Það var í byrjun desember 2021 sem ég ritaði pistil sem birtist hér á þessum vettvangi í tilefni þess að fyrir dyrum stóð að hótelrekstur yrði aflagður í Bændahöllinni. Hótel Saga heyrði þar með sögunni til, húsið sem markaði straumhvörf í sögu íslenskra ferðamála, sem og sögu veitingahalds og skemmtanalífs. Í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar var lagt til að kannaðir yrðu möguleikar á að ríkið keypti Hótel Sögu fyrir Háskóla Íslands. Ég vildi vara við kaupum á húsinu og taldi ærna ástæðu til.
Ég veit að það er dálítið hégómlegt að vísa í eigin skrif en ætla að gera það samt. Mig hryllti við þeirri tilhugsun að hinu fornfræga hóteli yrði rústað og fjármunum skattgreiðenda sólundað um leið. Öllum mætti ljóst væri að mörg ár tæki að breyta Bændahöllinni í skólahús „og framtíðarkostnaðurinn óútfylltur tékki — upphæðin er miklu hærri en þeir fimm milljarðar sem rætt er um að húsið kosti og er ærinn kostnaður út af fyrir sig!“
Í frétt Morgunblaðsins í liðinni viku, bráðum fjórum árum síðar, kemur fram að heildarkostnaðurinn er áætlaður 12,7 milljarðar króna. Framkvæmdir standa þó enn yfir og kæmi mér ekki á óvart að sú tala ætti enn eftir að hækka umtalsvert. Og til merkis um firringuna í samfélaginu yppa menn bara öxlum yfir svo yfirgengilegri framúrkeyrslu enda er hún alvanaleg og á sama tíma lítill vilji til að stöðva hallarekstur hins opinbera.
Hótel Saga er ætluð menntavísindasviði Háskóla Íslands (gamli Kennaraháskólinn við Stakkahlíð) og á sínum tíma lék mér forvitni á að vita hvort fyrir lægi þarfagreining — hvers konar húsnæði og hve marga fermetra umrætt svið Háskólans þarfnaðist. Engin gat bent mér á slíka úttekt en fróðir menn sem ég ræddi við álitu að hagstæðara yrði að reisa nýjar byggingar á háskólasvæðinu undir umrædda starfsemi, enda nægt landrými þar.
Við bættist að Hótel Saga var auðvitað vel rekstrarhæf og yfirgengileg sóun að brjóta niður megnið af innréttingum hússins, en margt af því var nýlega endurgert. Þetta fór ekki beinlínis saman við umhverfisverndaráherslur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur (en þær snerust reyndar aldrei um annað en húmbúkk eins og plastpoka- og plaströrabann).
Einn viðmælenda minna sem þekkti til mála benti mér á að í stað þess að ríkið keypti Sögu væri líklega hagstæðara að skattgreiðendur gæfu þáverandi eiganda hússins, Bændasamtökum Íslands, einn til tvo milljarða króna og Háskólinn fengi á móti hús fyrir menntavísindasvið sem byggt yrði á grundvelli þarfagreiningar. Það hús mætti þá líka staðsetja nær Suðurgötu – nær þungamiðju Háskólans.
Hvernig sem litið var á málin stóðust kaupin á Sögu enga skoðun.
Þegar ég skrifaði um Sögu-hneykslið, fyrir næstum fjórum árum, velti ég því upp hvort skrípaleikurinn yrði ekki kórónaður með því að breyta gamla Kennaraháskólanum í hótel. Ljóstýran í þessum svartnætti er sú að Listaháskólinn hefur fengið aðstöðu í Stakkahlíðinni en sá skóli hefur frá stofnun meðal annars haft aðsetur í kjötiðnaðarstöð í Laugarnesi sem aldrei varð. Sláturfélag Suðurlands hafði reist sér hurðarás um öxl — lent í kröggum rétt eins og Bændasamtökin úti á Sögu.
Í báðum tilvikum voru einkaaðilar tilbúnir að kaupa húsnæðið — bara ekki fyrir verð sem eigendurnir gátu fellt sig við. En Sláturfélagsmenn höfðu, líkt og Bændasamtökin, sterk pólitísk ítök. Allir þingmenn Suðurlandskjördæmis studdu hugmyndina um að ríkissjóður keypti hina hálfköruðu kjötiðnarstöð í Laugarnesi handa óstofnuðum listaháskóla án þess að nokkur greining færi fram á húsnæðisþörf fyrirhugaðs skóla.
Við höfum fleiri dæmi um óhagstæð kaup ríkissjóðs á fasteignum. Nefna má hús Trésmiðjunnar Víðis við Laugaveg þar sem skatturinn var til húsa um árabil, hús sem var svo gott sem ónýtt við kaupin. Þar steinsnar frá er gamla Mjólkurstöðin sem keypt var undir Þjóðskjalasafnið og enn sér ekki fyrir endann á viðgerðum hennar fjörutíu árum síðar.
Sá er þó munur á nú og fyrir fjörutíu árum að hagkerfið hefur margfaldast að stærð. Þeir sem skapa verðmætin fá þó ekki að njóta nema hluta ávinningsins því ríkissjóður hefur á sama tíma stöðugt bætt í skattlagninguna. Hún er látin halda í við vöxt efnahagslífsins og gott betur. Þess vegna þurfa menn ekki að gefa sér marga áratugi til endurbóta á Bændahöllinni eins og reyndin var með Mjólkurstöðina.
Sú er þó líklega afturförin á sama tíma að hinar gríðarmiklu skatttekjur hafa leitt af sér síaukið virðingarleysi fyrir fjármunum skattgreiðenda. Endurgerð Bændahöll er stórglæsileg, um það þarf ekki að deila, en öll sú ytri ásýnd leiðir hugann að þeirri starfsemi sem hún á að hýsa: menntun kennara. Við blasir að þar er pottur brotinn þegar stór hluti ungmenna er ólæs við lok skyldunáms og skilningur íslenskra ungmenna á grundvallarfögum með því lakasta sem þekkist meðal vestrænna þjóða. Óhjákvæmilega þarf að bæta úr menntun kennara en Sara Júlíusdóttir, kennaranemi á þriðja ári, orðaði það svo í viðtali við Morgunblaðið í liðinni viku að henni fyndist sem hún lærði næsta fátt gagnlegt í kennaranáminu: „Ég kannski mæti í tíma og við erum að kubba. Svo mæti ég í næsta tíma og við erum í Varúlfi og nafnaleik. Við erum líka að æfa okkur í að halda bekkjarkvöld. Svo erum við að tala um kenningar.“
Er Hótel Saga mögulega orðin táknmynd fyrir eitt stærsta samfélagsmein okkar tíma — hinn vel falda skort á raunverulegu inntaki, þekkingu, visku? Var Bændahöllinni breytt í fokdýrar og glæsilegar umbúðir utan um rýrt innihald?