
Það fer gríðarleg orka í þýðingar en Karli Ágústi Úlfssyni finnst best að sitja lengi við þegar hann vinnur að þýðingum. þannig tengist hann verkinu betur en ella. Þýðingarnar eru orðnar 110 og margar mjög umfangsmiklar, heilu söngleikirnir og bækurnar fyrir utan leikrit og fleira. Karl Ágúst er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Karl Ágúst - 6
Þú hefur skrifað bækur og maður áttar sig á því þegar maður opnar bókina þína og það kemur listinn yfir fyrri verk eða ritaskrá. Þar ertu nokkrar bækur og svo ertu með leikritin alveg í röðum. En þú hefur líka þýtt mikið. Þú hefur þýtt heilu söngleikina.
„Já, já, ég hef þýtt marga söngleiki. Ég hef nú ekki tölu á þeim hvað þeir eru margir. Og svo náttúrlega helling af leikritum, barnabækur og smásögur og eitt og annað. Ég held að heildartalan yfir þýðingarnar mínar sé 110. Einhvern tímann rúllaði ég yfir listann og taldi. Þannig að það er einhvers staðar á því bili.“
Hvernig vinnurðu? Ég er bara forvitinn af því ég er sjálfur að, að reyna að þýða dálítið og gengur voðalega hægt allt sem ég geri. Þú ert svo afkastamikill. Hvernig ferðu að þessu?
„Ég er ekkert viss um að mín aðferð sé betri en aðrar en ég sit oft mjög lengi við. Það er einhvern veginn, reynsla mín er sú að eftir því sem ég rembist lengur og harðar við textann sem ég er að reyna að koma yfir á íslensku, þá einhvern veginn tengist ég verkinu kannski nánar heldur en ella. Og þá held ég kannski áfram, ég veit ekki hvað, upp í 10 tíma, 12 tíma eða eitthvað, að vinna að sama verkinu og eitt af því sem hefur gagnast mér best á, á þessum ferli mínum, bæði sem þýðandi og höfundur, er að komast einhvers staðar afsíðis. Komast í vinnuaðstöðu kannski út í sveit eða einhvers staðar úti á landi og geta bara verið þar. Þurfa ekki að miða mína tímasetningu við neitt annað en að ég bara sitji við eins lengi og ég hef einbeitingu og orku í þetta.
Það hefur náttúrlega breyst eftir að ég fór í aðgerð og orkan einhvern veginn er allt öðruvísi heldur en hún var. En ég hef oft eytt brjálæðislegum tíma í þessar þýðingar. Tíma sem er margir klukkutímar hver á eftir öðrum en kannski ekkert endilega margir mánuðir þannig að þetta klárast kannski á mun skemmri tíma heldur en ef ég gæfi mér ekki nema tvo, þrjá tíma á dag eða eitthvað svoleiðis.“
Þannig að þú tekur þetta með áhlaupi.
„Já, ég gerði það sérstaklega. Auðvitað voru þetta ofboðslega mörg og stór og mikil verkefni og stundum meira að segja var ég að vinna þetta jafnvel meðfram Spaugstofunni eða meðfram einhverju hlutverki sem ég var að leika eða eitthvað svoleiðis. Þannig að já, þetta gat orðið að heilmikilli næturvinnu.“
Ég tek eftir því þegar ég er að þýða, það er nú ekki oft sem að maður getur gefið sér heilan vinnudag. Maður er að hlaupa í þetta svona. En maður verður þreyttur.
„Já, já. Það fer rosaleg orka í þetta. Það er eitthvað sem maður þarf að segja fólki sem ekki hefur fengist við það sjálft. Það er nú annað, heilinn hann heimtar svo mikla orku og hann þarf svo mikla orku til þess að vinna vinnuna sína. Og það var nú kannski ástæðan fyrir því að ég var bara orðinn orkulaus þegar ég var að reyna að upphefja þessa endurhæfingu.“