fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkar sem eru á móti sjálfum sér

Eyjan
Laugardaginn 31. maí 2025 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sögulega við málþóf og tafaleiki nýrrar stjórnarandstöðu á Alþingi Íslendinga er ekki bjánaskapur um plasttappa og önnur álíka aukaatriði þjóðmálaumræðunnar, sem þrefað hefur verið um svo dögum skiptir – og án innihalds – heldur sú sannreynd að minnihluti þingsins talar gjarnan gegn sjálfum sér. Hann man ekki betur eftir sínum góðu og sjálfsögðu málum í gömlum meirihluta, sem sum hver hafa verið endurflutt, en svo, að hann efast nú um þau og tefur fyrir þeim, kominn í minnihluta.

Stjórnarandstaðan er með öðrum orðum á móti sjálfri sér.

Einna best sést þetta í veiðigjaldafrumvarpinu. Þar fellur andstaðan á aulaprófinu. Og stendur nakin eftir eins og keisarinn forðum. En það er henni líkt. Enda öll pólitík hennar fólgin í því að fylgja sínum líkum, sjálfum kostendunum, herravaldinu, út yfir rök og skynsemi, og teika kapítalið.

Síðasta ríkisstjórn vildi hækka veiðigjöld. Það er margfrægt. Hún var sett saman af Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum og starfaði saman í sjö ár. Undir lok þess trista tímabils í stjórnmálasögu þjóðarinnar herti hún upp hugann og heimtaði meiri pening frá stórútgerðinni.

En það fór lágt. Ekkert ramakvein heyrðist þá úr héraði, hvorki frá landshlutasamtökum né félögum sjávarútvegsbyggða, og helstu áróðursmeistarar gjafakvótans höfðu ekki fyrir því að stinga niður penna. Enginn forkólfur atvinnulífsins sagði þá að heilu og hálfu landsfjórðungarnir færu í þrot ef stórútgerðinni yrði gert að greiða hærri gjöld, en alla þessa öld hafa þau raunar verið um helmingur þess sem landslög kveða á um, í stað 33 prósenta rentu hefur hún verið 16 til 18 prósent.

„Í fjármálaáætlun fyrri valdhafa komu fram áform þeirrar ríkisstjórnar um að hækka veiðigjöldin samtals um fjóra milljarða í tveimur þrepum.“

Hækkunin átti bara að fara í gegn án vandkvæða. Og hvað þá greiningar á áhrif hennar á byggðarlög. Það þurfti ekki þá. Og kom raunar aldrei til tals. Og enginn stjórnarþingmaður á þeirri tíð var efins.

Höfum staðreyndir á hreinu, og raunar vel það:

Þeirra frumvarp snerist um að hækka veiðigjald á uppsjávartegundir úr 33 í 45 prósent. Auk þess átti að fella niður heimild til að draga veiðigjald frá tekjuskattsstofni. Það átti að hækka heildartekjuskatt á útgerð, sem borgaði veiðigjald, um 10 til 20 prósent á hverju ári.

Og þetta átti að gera bara si sona, á síðustu metrum þingsins.

Frumvarpið fór inn í samráðsgátt í september í fyrra og samráðinu lauk síðla nóvember 2024, átta dögum fyrir kosningar. Í greinargerð sem fylgdi með í samráðsgátt stóð: „Verði frumvarpið að lögum er áætlað að hækkun veiðigjalds á uppsjávartegundir muni leiða til um eins milljarðs króna hækkunar á tekjum ríkisins í meðalári, en á móti mun niðurfelling 10% álags á uppsjávarafla lækka tekjur ríkissjóðs um 200 milljónir króna. Heildaraukning á tekjum ríkissjóðs muni því nema um 800 milljónum króna.“

Þá átti eftir að reikna inn áhrifin af því að fella niður heimildina til að draga veiðigjald frá tekjuskattsstofni. Það er mjög erfitt að finna nákvæma tölu um hvað þetta myndi skila, en í fjárlagafrumvarpi ársins 2025 kom fram að veiðigjöldin ættu að hækka um tvo milljarða króna í ár.

Og tökum eftir: Í fjármálaáætlun fyrri valdhafa komu fram áform þeirrar ríkisstjórnar um að hækka veiðigjöldin samtals um fjóra milljarða í tveimur þrepum. Líklega er það aðeins um þremur milljörðum minna en nú mun fást fyrir leiðréttinguna.

Einhverra hluta vegna voru engar sjónvarpsauglýsingar gerðar af þessu tilefni þar sem íbúum sjávarbyggðanna voru lögð orð í munn. Ekki einu sinni lesin skjáauglýsing.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
29.06.2025

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón
EyjanFastir pennar
28.06.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega
EyjanFastir pennar
26.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sterka hliðin og hin hliðin á NATO

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sterka hliðin og hin hliðin á NATO
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum