Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Guðmundur Ari Sigurjónsson, segir að stjórnarandstaðan hafi verið í furðulegum pólitískum leik síðan á laugardaginn, en þá var atkvæðagreiðslu um að vísa veiðigjaldafrumvarpinu til efnahags- og viðskiptanefndar í stað atvinnuveganefndar frestað fram til dagsins í dag.
Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Hildur Sverrisdóttir, hefur farið mikinn síðan þá og furðað sig á því að ekki hafi verið kosið um tillöguna á laugardaginn. Hildur kallaði það vandræðilegt að meirihlutinn hafi ekki sýnt þinginu þá virðingu að manna atkvæðagreiðslu og gagnrýndi eins að atvinnuvegaráðherra hefði ekki verið á svæðinu.
Hildur hélt þessum ávirðingum áfram strax þegar þinghald hófst í dag þar sem hún kvað sér hlóðs um fundarstjórn forseta og sagði meðal annars: „Það er lágmarks kurteisi og virðing sem ráðherrar sýna þingheimi að mæta til þingfundar þegar mál sem undir þá heyra eru til umræðu. Annað er með ólíkindum mikið virðingarleysi og ég beini því til forseta að ganga úr skugga um að það endurtaki sig ekki,“ og eins bindi Hildur því til meirihlutans að tryggja nægilega mætingu á þingfundi svo hægt sé að sinna þeim verkefnum sem þar koma upp og svo þingstörf geti gengið greiðlega fyrir sig.
Guðmundur Ari segir að það hafi komið sér á óvart um helgina að heyra stjórnarandstöðuna fullyrða að ekki hafi verið um góða mætingu að ræða á laugardaginn. Mæting hafi verið fín. Það sé þó algild venja að þegar tillaga er borin fram um að breyta því í hvaða nefnd frumvarp er sent að þá er slíku frestað til næsta þingfundar. Þessar upplýsingar hafi stjórnarflokkarnir fengið frá þingfundaskrifstofu.
„Að reyna að stilla þessu svona upp er einhvers konar pólitískur leikur sem mér þykir ekki gott… já, ég ætla kannski ekki að klára þá setningu.“
Guðmundur bendir á að eins hafi stjórnarandstaðan kallað eftir viðveru fjármálaráðherra, og sent var eftir honum. En þegar ráðherra var á leiðinni ákvað stjórnarandstaðan að taka sig af mælendaskrá og láta sig hverfa úr húsi.
„Þá er það gert sem pólitískur leikur að ráðherra hafi ekki mætt til leiks. Mér þykir mjög sérstakt hvernig hér er verið að stunda einhverja pólitíska leiki sem eiga að koma þannig út að fólk sé ekki að mæta í vinnuna eða sinna kallinu þegar hér var vel mætt af stjórnarliðum. Hefðin er að fresta afgreiðslu í hvaða nefnd mál fara ef upp kemur breytingartillaga og ráðherra var á leiðinni. Stjórnarandstaðan lét sig hverfa.“
Orð Guðmundar lægðu þó ekki öldurnar og stigu andstöðuliðar upp í pontu hver á eftir öðrum og gagnrýndu mætingu stjórnarliða á laugardag. Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks furðaði sig á því hversu lengi fjármálaráðherra var að koma sér á staðinn. Hann hafi ekki látið sjá sig allan laugardaginn á meðan þingfundum stóð. Þingfundur stóð yfir í um þrjár klukkustundir.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar benti þá á að fleiri stjórnarliðar hefðu verið í þingsalnum en andstöðuliðar á laugardeginum. „Aðalatriðið er að þingið fái núna þetta mál inn í nefnd þar sem hægt er að fara yfir þær fjölmörgu athugasemdir, skoðanir og rök, af því að það er alltaf þannig, sem fyrir liggja í málinu, kalla til hagaðila og halda áfram í þessari vinnu til þess að þjóðin upplifi það loksins í eitt skipti fyrir öll að hér verði greidd réttlát veiðigjöld til framtíðar,“ en við þetta heyrðist kallað úr sal: Heyr, heyr.
Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins furðaði sig á því að stjórnarandstaðan væri að kvarta eftir allt málþófið í síðustu viku þar sem Íslandsmet í lengd fyrstu umræðu á Alþingi var slegið. „Þetta var auðvitað Íslandsmet í málþófi og ekkert annað.“
Áfram héldu fulltrúar minnihlutans að skeggræða mætinguna á laugardaginn, eða í um 42 mínútur. Næst tekur við óundirbúinn fyrirspurnartími en að honum loknum verður kosið um að vísa veiðigjaldafrumvarpinu í nefnd.