Hægri vængurinn í alþjóðlegum stjórnmálum hefur verið að berhátta sig á undanliðnum mánuðum og misserum. Hann boðar frelsi fyrir þá einu sem eru honum að skapi. En það merkir auðvitað bara eitt. Sjálf hugmyndafræði hans er hrunin. Frelsi, þegar upp er staðið, er þá ekki algilt, að mati þessara afla, heldur háð því að umsækjendur um félagslegt frjálslyndi hagi sér eins og menn, lesist gagnkynhneigðir karlmenn, helst trúaðir, sannkristnir sér í lagi, hvað sem það nú þýðir, og vilji að konan fari að vilja þeirra og þrám, enda heiti þær heimskari, að sögn, ævinlega.
Og þessa sér stað á Íslandi á allra síðustu tíð. Ungliðar Sjálfstæðisflokksins hampa gildum Charlie heitins Kirk með því að veifa frelsisbolum þessa ákafasta talsmanns afturhalds á síðari árum, og hvetja æsku landsins til að merkja sig frelsisskilningi þessa manns, sem illu heilli var skotinn á færi fyrir boðskap sinn á dögunum, sem vel að merkja, var aðför að skoðanafrelsi.
En frelsi hverra var þeim manni hugleikið? Spyrjum um arfleifðina? Hvert var raunverulega frelsið í huga þessa fallna hægrimanns? Og eftir atvikum, hvernig útlits er sjálft frelsið í huga yngstu boðbera frjálshyggjunnar, fyrst þeir eru farnir veifa bandaríska bolnum?
Og stutta svarið er einfalt. Frelsið rúmar helst bara hægrið sjálft. Allt annað er ýmist hættulegur viðbjóður eða ónáttúrulegur andskoti.
Gefum nýja hægrinu orðið, altso hvítum bolungum hægrimanna, og skoðum akkúrat hvert inntak boðskaparins er á þeim fatnaði. Og það er þetta; einber og helber aðför að mannréttindum og algert óþol fyrir kvenfrelsi og óbeislaðri upplifun fyrir því frjálsa í fari manns, að fá að vera maður sjálfur.
„Blinda bandaríska bókstafskristnin á ekki að vera innflutningsvara. Hún er maðkaður viðbjóður, og vitnar um ritskoðað málfrelsi af miskunnarlausasta tagi.“
Því upphafningin er sú að konur eigi að lúta eiginmanni sínum, skilyrðislaust, að svartar konur hafi ekki jafn öfluga heilastarfsemi og hvítir karlmenn, að transfólk hafi ekki leyfi til að vera það sjálft vegna geðveilu þess og ranghugmynda, og að tíu ára dætur skuli gjöra svo vel og fæða barn sem þær gangi með eftir nauðgun, af því að fóstureyðing sé aldrei nokkurn tíma réttlætanleg!
Þetta stendur á bolnum – og merkir frelsi í huga hægrimanna þegar aldarfjórðungur er liðinn af nýrri öld. Og þá megi það líka heita svo að síendurtekin morð á skólabörnum í Bandaríkjunum séu réttlætanlegur fórnarkostnaður svo Bandaríkjamenn megi iðka þann „guðsgefna rétt“ að bera byssur og hríðskotariffla. Einnig það stendur skýrum stöfum á bolnum.
Og er nema von að fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, dæsi opinberlega með þeim orðum að henni finnist það ógeðfellt að sjá SUS, hvar hún hafi einu sinni verið varaformaður, leggja upp með þessa boli, því hvert sé Sjálfstæðisflokkurinn að fara?
Það er von að spurt sé.
Blinda bandaríska bókstafskristnin á ekki að vera innflutningsvara. Hún er maðkaður viðbjóður, og vitnar um ritskoðað málfrelsi af miskunnarlausasta tagi. Og vel að merkja, stefnan sú arna hefur ekkert með Krist að gera, enda snýst boðun hans um að sýna öðrum kærleika og muna að hinir síðustu muni verða fyrstir.
Bandaríska leiðin, nú um stundir, lýtur aftur á móti lögmálum aðskilnaðar og andúðar og er svo eitruð af hatri og illvilja að líkja verður við hættulegan heimsfaraldur.
Einmitt, ég boða yður frelsi fárra! Þið hin, haldið ykkur úti!
Svona lagað sæmir ekki Sjálfstæðismönnum, hvorki ungum né gömlum. Þeir þurfa að finna sér annan fatnað en bandarískan bol til að hylja nekt sína.