„Það fór þó aldrei svo að hann [Guðlaugur Þór] ynni ekki formannskosningu á landsfundi….,“ skrifar Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og samfélagsrýnir, í pistli þar sem hann fer yfir nýafstaðinn landsfund Sjálfstæðisflokksins. Segir hann að Flokkseigendafélagið og „hrútkofinn“ á Mogganum hafi tapað slagnum.
Í pistlinum gerir Össur mikið úr hlut Guðlaugs Þórs Þórðarssonar í naumum sigri Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Aðeins munaði 19 atkvæðum á Guðrúnu og mótframbjóðenda hennar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, og telur Össur að eindreginn stuðningur Guðlaugs Þórs á bak við tjöldin hafi tryggt sigur Guðrúnar.
„Hann færði henni meirihluta atkvæða úr Reykjavík, og skirrtist ekki við að beita hvaða brögðum sem var til að tryggja að fulltrúar úr hans armi voru kosnir á landsfundinn í hverju hverfafélaginu á fætur öðru. Nóg er að minna á slagsmálin á fundi Heimdallar þar sem erfðaprins Guðlaugs í borginni – maðurinn með sögufræga nafnið, Albert Guðmundsson – keyrði í gegn kosningu á mettíma þar sem samþykktur var listi yfir landsfundarfulltrúa. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra var úr stuðningsliði Guðlaugs Þórs og dagskipanin var vitaskuld að kjósa Guðrúnu. Sigur hennar var mjög naumur, aðeins 19 atkvæði, og því deginum ljósara að þau hundruð atkvæða sem Guðlaugur Þór og hans lið færði í kjörkassana réði algerum úrslitum,“ skrifar Össur.
Að hans mati hafi flokkurinn „slampast“ á að kjósa besta kandídatinn í embættið en þó efast ráðherrann fyrrverandi um að Guðrún muni ná einhverju fylgi af Viðreisn.
„Guðrún Hafsteinsdóttir virðist miklum kostum búin. Hún er glæsileg og frambærilegur stjórnmálamaður, virkar traustvekjandi og flutti á landsfundinum fyrir sinn hatt (sem vissulega er alltof langt til hægri) ansi góða og persónulega framboðsræðu. Hún þarf þó að vara sig, yfir hverju spori hennar verður vakað, og í óeiginlegri merkingu glitrar víða á rýtinga í ermum.
Ómenguð og skýrt útfærð hægri stefna Guðrúnar er líkleg til að laða til flokksins talsverðan hluta þeirra flökkukinda sem runnið hafa yfir á beitarhús Miðflokksins. Af sömu ástæðum er hins vegar ólíklegt að hún geri stór strandhögg í fylgi Viðreisnar eða flokkum lengra til vinstri. Til þess er hugmyndafræði hennar einfaldlega of langt til hægri,“ skrifar Össur.
Þá segir hann Áslaugu Örnu hafa verið of sigurvissa og misst keflið á lokametrunum.
„Hún mislas salinn og hélt að hún væri stödd á fundi í Heimdalli, þar sem klappað er fyrir aulabröndurum, og nóg er að ráðast á andstæðingana. En það hefur holan hljóm að berja á ríkisstjórn, sem ekki er búin að sitja nema örfáar vikur. Það var veikleikamerki að hún virtist með Kristrúnu Frostadóttur á heilanum og nánast skilgreina stefnu sína – það litla sem af henni birtist – út frá henni,“ skrifar Össur.
Þá klykkir hann út með því að fullyrða að Guðlaugur Þór hafi aldrei verið jafn valdamikill innan Sjálstæðisflokksins og nú, þrátt fyrir að gegna engu embætti innan Valhallar.
„Á sínum tíma urðu fræg ummæli Jónasar frá Hriflu þegar Gunnar Thoroddsen, tengdasonur Ásgeirs forseta beið lægri hlut fyrir Kristjáni Eldjárn í forsetakosningunum 1968. Jónas sagði þá með sínum sérstaka talsmáta: „Hö, hö, það fór þó aldrei svo að Ásgeir tapaði ekki kosningu!“ Þessum orðum má vel snúa yfir á Guðlaug Þór: Það fór þó aldrei svo að hann ynni ekki formannskosningu á landsfundi….,“ skrifar Össur.