Þeir Íslendingar sem hafa verið á faraldsfæti um landið sitt í sumar, og þeir eru fjölmargir, hafa sjálfsagt áttað sig á mikilvægi staðfastrar byggðafestu. Ísland megi heita ómögulegt ef ekki er að finna trausta og trygga innviði um land allt, hvort heldur er á sviði samgangna, veitinga, verslunar og þjónustu, og þá er heilsugæsla og löggæsla ónefnd, slíkir lykilþættir sem það nú eru.
En þar hefur okkur mistekist hrapallega. Og það er af mannavöldum.
Landsbyggðin hefur verið svelt og vanrækt svo lengi sem elstu menn muna. Pólitíkin hefur verið tiltölulega miskunnarlaus í þeim efnum, því fjármunum og uppbyggingu hefur verið stefnt á einn og sama staðinn, í stærsta og valdamesta borgríki sem þekkist innan einnar á sömu álfunnar, Evrópu.
Gildir einu þótt þeir valdaflokkar sem ráðið hafa mest og lengst á þeim 80 árum sem liðin eru frá lýðveldistökunni, Sjálfstæðisflokkurinn í 70 ár og Framsóknarflokkurinn í 50 ár, hafi talið sig standa heilshugar með landsbyggðinni, því í verki hafa þeir ekki gert það. Gömlu flokkarnir hafa gefið henni langt nef. Og í rauninni hunsað hana.
Tölfræðin lýgur nefnilega ekki.
64 prósentum Íslendinga hefur verið þjappað saman á einn og sama staðinn, höfuðborgarsvæðið. Ekkert viðlíka þekkist annars staðar í Evrópu, ef allra minnstu borgríki eru undanskilin. Írland kemst næst okkur af nálægum löndum, en 40 af hundraði Íra búa í Dyflinni. Hlutfallið á Norðurlöndunum er frá 23 prósentum í Svíþjóð, 29 prósentum í Noregi, 31 prósenti í Finnlandi og 35 í Danmörku.
Þetta merkir með öðrum orðum að meira en tvöfalt fleiri Íslendingar búa á höfuðborgarsvæði en þekkist á öðrum Norðurlöndum, sem þýðir jafnframt að landsbyggðin hér á landi hefur setið að sama skapi langtum meira eftir í íbúaþróun en almennt þekkist í nágrannalöndum okkar. Þetta eru svo að segja lýðfræðilegar hamfarir. Og ástæðan er langvarandi pólitísk værukærð.
„Þetta eru svo að segja lýðfræðilegar hamfarir. Og ástæðan er langvarandi pólitísk værukærð.“
Tökum örfá dæmi í viðbót. Höfuðborgin í Sviss hýsir 5 prósent íbúa landsins, Berlín í Þýskalandi 6 prósent og Róm á Ítalíu 7 prósent. Í þessum höfuðborgum búa tífalt færri en í borgarlandi Íslands. Og enda þótt 19 prósent Frakka búi í og við París, 22 prósent Englendinga í Lundúnum og 25 prósent Tékka í Prag, sem þykir mikið á evrópska vísu, eru þar ekki einu sinni komnir hálfdrættingar á við það sem þekkist á eyjunni í norðri.
Raunar er þetta alvarlegra. Á tiltölulega skömmum tíma hefur það nefnilega gerst á Íslandi að 90 prósent landsmanna búa á tveimur svæðum, 82 prósent á milli Hvítánna í Borgarfirði og í Ölfusi – og 8 prósent í Eyjafirði. Það merkir að í raun og veru er aðeins að finna tvö mikilvirk og sjálfbær atvinnusvæði á Íslandi.
Afleiðing þessa er húsnæðiskreppa og umferðaröngþveiti. Sú öra borgsækni í íbúaþróun landsins veldur sífelldri þenslu með tilheyrandi verðbólgu og meiri vaxtaáþján en þekkist í þeim löndum sem Íslendingar reyna af veikum mætti að bera sig saman við.
Svo liggur fylgifiskurinn líka undir steini. Íbúar landsins fá ekki það sama fyrir skattpeninginn. Þar raðast menn í fyrstu og aðra deild, jafnvel þá þriðju, hvað aðgengi að þjónustu varðar. Og svo er hitt, sem er margsannað, að það er ávallt þægilegra að minnka eða sameina stofnanir úti á landi, eins langt frá miðlægu höfuðborgarvaldi og hugsast getur, fremur en að skera niður sér nær.
Og ber hér allt að sama brunni. Borgríkið Ísland mun áfram draga úr mætti landsbyggðanna, taki pólitíkin sér ekki alvöru tak eftir dásvefn hefðbundinna valdhafa í áraraðir, því ella er vert að spyrja hvernig það verður að aka um sumarlandið Ísland þegar styttast fer í annan endann á öldinni?