Mikið hefur verið rætt og ritað um fjármálalæsi og sýnist sitt hverjum, en hvað er fjármálalæsi? Rakst á eftirfarandi skilgreiningu á Vísindavefnum: Fjármálalæsi felur í sér getu til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum ákvarðana í fjármálum, þar með talið í efnahagsumhverfinu. Fjármálalæsi byggist á þekkingu, viðhorfum og hegðun og snýst um að geta tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma.
Þegar ég var krakki hafði fisksali einn komið sér fyrir í bílskúr í hverfinu. Hefði sennilega aldrei fengið leyfi fyrir atvinnurekstri í skúrnum hjá yfirvöldum nú, en þetta var þá (hugsið ykkur, fiskinum var pakkað inn í gömul dagblöð). Ég var iðulega sendur til fundar við fisksalann til að kaupa í soðið. Það gekk alla jafna snurðulaust, en stundum var fisksalinn léttpuntaður og þá kostaði allt 7 krónur, skipti engu hvað var keypt. Sumir viðskiptavina mölduðu í móinn, vildu borga rétt verð, á meðan aðrir nýttu sér ástand fisksalans og keyptu eins mikið og þeir gátu borið. Hverjir voru best læsir á fjármál í þessari sögu?
Þegar ég var 10 ára fengum ég og frændi minn vinnu við að naglhreinsa, skafa og rakka mótatimbri við byggingu félagsheimilis á Blönduósi. Við fengum 25 aura á spýtuna og gengum rösklega til verks, svo rösklega að verkstjórinn ákvað að binda enda á þessa akkorðsvinnu og setti okkur frændur á tímakaup. Vinnuframlagið snarminnkaði, við gættum þess að klára ekki fleiri spýtur á klukkustund en sem samsvaraði áður uppsettu verði, 25 aurum. Var ég orðinn læs á fjármál strax 10 ára gamall?
Á árunum 1957-1993 var tekinn upp s.k. skyldusparnaður. Öllum á aldrinum 16-25 ára var skylt að kaupa sparimerki og líma inn í þar til gerðar sparimerkjabækur. Á forsíðu þessara bóka var spakmælið: Græddur er geymdur eyrir og teikning af veiklulegri plöntu sem óx upp af einseyringi. Einseyringar eru nú safngripir og skemmst frá því að segja að spakmælið framan á sparimerkjabókunum hefði frekar átt að vera: Glataður er geymdur eyrir. Það þekkja og vita þeir sem reyndu. Hægt var að innleysa „sparnaðinn“ 26 ára, eða ef maður gifti sig. Þá urðu til svokallaðar sparimerkjagiftingar, konur og karlar gengu í hjónaband, þegar þau höfðu aldur til, leystu út peningana, skildu og fóru hvort sína leið, þegar féð var komið í budduna. Voru sparimerkjagiftingar ein tegund fjármálalæsis?
Á uppvaxtarárum mínum gekk efnahagsstefnan aðallega út á að reka fiskvinnsluna á núlli, sem þýddi nokkurn veginn að sumar vinnslur voru reknar með tapi en aðrar með gróða, en meðaltalið var núll. Til að hrinda þessari efnahagsstefnu í framkvæmd var gengi íslensku krónunnar fellt nokkuð reglubundið. Þá fékk vinnslan fleiri krónur fyrir gjaldeyrinn, en allar innfluttar vörur urðu dýrari, eðli málsins samkvæmt. Þetta varð til þess að þorri almennings eyddi öllum sínum sparnaði nánast jafnharðan áður en kaupmáttur rýrnaði vegna yfirvofandi gengisfellinga. Er hægt að fullyrða að þarna hafi almenningur verið vel læs á fjármál?
Árið 1979 var verðtryggingin lögleidd og árið 1981 voru tvö núll klippt aftan af krónunni. Nú vorum við komin með verðtryggða og óverðtryggða krónu og nafn- og raunvexti. Verðtryggingin gengur út á að krónan haldi verðgildi sínu, en í raun tryggir hún bara lánveitendur. Lántakendur, almenningur, geta ekki einu sinni treyst því að ávöxtun sparifjár sé jákvæð, og ef maður er með bundinn, verðtryggðan sparnaðarreikning, borgar maður ekki bara skatt af vaxtatekjunum heldur líka verðbótunum og jafnvel neikvæðum raunvöxtum. Maður borgar í raun skatt af því að reyna að viðhalda verðgildi peninganna! Hvað er þetta, maður? Ertu ekki læs á fjármál?
Árið 1982 fluttum við fjölskyldan heim frá útlöndum og fórum að reyna að koma okkur þaki yfir höfuðið. Í byrjun voru afborganir láns um 25% af launum, en í lok árs 1983 lá nærri að þær væru um 75%. Ársverðbólga var 70% og svo er fólk að væla yfir 4% verðbólgu nú. Þá var verðbólgan mæld út frá vísitölu framfærslukostnaðar, en nú vísitölu neysluverðs. (Veist þú, lesandi góður, hvað eru margar vísitölur brúkaðar á Íslandi? … Ekki ég heldur.) Fjármálalæsi þessara ára byggðist aðallega á því að reyna að ná endum saman, auka tekjurnar til að eiga fyrir skuldum, velta hverri krónu.
Las nýlega pistil eftir aldraðan hagfræðing þar sem hann ræddi um agaleysi í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, hallarekstur væri regla fremur en undantekning. Hvernig er brugðist við? Jú, með skatta- og gjaldahækkunum, sem að mati hagfræðingsins eru verðbólguhvetjandi aðgerðir, beint og óbeint (kröfur um hærri laun til að mæta auknum útgjöldum). (Ríki og sveitarfélög eru að gera alveg eins og ég forðum, reyna að auka tekjur til að eiga fyrir skuldum, en kjósa að sleppa því að velta hverri krónu.) Hann færir einnig rök fyrir því að Seðlabankinn einblíni um of á verðbólgumarkmið við vaxtaákvarðanir sínar, ákvarðanir hans geti í raun viðhaldið verðbólgunni. Held ég hafi skilið þetta rétt.
Las svo annan pistil þar sem höfundur færði rök fyrir því að breytt vægi húsnæðisliðarins í neysluverðsvísitölunni hefði leitt til lægri verðbólgu, ef útreikningunum hefði ekki verið breytt, væri verðbólgan 5% í stað 4%. Jafnframt spurði pistlahöfundur sig, hvort Seðlabankinn hefði hafið vaxtalækkunarferlið, ef Hagstofan hefði ekki breytt sínum útreikningum? En ég spyr eftir lestur þessara tveggja pistla: Hver stjórnar peningastefnunni, Seðlabankinn eða Hagstofan?
Fyrir Hrun gekk fjármálalæsi landans aðallega út á að „græða á daginn og grilla á kvöldin.“ Eftir Hrun var þorri almennings allt í einu orðinn fjármálaólæs.
Þetta var stutt yfirlit um íslenska hagsögu á mínu æviskeiði og hvernig fjármálalæsi getur breyst frá einum tíma til annars á Íslandi, aðallega viðbrögð við óreiðu í efnahagsstjórninni. Stóra spurningin er hins vegar þessi: Hvernig er hægt að ætlast til að almenningur bæti sitt fjármálalæsi, þegar ráðamenn hvers tíma haka nánast í engin box í skilgreiningunni hér að ofan, virðast í raun oft þjást af langvinnri og illvígri fjármálalesblindu?
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.