

Rétt fyrir hrekkjavöku, birti Vogue pistil eftir Chanté Joseph undir fyrirsögninni „Er orðið vandræðalegt að eiga kærasta?“ Hún lýsir nýrri nethegðun sem hún hefur tekið eftir hjá gagnkynhneigðum konum, þar sem þær fela kærastana sína fyrir fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum. Höfundur bendir á að sumar þeirra njóti þess að virðast lausar og liðugar á netinu, með ávinningi og félagslegu kapítali, lækum og fylgjendafjölda, en á sama tíma njóti þær öryggis og ástar sem fylgir sambandinu.
Ef við speglum okkur í poppkúltúr má alveg finna mynstur. Áður gengu ástarsögur um ofurskvísur út á að finna hinn eina rétta (Grease, 1978). Á áttunni fóru þær að finna hinn eina rétta og æðislega vinnu (Working Girl, 1988) en núna eru þær að finna sjálfar sig (And just like that, 2025). Nútímakonan hefur beinan hag af því að skera elskhugann út af myndinni, blörra fótboltakjálkana og fótósjoppa kraftalega hönd af sólbrúnni öxl á Ítalíu. En hvers vegna?
Flestum okkar er tamt að líta á persónu okkar á samfélagsmiðlum sem ritstýrt fyrirbæri sem við leitumst við að fullkomna með örstuttum skrefum dag eftir dag. Þeir sem halda öðru fram eru líklega að ljúga að sjálfum sér eða öðrum. Þriðja rýmið, svæðið milli einkalífs og hins opinbera hefur í dag flust yfir á netið. Svæðið þar sem við mótum sjálfsmyndina, teygjum mörkin og prófum okkur áfram. Sérstaklega hjá kynslóðum sem lifa nær öllu sínu lífi í stafrænum heimi. Þegar internet-sjálfið og hið raunverulega sjálf eru orðin svona samofin og notandinn sjálfur á erfitt með að skilja á milli, hvorum megin birtist þá hið raunverulega sanna sjálf?
Allt til ársins 2023 mátti Ungfrú heimur ekki vera gift eða eiga börn. Sama ár felldi keppin Ungfrú Ísland úr gildi samhljóðandi kröfur um barnleysi og hjúskaparstöðu. Ungfrú Ameríka þarf hins vegar að vera laus og liðug og barnlaus. Það má þræta um tilgang þessa fyrirkomulags í öðrum pistli, en einhleyp Ungfrú Ameríka er væntanlega söluvænni fyrir samstarfsaðila en sú sem er gift og þriggja barna móðir. Í kóresku K-pop senunni eru poppstjörnur, konur og karlar, hvött og jafnvel skylduð til að halda tilhugalífi út af fyrir sig í því skyni að viðhalda fantasíu hjá aðdáendum. Á sama tíma eru poppstjörnur í vestrinu á borð við Taylor Swift, sem hafa gersamlega gert út á að matreiða ástarlíf sitt með taktískum hætti fyrir aðdáendur og nota sem efnivið í tónsmíðar. Við getum ályktað út frá þessum dæmum að hjúskaparstaða fræga fólksins skipti máli.
Það er til fólk í þessu landi, mis-frægt, sem hefur sjálft samband við fjölmiðla þegar það bæði hefur sambönd og slítur þeim. Það er líkt og verið sé að flagga hlutafjáreign og veifa Seðlabanka og kauphöll til þess að allir sitji nú örugglega við sama borð.
Þegar manneskjan er stafræn markaðsvara og við seljum okkar betra sjálf á samfélagsmiðlum mörgum sinnum á dag, þá er sjálf hjúskaparstaðan orðin breyta sem hefur marktæk áhrif á nafnvirðið. Fólk hefur sambönd og missir fylgjendur eða slítur samböndum og eignast fylgjendur. Fylgjendafjöldinn og lækin eru mælanlegt virði og hægt er að eiga við mælaborðið með ýmsum leiðum, til dæmis með því að fótósjoppa í burtu handlegg eða kjálkalínu.
Spurningin var kannski aldrei um hvort að það væri asnalegt að eiga kærasta, heldur frekar hvort að það borgi sig að vera einhleyp á netinu.