
Hlustaði á viðtal við tvær ungar mæður einhverfra drengja í morgunþætti Bylgjunnar. Þá vantar sárlega þjónustu talmeinafræðinga, en hún er ekki í boði, eða réttara sagt þeir eru á biðlista og þar eru nú um 5.000 börn. Minnir að annar þeirra fái hugsanlega umbeðna þjónustu þegar hann er orðinn 8 ára. Í viðtalinu kom m.a. fram að þessi þjónusta heyrir undir þrjú ráðuneyti. Gæti hugsanlega tengst því, hvort þjónustan fer fram á stofu, stofnun eða í heimahúsi? Það er enginn miðlægur biðlisti, þær þurfa að senda erindi á alla talmeinafræðinga, sem þær finna og vona hið besta. Það er skortur á talmeinafræðingum, en hafi ég skilið þetta rétt, þá eru fjöldatakmarkanir í námið, aðeins 15 teknir inn á hverju ári. Það var nöturlegt að hlusta á þetta viðtal en jafnframt gat maður ekki annað en dáðst af baráttuhug þessara ungu mæðra. Þær ætla ekki að láta kerfið buga sig. Og þetta er bara eitt dæmi af fjölmörgum í landi biðlistanna.
Ég hef búið hér lungann af ævinni og hef oft velt fyrir mér hvernig svona lítið samfélag getur komið sér upp svo flóknum kerfum að þeir sem þurfa að leita sér þjónustu, hjá ríki eða sveitarfélögum, vita stundum ekki hvert á að leita og þeir, sem ætla mætti að veita ættu þjónustuna, vita ekki hvar, hvernig eða hvenær. Þar bendir hver á annan og á meðan bíður fólk. Hefði haldið að um leið og biðlisti er að verða til, myndu menn staldra við og hugsa: Hér er eitthvað að. Nú þurfum við að láta hendur standa fram úr ermum. Þetta þarf að laga. En nei, biðlistum bara fjölgar og þeir lengjast. Það er eins og e.k. biðskylda sé orðin innbyggð í kerfið í okkar litla samfélagi. Endar sennilega með því að maður verður settur á biðlista til að komast á biðlista. Og fyrir þau ykkar sem eru komin á biðlista er hollt að hafa í huga að þótt þið séuð á biðlista, þá eruð þið ekki í röð.
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.