

Valdimar Víðisson bæjarstjóri í Hafnarfirði gefur kost á sér til að leiða lista Framsóknar í næstu sveitarstjórnarkosningum. Valdimar leiddi Framsókn í síðustu kosningum, varð formaður bæjarráðs og hefur frá því 1.janúar 2025 verið bæjarstjóri og vakið mikla og jákvæða athygli fyrir störf sín fyrir Hafnfirðinga.
„Það hafa verið forréttindi að fá að starfa fyrir íbúa Hafnarfjarðar á undanförnum árum. Fyrst sem varabæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs á síðasta kjörtímabili, síðan sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og nú sem bæjarstjóri.
Hafnarfjörður er yndislegur bær og ég er afar þakklátur fyrir hversu vel mér og fjölskyldu minni hefur verið tekið frá því að við fluttum hingað fyrir um 18 árum síðan. Bær mótaður af sjónum og hrauninu, bær með sterkt hjarta.
Ég brenn fyrir því að vinna vel fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga og hef í mínum störfum lagt mikla áherslu á að vera í góðu og nánu sambandi við íbúa og fyrirtæki í bænum. Það hefur skipt mig miklu máli og verið mér dýrmæt stoð í störfum mínum.“
Í færslu á Facebook-síðu sinni í dag segir Valdimar að margt afi gengið vel, þó ekkert sé fullkomið. Það er því alltaf svigrúm til að gera enn betur.
„Vel hefur gengið í uppbyggingu og í að styðja við fjölskyldur í bænum og það viljum við halda áfram að gera. Fram undan eru þó stórar áskoranir sem fela jafnframt í sér mikil tækifæri og kalla á samvinnu og skýra sýn. Þar má nefna samgöngumál, þar sem mikilvægt er að tryggja öryggi og bæta flæði samhliða áframhaldandi uppbyggingu.
Við þurfum að tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir alla, þannig að fólk hafi raunhæfa möguleika á að búa og festa rætur í bænum. Jafnframt verðum við að styrkja áfram það sem skiptir mestu máli í daglegu lífi: góða þjónustu, öflugt skólastarf, velferðarkerfi og blómlegt íþrótta- og menningarlíf.
Í störfum mínum hef ég lagt áherslu á lausnamiðaða nálgun, heiðarleika og samtal og að ná árangri með fólki. Tuttugu ára reynsla mín sem skólastjórnandi hefur einnig nýst mér afar vel í störfum mínum fyrir bæjarfélagið. Mér finnst fátt skemmtilegra en að vinna með fólki, hlusta og finna lausnir sem bæta okkar fallega bæ.
Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér til þess að leiða áfram lista Framsóknar í Hafnarfirði og óska eftir þínum stuðningi í baráttunni fram undan.“