fbpx
Mánudagur 05.janúar 2026
Eyjan

Össur vonsvikinn með hvað Sjálfstæðismenn leggjast nú lágt – „Skólabókardæmi um hvernig stjórnmálaflokkur á ekki að vinna“

Eyjan
Miðvikudaginn 2. apríl 2025 15:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi ráðherra er lukkulegur með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Hún sé stórskytta sem jafnvel Mogginn beri virðingu fyrir. Hins vegar sé nú dauft yfir Sjálfstæðisflokknum, en þingmenn flokksins hafi ekki verið flokknum eða sjálfum sér til sóma undanfarnar vikur.

Um þetta skrifar fyrrverandi ráðherrann á Facebook.

„Kristrún, sem sannarlega má kalla stórskyttu Samfylkingarinnar, heldur áfram að skora! Frá því hún varð forsætisráðherra hefur fylgið aukist um næstum þriðjung. Á meðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn varla hreyfst, rétt mjakast upp um eitt prósent – þó laus við Bjarna og undir splunkunýrri forystu.

Ástæðan fyrir fylginu er ekki síst að Kristrún er augljós leiðtogi sem talar skýrt – og lætur verkin tala. Fólki finnst hún röggsöm enda hefur ríkisstjórn hennar rutt út stórmálum á stuttum tíma. Miklu skiptir líka að í mjög erfiðu og snúnu máli sem varðaði afsögn barnamálaráðherrans varð henni hvergi fótaskortur. Fólk virti einfaldlega hreinskilni forsætisráðherrans.
Sjálfur Mogginn getur ekki dulið virðingu sína. Þegar ný forysta flokksins réðst persónulega á Kristrúnu út af máli barnamálaráðherrans skaut Davíð Oddsson skildi fyrir hana í Reykjavíkurbréfi. Sá maður hefur óþol fyrir miklu rugli, einkum frá eigin fólki.“

Stjórnlaus þingflokkur í ófrægingarherferð

Jafnvel hlaðvörp Moggans hafi hrósað forsætisráðherra, þó að það sé gert í dulbúningi hæðni. Til dæmis var á umdeildu bjórkvöldi Þjóðmála fjallað um að Kristrún væri alltaf með allt upp á tíu. Össur segir að nafnlaus höfundur hafi í krúttlegum pistli talað um að Kristrún gæti spilað allar stöður á vellinum og líkti henni við einn ástælasta handboltamarkvörð þjóðarinnar, Björgvin Pál Gústavsson.

Það sé þó öllu daufara yfir Sjöllum. Nú sé flokkurinn kominn í „blóðlausa biðstöðu“ þar sem beðið sé eftir næsta landsfundi þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og hennar stuðningsmenn muni gera aðra atlögu að formannssætinu. Á hinum vængnum bíði Guðlaugur Þór Þórðarson og hans menn tilbúnir að verja formennsku Guðrúnar Hafsteinsdóttur.

Á þingi hafi svo þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Hildur Sverrisdóttir, gert hverja tilraunina á eftir annarri til að ná höggi á Kristrúnu. Til dæmis með því að væna hana um lygar og láta að því liggja að Kristrún hafi bolað Ásthildi Lóu Þórsdóttur úr ráðherraembætti.

„Ófrægingarherferð formanns þingflokksins gegn Kristrúnu er svo skólabókardæmi um hvernig stjórnmálaflokkur á ekki að vinna. Í færslu frá síðasta sunnudegi sakar Hildur Sverrisdóttur hana efnislega um að hafa logið að þinginu. Fáheyrðar persónulegar árásir af þessu tagi skilja einungis eftir óbragð hjá fólki. Þær auka hvorki virðingu né fylgi við Sjálfstæðisflokkinn.

Að sama skapi virðist þingflokkurinn stjórnlaus – enda formaður hans upptekinn við annað. Hann skandalíserar með reglulegu millibili, ýmist með gölnu málþófi um plasttappa eða hótunum um að opinbera skrá skrímsladeildar flokksins um „beinagrindur“ þingmanna annarra flokka.“

Össur tekur fram að þegar hann var í pólitík glímdi hann lengi við Sjálfstæðisflokkinn. Þá hafi Sjálfstæðisflokkurinn slegið fast frá sér en aldrei undir beltisstað. Annað eigi við í dag.

„Sjálfstæðisflokkurinn sem ég átti í höggi við í meira en þrjá áratugi sló fast – en aldrei undir belti. Andspænis þessum vinnubrögðum kemur gömul smásaga eftir Þórarin Eldjárn ósjálfrátt upp í hugann – um lífríki borðtuskunnar.

Á meðan heldur Kristrún áfram að skora.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Fokið í flest skjól í Hádegismóum – skrímsladeildin endanlega tekin við

Orðið á götunni: Fokið í flest skjól í Hádegismóum – skrímsladeildin endanlega tekin við
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Við áramót

Óttar Guðmundsson skrifar: Við áramót
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gylfi Magnússon: Ekki hægt að tala um skattahækkanir

Gylfi Magnússon: Ekki hægt að tala um skattahækkanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Framtíðin veltur á lestri

Björn Jón skrifar: Framtíðin veltur á lestri
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Inntökureglur í Menntó

Óttar Guðmundsson skrifar: Inntökureglur í Menntó
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps