Dineout hefur í samstarfi við Fasteignafélagið Heimar innleitt nýja greiðslulausn á Hafnartorgi Gallery. Lausnin gerir gestum kleift að panta mat frá fleiri en einum veitingastað í einni og sömu pöntun, með einni greiðslu. Gestir skanna einfaldlega QR kóða sem staðsettir eru á öllum borðum og fá þá upp úrval allra veitingastaðanna, ásamt myndum og upplýsingum. Þar er svo hægt með einni pöntun að panta á mismunandi veitingastöðum og greiða fyrir allt í einni og sömu greiðslu. Lausnin hentar því einstaklega vel fyrir fjölskyldur og aðra hópa sem vilja greiða saman. Þessu til viðbótar er hægt að sjá áætlaðan biðtíma staðanna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Þar er haft eftir Ingu Tinnu Sigurðardóttur, forstjóra Dineout, að um byltingarkennda lausn sé að ræða.
„Ég tala alveg af eigin reynslu. Þegar við fjölskyldan förum saman á Hafnartorg Gallery þá vill hver fá sitt. Mig langar í sushi, maðurinn minn fer beint í steik, eitt barnið vill pizzu og hitt dreymir um mexíkóskt. Eftir matinn langar okkur svo í eftirrétt og kaffi frá sitthvorum stöðunum. Í stað þess að við séum öll á flakki á milli staða að panta og borga, setjum við þetta allt í eina pöntun og greiðum einu sinni. Það gerir upplifunina svo miklu betri – bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk.“
Þegar maturinn er tilbúinn fær viðkomandi SMS-skilaboð í símann. Þannig getur fólk slakað á og notið samverunnar. Auk þess er hægt að fylgjast með stöðu pöntunarinnar í rauntíma á vefsíðunni.
„Það hefur lengi verið þörf fyrir einfalda og straumlínulagaða pöntunarupplifun í mathöllum, þar sem fjölbreytnin er lykilatriði. Nú getur fólk setið saman, pantað í rólegheitum og bætt við fleiri réttum án þess að yfirgefa borðið,“ bætir Inga Tinna við. Á næstu vikum verða einnig innleiddir nýir sjálfsafgreiðslukassar á Hafnartorgi Gallery sem bjóða upp á myndræna framsetningu rétta, hraðari þjónustu og aukna sjálfvirkni með áherslu á einfaldleika og upplifun gesta.
Hafnartorg Gallery er ein glæsilegasta mathöll sinnar tegundar á landinu og nú líka sú tæknivæddasta. Nýja lausnin bætir hér ofan á með notendavænni upplifun, betri nýtingu starfsfólks og auknu frelsi fyrir matargesti.
„Það er ótrúlega gaman að taka þátt í svona tímamótaverkefni þar sem tæknin nýtist til að bæta bæði upplifun gesta og rekstrarlega hagkvæmni fyrir veitingaaðila. Við hjá Heimum erum gríðarlega stolt af því að taka þátt í þessari þróun í samstarfi við Dineout, sem hefur sannarlega sýnt fram á hvað íslenskt hugvit og hönnun getur gert,“ segir Sandra Arnardóttir, markaðsstjóri Smáralindar og Hafnartorgs.
„Það skiptir okkur miklu máli að veitingaeiningar okkar séu nútímalegar, aðgengilegar og faglegar og þessi lausn er stórt skref í þá átt. Þetta er framtíðin og við erum spennt að bjóða gestum okkar að upplifa hana.“
Dineout mun einnig sjá um sömu lausn og alla aðra tæknilega innviði, fyrir nýtt veitingasvæði Smáralindar sem nú er í framkvæmd og stefnt er á að opni fyrir lok árs 2025. Þar verður lögð áhersla á háþróaða upplifun fyrir gesti og hámarks hagkvæmni fyrir rekstraraðila, með sömu heildstæðu pöntunar-, afgreiðslu- og greiðslulausnum og á Hafnartorgi Gallery.