Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
„Verðbólga var 4,2% í apríl og hefur minnkað töluvert frá því sem hún var mest fyrir tveimur árum. Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans mun hún haldast nálægt 4% út árið en taka síðan að hjaðna í markmið. Óvissa um verðbólguhorfur er þó áfram mikil, ekki síst vegna nýlegra vendinga í alþjóðlegum efnahagsmálum,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Þá er bent á að hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Spennan í þjóðarbúinu hafi því minnkað jafnt og þétt eins og sjá megi á hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði.
„Enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum sem endurspeglast m.a. í nýbirtum kortaveltutölum. Þá mælist töluverð hækkun launakostnaðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað eru þær áfram yfir markmiði.“
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir enn fremur að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri sé verðbólguþrýstingur enn til staðar.
„Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans. Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“