
Íslenskan á undir högg að sækja. Efist einhver um það ætti sá hinn sami að hlusta á viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir kappleiki í boltaíþróttum.
Íþróttafréttamaður var að fjalla um möguleika Íslands í væntanlegum knattspyrnuleik við stjörnum prýtt lið Frakklands og ætlaði greinilega að vanda sig, en Ísland var ekki minni máttar, lítilmagni eða myndi mega sín lítils í þessari viðureign. Það var „undirhundur“, sennilega þýðing á enska orðinu „underdog“.
Las áhugaverðan pistil eftir Gísla Sigurðsson í Morgunblaðinu nýverið, ritaðan til varnar ritlaunum ríkisins. Þar stóð m.a.: „Alkunna er að vöxtur og viðgangur tungutaksins ræðst af því hversu vel er búið að þeim sem fást við nýsköpun tungunnar: skáldunum.“
Las bók eftir einn ástsælasta rithöfund þjóðarinnar. Á einum stað lýsir hann persónu sem illa „innréttaðri“. Las svo aðra bók eftir eina helstu vonarstjörnu íslensku glæpasögunnar. Þar er hún að lýsa tilfinningaþrungnu andrúmslofti. Loftið var ekki lævi blandið, ekki spennuþrungið, það mátti ekki einu sinni heyra saumnál detta. Nei, það var hægt að skera andrúmsloftið með hníf(?). Á öðrum stað er söguhetjan stödd niðri í fjöru. Sjórinn var ekki spegilsléttur, hafið ekki lygnt eða stillt. Nei, sjórinn var eins sléttur og hann getur orðið. Í íslenskum glæpasögum eru náttúrufars- og persónulýsingar yfirleitt frekar fátæklegar, sennilega ekki taldar skipta máli fyrir framvindu sögunnar.
Tilbúið dæmi um vöxt og viðgang tungutaksins og nýsköpun tungunnar í nýrri íslenskri glæpaþáttaröð, Reykjavík Confusion:
Þau sitja á steini niðri á strönd. Hann er með skollitað hár, klæddur í bláan jakka og brúnar buxur. Hún er ljóshærð, stuttklippt í rauðri kápu og hnésíðu, grænu pilsi. Það er hlýtt í veðri og hægt að skera andrúmsloftið á milli þeirra með hníf:
Hún tuldrar: Fékkstu ímeilið frá mér?
Hann drafar: Já.
Hún þvoglar: Opnaðirðu linkinn?
Hann hummar: Nei.
Hún hvíslar Ertu undirhundur?
Hann umlar: Nei, ég er beisikklí bara illa innréttaður.
Hún tautar: Sjórinn er eins sléttur og hann getur orðið.
Hann muldrar: Já, hann er fokking næs.
Hún, stendur upp: Ég er farin, bæ.
Hann, situr eftir: Ókei, bæ.
Hverjum er um að kenna þegar íslenskan er að breytast í einhvers konar bland í poka: tómlæti stjórnvalda, aumingjadómi og undanlátssemi skólakerfisins, áhugaleysi ungmenna á bókum Halldórs Laxness, lélegri ritstjórn bókaútgefenda, samfélagsmiðlunum eða útlendingum sem ekki nenna eða geta lært íslensku? Ætli það sé ekki bara okkur öllum að kenna? En hættum við að vera Íslendingar, þegar tungumálið glatast? Spyrjið Íra.
Bestu kveðjur úr óbærilegum léttleika tilverunnar.