Það er sótt að frelsi einstaklingsins í mun ríkari mæli en verið hefur um langa hríð. Það sama gildir um frelsi félagasamtaka, fjölmiðla, menningarstofnana, háskólasamfélagsins og vísindageirans, að ekki sé talað um minnihlutahópa á borð við fatlað fólk og hinsegin manneskjur. Það er jafnvel að verða afturkippur í réttindum kvenna.
Frjálslyndið hefur látið á sjá vegna uppivöðslu íhaldssamrar einsleitni. Afturhaldinu finnst nóg komið, og hefur uppi kröfur um að beisla mannskapinn á nýjan leik. Það gangi ekki lengur að hann fari að vilja sínum, heldur sé réttast að svipta fólk rétti sínum til að standa með manngerð sinni, tilfinningum og þrám, hvort heldur það stendur eitt, eða í félagi hvert við annað.
Fyrir vikið hefur orðið bakslag í mannréttindum. Freka röddin hefur enn og aftur fengið vægi sitt í þjóðmálaumræðunni þar sem skipunin er á að giska sú að allt lúti einum vilja.
Og enda þótt einræðistilburðir af þessu tagi blasi hvað gleggst við í Bandaríkjunum nú um stundir þar sem skapandi vitsmunum eru settar skýrar skorðar, ella hafi þau verra af, er miklu víðar reitt til höggs.
Líka á Íslandi.
Jaðarsetningin hér á norðurhjaranum er nefnilega að festa sig í sessi. Áhugafólk um stjórnlyndi og gamaldags vistarbönd er í auknum mæli farið að gjalda varhug við því rými sem frjálslyndið hefur fengið í samfélagi okkar. Jafn réttur minnihlutahópa á við aðra landsmenn sé orðinn þjóðfélaginu ofviða, ef ekki í kostnaði, þá í flækjustigi þjónustunnar. Baráttusigrarnir fyrir sanngjarnara samfélagi á síðustu árum séu einfaldlega of dýru verði keyptir og kerfislega íþyngjandi um of.
Og svona talar auðvitað afturhald allra tíma.
„Freka röddin hefur enn og aftur fengið vægi sitt í þjóðmálaumræðunni þar sem skipunin er á að giska sú að allt lúti einum vilja.“
En jaðarsetningin smýgur inn um hvaða kima sem er. Og það er líklega vegna þess að óttaöflunum hefur orðið ágætlega ágengt við að tala niður rétt manna til fullrar samfélagsþátttöku – og að fá að njóta tækifæra og virkni á við aðra. Og nú er komið að náttúruverndarhópum þessa lands. Þeir skulu líka halda sér á mottunni. Íslenskir umhverfisverndarsinnar, sem rætt hafa við þann sem þetta skrifar, hafa staðhæft að stjórnvöld hér á landi hafi á síðustu árum haft uppi tilburði í þá veru að skilyrða styrki til frjálsra samtaka sem berjast fyrir því að náttúran njóti vafans í mannvirkjagerð. Félagsskapur þessa baráttufólks fái fjárhagsaðstoð, falli skoðanir þess að vilja ríkjandi valdhafa, en annars ekki.
Þetta gerist vegna þess að ráðamenn, hlaðnir magti og meiningu, telja að umhverfisverndarsamtök séu farin að skipta sér um of af framkvæmdavaldinu og þeim gælumálum sem þeir telja brýnt að hrinda hratt í framkvæmd. Umsagnarréttur þessara félagasamtaka standi framförum fyrir þrifum, fyrir nú utan óþolandi kærugleði þeirra sem ógni hreinlega heill og framtíð þjóðarinnar. Aðhaldið, sem lengi vel þótti sjálfsagt, lýðræðislegt, og kerfinu hollt, er nú afþakkað.
Hugmyndir manna um náttúrugrið megi vissulega vera fundarefni í fámennum kreðsum lattelepjandi lopapeysuliðs í lokuðum félagsheimilum, en fari aðhald þess úr hófi fram, og rétturinn til að andæfa út yfir þau mörk sem stjórnlyndið þolir, skuli neita þeim um styrk og áheyrn.
Það er því svo að þegar við hneykslumst á aðför sitjandi Bandaríkjaforseta að vísindasamfélaginu í Harvardháskóla í Vesturheimi fyrir að beina rannsóknum sínum að þáttum sem hugnast ekki honum, þá fer ágætlega á því að við lítum okkur nær.