

Á sjöunda áratugnum komu geimfarar til jarðar úr æsilegum reisum og lýstu fyrirbæri sem síðan hefur verið kallað Overview effect. Þetta er gjarnan tengt við för Apollo 8 og ljósmynd William Anders frá 1968. Við getum snarað þessu lauslega yfir á íslensku sem yfirlitsáhrifum.
Að sjá jörðina úr geimnum og finna til samkenndar með mannkyninu öllu, ástar og kærleika og hlýju, jafnvel ábyrgðartilfinningar. Þetta er falleg og rómantísk hugmynd og virkar í rauninni rökrétt, að þegar við áttum okkur á eigin ótrúlegu smæð gagnvart þessari viðkvæmu plánetu sem er svo pínulítil í alheiminum, þá finnum við til væntumþykju og ábyrgðartilfinningar og áttum okkur á því að við erum öll saman í liði. Ekki bara allir menn heldur öll jörðin.
Fyrir nokkrum árum sá ég auglýsingu þar sem fólk var hvatt til þess að hafa hvítar ljósaseríur uppi aðeins lengur, ég man ekki hvort að við vorum hvött til að byrja fyrr eða láta þær hanga seinna. Gildir einu. Þetta var hugmynd um að berjast saman gegn skammdeginu.
Þessi jólaljósasiður er sennilega eitt það fallegasta sem Íslendingar gera á jólunum, að lýsa upp myrkrið fyrir samferðamenn sína á þessum dimmasta tíma ársins. Ljós er nefnilega ekki það sama og ljós úti í glugga.
Ljós úti í glugga er nefnilega ekki bara fyrir þann sem hengir upp ljósið. Það er áminning fyrir vegfarendur, nágranna og, jú, vissulega íbúa, um að í fyrsta lagi sé þessi jólahátíð að nálgast og í öðru lagi, að það sé einhverja fegurð að finna í öllu myrkrinu. Að í flensum, jólaprófum, ársuppgjöri og álagi sé eitthvað sammannlegt og fallegt að finna. Að við sem byggjum þessa eyju séum þrátt fyrir allt í þessu saman. Miðflokksmenn og harðlínufemínistar eru hér saman að kveikja á rafrænu kerti til að komast í gegnum myrkasta skammdegið.
Desember er erfiður árstími fyrir marga. Þau sem misst hafa ástvini stíga þung spor inn í desembermánuð – í raun er þetta oft ömurlegur tími fyrir alla sem hafa það skítt og geta allskonar ástæður legið að baki. Á sama tíma og þetta getur verið frábær tími fyrir þá sem hafa það gott. Jólin ýkja í allar áttir. En í anda hátíðarinnar getum við munað að halda hurðinni fyrir næsta mann og andað djúpt áður en við hraunum yfir unglinginn á afgreiðslukassanum. Það er ekki honum að kenna að smjörið sé dýrt.
Stöldrum við, horfum á jólaljósin í gluggunum. Kannski geta þau framkallað okkar séríslenska svæðisbundna overview effect.