

Í Afganistan ríkir ólögbundinn áskilnaður um að konur hylji sig frá toppi til táar í svokölluðum burqa-klæðnaði, – og lögin skylda konur um að klæðast hijab. Í Frakklandi voru hins vegar sett lög árið 2010 sem bönnuðu íslamskar höfuðslæður undir yfirskini þess að um væri að ræða áberandi trúarleg tákn. Í febrúar á þessu ári var frumvarp lagt fyrir franska þingið þar sem deilt var um algjört bann við höfuðslæðum í íþróttum þar í landi.
Það mætti álykta að fólk hefði skoðanir á klæðaburði kvenna, svo mjög að það sæi ástæðu til að binda þær í lög og að þessi tilhneiging væri alþjóðlegt fyrirbæri.
En útlitsbreytingar ná núna langt út fyrir klæðnað. Tæknin leyfir okkur að breyta nánast öllu. Þetta ódýrasta eða aðgengilegasta er kannski kílóatalan. Nú bendir margt til þess að hið svokallaða heroin-chic útlit sé að snúa aftur eftir áratugahvíld, en um er að ræða ofurgranna tísku sem oft er kennd við bresku ofurfyrirsætuna Kate Moss sem sló í gegn á níunda áratugnum. Framleiðsla á svokölluðu thin-spo eða pro-ano efni margfaldaðist á Tiktok, en um er að ræða hvatningar- og fræðsluefni fyrir fólk sem vill létta sig algjörlega óháð heilsufarslegum og óafturkræfum kostnaði. Fólk sem sækist eftir veikindalegu útliti í nafni tískunnar.
Í þessu miðju eru persónur og leikendur guðverur á Ólympusfjalli Hollywood-hæða sem eru ýmist of stórar eða smáar. Þessar guðaverur taka ákvarðanir varðandi eigin heilsu, lífstíl og oftar en ekki útlit – og auðvitað þarf skítug alþýðan að mynda sér skoðanir á kaffistofum um allan heim.
„Ég vil ekki vera fyrirmynd“ hefur verið haft eftir ekki minni stjörnum en Robyn, Rhiönnu og Ritu Ora. Þær hafa þannig varið ákvarðanir sem einhverjum hafa þótt fullt frjálslyndar eða kæruleysislegar, afsalað sér ábyrgð á þeim hugsanlegu áhrifum sem athafnir þeirra kunna að hafa á aðdáendahópinn sem oft getur verið í yngri kantinum. Það hlýtur auðvitað að vera óþolandi að þurfa að lifa eins og dýrlingur bara af því að þú ert vinsæll listamaður, vegna þess að þú veist að unglingar með óþroskaðan framheila fara að herma eftir öllu sem þú gerir. Það er ekki erfitt að hafa samúð með þeim aðstæðum. Útlit fræga fólksins þarf ekki að samræmast lýðheilsusjónarmiðum, eða hvað?
Manneskja, ekki markaðsvara, hefur verið slagorð femínista í áraraðir sem berjast gegn fjölbreyttri birtingarmynd á hlutgervingu kvenna í markaðslegum tilgangi. Þá hafa mannréttindaöfl einnig barist fyrir því að konur fái fullt vald yfir líkama sínum og hefur sú umræða verið einna háværust í tengslum við þungunarrof. En þegar ákveðið útlit kemst í hátísku sem kann að vera skaðlegt, til að mynda ofurgrannir líkamar sem leiða af sér lífshættulega sveltissjúkdóma með tilheyrandi röskun á lífsgæðum og í alvarlegustu tilfellum dauða, þá er þessum rökum einnig beitt.
„Látið Ariönu Grande í friði, hún á fullan rétt á því að ráða sjálf yfir líkama sínum. Hún má vera grönn og ber enga ábyrgð á sjúkdómum annarra.“
Það má alveg taka undir þessi sjónarmið. Stöðugar vangaveltur yfir kílóafjölda Ariönu Grande, hvort sem þær byggja á öfund, aðdáun eða umhyggju, enda yfirleitt á sama stað. Þær eru smjatt yfir útliti ókunnugs fólks. Ariana og útlit hennar, í tengslum við kynningarherferð á framhaldsmynd Wicked, er núna orðin að aðalumræðuefni í þessum eilífu rökræðum um ábyrgð frægra kvenna gagnvart ungum aðdáendum. Stjarnan svaraði þessu sjálf á Instagram með orðunum: „Heilsan á sér margar birtingarmyndir.“
Hið pólitíska hlutleysi. Svona eins og Eurovision var hlutlaust þangað til fólk ákvað að horfast í augu við staðreyndir.
En þetta ofurgranna útlit stjörnunnar hefur áhrif, það er hluti af stærri tískubylgju. Hér er áhrifamikill einstaklingur að taka meðvitaða ákvörðun um að smellpassa inn í stórhættulegan tískustaðal sem er í hátísku akkúrat þessa stundina. Hver er hvatinn? Þessi ákvörðun hefur skapað gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun og athygli fyrir kvikmyndina sem verið er að auglýsa. Það kann því að vera varasamt að afskrifa þörfina fyrir samtalið um átraskanir og áhrif eitraðra tískustaðla með þeim rökum að líkamar kvenna komi okkur einfaldlega ekki við.
Höfundur er femínisti. Höfundur reynir oftast að vera góður femínisti er var líka fjórtán ára árið 2000 og hefur lesið allt of mörg viðtöl við konur sem sluppu nær dauða en lífi úr síðustu „ofurgrönnu“-tískubylgju.