Ég á mjög sterka minningu úr æsku af því þegar ég sat í sakleysi mínu í sófanum heima á Flateyri einn veturinn, snemma á þessari öld. Foreldrar mínir voru með kveikt á sjónvarpinu og fylgdust með fréttum. Ég var eitt af þessum börnum sem fylgdist vel með fréttum og fannst fátt skemmtilegra en að hlusta á fullorðna fólkið tala um menn og málefni. En þetta umrædda kvöld byrjaði svo einhvers konar Kastljósþáttur nútímans og umræðuefnið var hjónabönd samkynhneigðra. Með og á móti. Þarna var í setti hinsegin manneskja sem tók á sig að taka slaginn fyrir hópinn sem barðist fyrir auknum réttindum og viðurkenningu á tilvist og lífshamingju samkynhneigðra og á móti var prestur sem var sannfærður um að það að heimila hjónaband annarra en hefðbundinna gagnkynhneigðra para yrði hættulegt skref fyrir íslenskt samfélag að stíga.
Ég var á þessum tíma farin að velta ýmsu fyrir mér varðandi mína eigin kynhneigð. Ég hafði ekki fundið sterkar tilfinningar til stráka eins og vinkonur mínar gerðu en vissi undir niðri að kannski væri ég svolítið öðruvísi en þær. Ég átti engar sterkar fyrirmyndir til að spegla mig í á þessum tíma og var svolítið týnd með þessar tilfinningar mínar. Eða réttara sagt tilfinningaleysi. Ég hafði áður séð viðlíka viðtöl í öðrum viðtalsþáttum. Þar sem einhvern veginn átti að rökræða með eða á móti tilverugrundvelli hinsegin fólks. En þetta viðtal hafði djúpstæð áhrif á mig og þá skömm sem ég bar í brjósti á þeim tíma fyrir að vera „öðruvísi“.
Þessi birtingarmynd fordóma þess tíma þjappaði mér langt inn í skápinn. Ég var hrædd um að mæta mótlæti og hatri. Ég þorði ekki að horfast í augu við sjálfa mig – horfast í augu við það hver ég er fyrr en ég var orðin 21 árs. Þegar ég átti ekki annan valkost en að vera bara hreinskilin og hætta feluleiknum. Það var besta ákvörðun lífs míns. Að veita sjálfri mér frelsi til að vera ég sjálf. Finna fyrir raunverulegum tilfinningum. Finna fyrir raunverulegri hamingju. Líða vel og sjá birtu í framtíðinni. Ekki bara grátóna veruleika.
Í vikunni upplifðum við í enn eitt skiptið orðræðu með sömu birtingarmynd. Um tilverugrundvöll trans fólks og hvort það sé raunverulegt bakslag í gangi eða ekki í réttindabaráttu hinsegin fólks. Í sjónvarpssettinu var reynslumikil baráttukona hinsegin fólks á Íslandi sem mætti til leiks björt og málefnaleg og þingmaður sem taldi sig vera mikinn sérfræðing í málefnum trans fólks og bakslagi hinsegin baráttunnar. Annars vegar var þarna mætt manneskja sem lifir raunveruleikann og svo manneskja í valdastöðu sem telur sig vita betur en hún þrátt fyrir að tilheyra hvorugum hópnum. Viðtalið var skrautlegt og í senn afar opinberandi. Sérfræðingurinn komst ekki að vegna yfirgangs þingmannsins. Það skipti ekki máli hversu oft hún reyndi að komast að til að lýsa með yfirvegun hvernig bakslagið væri að birtast hinsegin fólki. Þingmaðurinn greip stöðugt fram í og smættaði umræðuna ítrekað í að hér væri bara einhver „hugmyndafræði“ í gangi. Og fólk geti alveg „trúað“ einhverju. En að hann væri sá sem þyrði að segja sannleikann.
En vandinn er þessi: Þingmaðurinn ætlaði sér aldrei að kryfja þessa orðræðu eða hlusta á mótrök. Hlusta á sérfræðinginn eða meðtaka hennar skilaboð. Hann ætlaði sér aldrei að gera það. Hann var aðeins mættur í þáttinn til að gera áframhaldandi tilraun til að stækka mengið sitt. Auka við fylgi sitt og skapa sér vinsældir í þeirri kreðsu sem kærir sig ekki um fjölbreytileika í íslensku samfélagi. Í bergmálshelli hans er fólk að klappa fyrir honum og hugrekki hans að þora að lemja á þessu „vók“ liði. Þingmanninum er slétt sama um áhrifin sem orð hans hafa. Svo lengi sem fylgjendahópurinn heldur áfram að klappa. Þessi taktík hefur virkað víða um heim. Sterkir leiðtogar, popúlistar, víða um heim hafa einmitt nýtt sér sömu átyllu til að skapa sér vinsældir. Það er alþekkt í leikbókinni að velja sér jaðarsettan hóp, sem fæstir hafa sérþekkingu á og enn færri deila reynsluheimi með til að traðka á. Búa til sameiginlegan óvin og ógn. En ég ætla að trúa því að við sem samfélag sjáum í gegnum þetta útspil.
Því fylgir ábyrgð að búa til pláss fyrir orðræðu á borð við þessa. Sem getur breikkað gjánna á milli okkar enn frekar. Og kannski sat ung manneskja sem er að kljást við eigin sjálfsmynd í sófanum heima hjá sér með foreldrum sínum á mánudaginn og fylgdist með fullorðnu fólki rökræða um tilverugrundvöll einstaklinga í samfélaginu okkar. Og kannski mun þetta viðtal hafa djúpstæð áhrif á þessa manneskju og koma í veg fyrir að hún geti lifað sinn sannleika.
Ég vona ekki. Ég vona að samfélagið sýni henni að við stöndum með fjölbreytileikanum. Að við ætlum ekki að smætta fólk og draga það í dilka eftir einhverri skáldaðri hugmyndafræði sem má rökræða. Gleymum því ekki að á bak við þetta allt saman eru raunverulegar manneskjur sem eiga betra skilið en að vera rökræddar eins og eitthvert afþreyingarefni í sjónvarpi.
Erum við ekki komin lengra en það?