

Fylgi Miðflokksins eykst um rúmlega 3% samkvæmt nýjum Þjóðarpúls Gallup á sama tíma og stuðningur við ríkisstjórnina minnkar.
Tæplega 20% svara því að þeir myndu kjósa Miðflokkinn efkosið yrði til Alþingis nú. Þetta er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi annarra flokka breytist lítið eða á bilinu 0,1-1,1 prósentustig og eru breytingarnar ekki tölfræðilega marktækar.
Liðlega 31% kysi Samfylkinguna, tæplega 17% Sjálfstæðisflokkinn, nær 13% Viðreisn, tæplega 6% Framsóknarflokkinn, rúmlega 5% Flokk fólksins, ríflega 3% Pírata og Vinstri græn og rúmlega 2% Sósíalistaflokk Íslands. Slétt 6% myndu skila auðu eða ekki kjósa og næstum 13% taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.

Nær 59% þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina, sem er tveimur prósentustigum færri en í síðustu mælingu.
Spurt var:
Niðurstöðurnar koma frá Netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. – 30. nóvember 2025. Heildarúrtaksstærð var 10.332 og þátttökuhlutfall var 41,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,5-1,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.