin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Víðsýn og frjálslynd hugsun endurvakin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok

Nína Richter skrifar: Geðveikir galdrar á Tiktok
EyjanFastir pennar
05.12.2025

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande
EyjanFastir pennar
04.12.2025

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
04.12.2025
Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
29.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði
EyjanFastir pennar
29.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu