Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir fyrir sér fyrirhugaðri staðsetningu nýrrar líkbrennslu á höfuðborgarsvæðinu. Eins og fram hefur komið í fréttum undirrituðu dómsmálaráðherra og Kirkjugarðar Reykjavíkur nýlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýrrar líkbrennslu í Gufuneskirkjugarði í Grafarvogi.
Íbúar í nágrenni við Fossvogskirkjugarð hafa í nokkurn tíma kvartað undan ólykt og ösku frá Bálstofunni í Fossvogi, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1948. Ofnanir eru 76 ára gamlir, ekki búnir viðeigandi mengunarvörnum og því á undanþágu. Í nóvember í fyrra var tímasetningu starfseminnar breytt og eftir það eingöngu brennt að nóttu til. Var það gert í kjölfarið af ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins að endurskoða starfsleyfi Bálstofunnar í Fossvogi vegna mengunar.
Gert er ráð fyrir að líkbrennslan í Grafarvogi hefji starfsemi haustið 2026. Ríkissjóður leggur til 80 milljónir króna árlega í tólf ár til að standa undir stofnkostnaði nýrrar líkbrennslu. Framlagið mun nýtast til kaupa á tveimur nýjum líkbrennsluofnum og viðbyggingu við húsnæði Kirkjugarða Reykjavíkur í Gufunesi.
Dilja Mist segir íbúa í Grafarvogi þegar hafa sett sig í samband við hana með áhyggjur af fyrirhugaðri líkbrennslu.
„Leiða má að því líkur að margir íbúar Grafarvogs hafi leitt hugann að háværum umkvörtunum íbúa í nágrenni við Fossvogskirkjugarð við þessi tíðindi. Þar hefur líkbrennsla verið starfrækt í áratugi og umkvartanir íbúa mýmargar. Íbúar hafa til dæmis lýst því að ekki sé hægt að opna glugga vegna megns óþefs og sóts sem af brennslunni stafar og berst inn í híbýli. Þá hafa skólar lýst skaðlegum áhrifum af nábýlinu.“
Segist Diljá Mist hafa sent fyrirspurn til dómsmálaráðherra vegna málsins.
„Meðal þess sem ég óska eftir að ráðherrann svari er hvers vegna uppbyggingin muni eiga sér stað í Grafarvogi, svo nærri íbúðabyggð, og hvort aðrir valkostir hafi verið skoðaðir sem kynnu að valda minni skaða og ónæði fyrir almenning. Þá snýr fyrirspurnin að því hvort ráðherra hyggist grípa til ráðstafana, og þá hvaða, til að tryggja hagsmuni Grafarvogsbúa, svo sem vegna mengunar og loftgæða í kringum nýju líkbrennsluna.“
Diljá Mist, sem sjálf er búsett í Grafarvogi, segir það upplifun íbúa þar að þeir séu afskiptir og stjórnvöld gæti ekki hagsmuna þeirra. Grafarvogur hafa sem dæmi ekki átt fulltrúa í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur svo árum skiptir sem þekkir hverfið og gætir hagsmuna þess. Segir Diljá Mist nýleg þéttingar- og uppbyggingaráform í Grafarvogi bera þess mjög merki. Segir hún íbúa borgarhlutans geta treyst því að hún gæti hagsmuna þeirra í hvívetna.
„Það má vona að svör ráðherrans við fyrirspurn minni verði til þess að sefa áhyggjur okkar sem höfum misgóða reynslu af áhuga og umhyggju stjórnmálamanna fyrir hverfinu okkar.“