
Maður sem nýlega var dæmdur í 17 ára fangelsi fyrir grimmilegt morð réðst ekki alls fyrir löngu inn á skrifstofur Mannlífs og reyndi með hótunum að fá Reyni Traustason til að taka út fréttaúttekt um feril mannsins. Sagðist hættur öllum glæpum. Reynir rak hann á dyr og þá varð nú lítið úr hótunum stórkrimmans og atvikið var í raun broslegt. Reynir er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Reynir Traustason - 5
„Ég get sagt frá því að síðustu afskipti mín af þessum krimmum, það var á Mannlífi þar sem ég fékk heimsókn. Mann sem ég ætla ekki að nefna en var nýverið dæmdur í 17 ára fangelsi fyrir mjög grimmilegt morð. Hann kemur og hefur í hótunum við mig, situr um mig og kemur svo inn, ég bauð honum bara inn á skrifstofu og lokaði að okkur og ritstjórnin, svona maður sá að mönnum var brugðið. Nema þá er hann að krefjast þess að það verði tekin út frétt. Við höfum verið að rifja upp gamla frétt þar sem hann hafði verið að misþyrma einhverjum og svo framvegis og hann krafðist þess að við tækjum þetta út. Og ég spyr: „Af hverju? Er eitthvað rangt í þessu?“
„Nei, ég er bara búinn að vera edrú í öll þessi ár. Ég er löngu búinn að snúa baki við öllum glæpum og þetta er bara ekki sanngjarnt gagnvart börnunum mínum …“ og svo framvegis.
Þannig að ég segi: „Viltu ekki bara að við tökum það fram í lok úttektarinnar að þú hafir nú heldur betur snúið við blaðinu?“
„Nei, þú tekur þetta út,“ sagði hann.
Og þá sagði ég: „Þú bara hypjar þig út. Þú ert ekkert að segja mér fyrir verkum hér.“
Það verður svona brauk og braml og ég sé að það er einhver að reyna að opna til að koma inn að athuga hvað er að gerast. Nema svo tekur hann strikið, opnar, hleypur fram og ég fylgi á eftir honum. Svo stoppar hann í ytri dyrunum og kallar á mig: „Haltu kjafti, gamla fiskibollan þín!“
Ég sagði með mér: „Bíddu, er þetta allt sem þessi mikli glæpamaður hefur að segja? Hefur hann ekkert annað að segja?“ Nema svo fer hann bara út og næsta sem gerist er að hann er orðinn morðingi. Sætir þeim örlögum. Og ég sit uppi með það að vera gömul fiskibolla. Það er öllu skárra.“